Utanríkismál.

(Mál nr. 12357/2023)

Kvartað var yfir ákvörðunum skrifstofu nefndar sem starfar samkvæmt þjóðréttarsamningi um aðstæður starfsmanna nefndarinnar.

Þar sem ákvarðanataka um réttindi og skyldur starfsmanna nefndarinnar er í höndum hennar sjálfrar og skrifstofu hennar var ljóst að umkvörtunarefnið félli utan starfssviðs umboðsmanns.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 6. september 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 3. ágúst sl. sem lýtur að ákvörðunum skrifstofu X-nefndarinnar um starfsaðstæður yðar. Í kvörtuninni kemur fram að þér viljið upplýsa um aðkomu embættismanna og/eða opinberra starfsmanna að framangreindum ákvörðunum en nefndin starfar samkvæmt ... og er íslenska ríkið aðili að honum.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingi eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt, sem nánar greinir í lögunum. Samkvæmt 3. gr. laganna tekur starfssvið umboðsmanns Alþingis til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórn­sýslulaga nr. 37/1993. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssvið umboðsmanns Alþingis eins og það er markað í lögum nr. 85/1997. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna getur hver sá sem telur sig beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir 3. gr., kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Þar sem ákvörðunartaka um réttindi og skyldur starfsmanna nefndarinnar er í höndum nefndarinnar sjálfrar og skrifstofu hennar, s.s. ráðið verður af þeim gögnum sem fylgdu kvörtuninni, en á meðal þeirra eru samskipti yðar við forstöðumann skrifstofu nefndarinnar, svo og formann nefndarinnar sjálfrar, er ljóst að ákvarðanir þar um falli utan starfssviðs umboðsmanns eins og það er skilgreint í lögum nr. 85/1997. Eru því ekki skilyrði að lögum til þess að ég geti fjallað frekar um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.