Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Útlendingar . Dvalarleyfi.

(Mál nr. 12340/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn um dvalarleyfi vegna náms.  

Af gögnum málsins varð ráðið að umsóknin væri enn til meðferðar. Taldi umboðsmaður að ekki hefði orðið slíkur dráttur á málsmeðferðinni að nægt tilefni væri til frekari athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 7. september 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 23. ágúst sl. sem beinist að Útlendingastofnun og lýtur að töfum á afgreiðslu umsóknar yðar frá 29. mars sl. um dvalarleyfi vegna náms.

Af kvörtuninni, og þeim gögnum sem henni fylgdu, verður ráðið að Útlendingastofnun hafi óskað eftir nánari upplýsingum vegna umsóknar yðar 9. maí sl. Beiðni stofnunarinnar hafi verið svarað með tölvubréfi 15. maí. Í framhaldi af því hafi stofnunin óskað eftir frekari upplýsingum 24. maí og 3. júlí og að fengnum skýringum tilkynnt yður 17. júlí að umsókn yðar hefði verið áframsend til Vinnumálastofnunar sem veitti yður tímabundið atvinnuleyfi 22. ágúst.

Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er mælt fyrir um svonefnda málshraðareglu. Samkvæmt henni skulu stjórnvöld taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Það hvort um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða á afgreiðslu máls af hálfu stjórnvalds er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður m.a. til eðlis viðkomandi máls og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess.

Af framangreindu verður ráðið að umsókn yðar sé enn til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Að því gættu sem fyrir liggur um samskipti stofnunarinnar við yður vegna málsins og framvindu þess verður ekki talið að enn hafi orðið slíkur dráttur á málsmeðferðinni að nægt tilefni sé til frekari athugunar af hálfu umboðsmanns að svo stöddu.

Með vísan til þess sem rakið er að framan lýk ég umfjöllun minni vegnar kvörtunarinnar að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Verði frekari tafir á meðferð málsins getið þér leitað til mín á nýjan leik teljið þér ástæðu til þess.