Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit.

(Mál nr. 12255/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands á kvörtun vegna loftræstingar á Litla-Hrauni.  

Í svari eftirlitsins til umboðsmanns kom fram að það hefði beðið eftir upplýsingum frá fangelsinu sem ítrekað hefði verið óskað eftir. Þær bárust á endanum og kom þá fram að fyrirhugað væri að sinna viðhaldi á kerfinu mjög fljótlega. Í ljósi þess var ekki ástæða fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. september 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 10. júní sl. yfir töfum á afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands á kvörtun yðar til þess er laut að loftræstingu í fangelsinu Litla-Hrauni. Nánar tiltekið tölduð þér loftræstinguna ófullnægjandi en af því hlytist m.a. að tóbaksreykur bærist á milli fangaklefa og þér þyrftuð að þola óbeinar tóbaksreykingar af þessum sökum.

Í tilefni af kvörtun yðar var Heilbrigðiseftirliti Suðurlands ritað bréf 4. júlí sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði afgreiðslu og meðferð erindis yðar. Svar heilbrigðiseftirlitsins barst 22. ágúst sl. en þar segir að fangelsinu hafi verið send fyrirspurn í kjölfar kvörtunar yðar en að ekki hafi borist svör við þeirri fyrirspurn. Í kjölfar frekari samskipta við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands var umboðsmanni afhent tölvubréf til yðar 31. ágúst sl. þar sem yður er stuttlega gerð grein fyrir ítrekun sem forstöðumanni fangelsisins var send. Þá upplýsti heilbrigðiseftirlitið umboðsmann með tölvubréfi 8. september sl. að 31. ágúst sl. hafi eftirlitinu borist svar forstöðumanns þar sem kemur m.a. fram að þjónustuaðili loftræstikerfisins sé væntanlegur í byrjun septembermánaðar og muni hann sinna hefðbundnu viðhaldi auk þess sem stjórnbúnaður kerfisins verði yfirfarinn í kjölfar ábendinga starfsmanna og fanga um að hugsanlega sé einhverju ábótavant í virkni þess. Þá kemur fram í niðurlagi bréfs forstöðumannsins að Heilbrigðiseftirliti Suðurlands verði gerð grein fyrir niðurstöðum fyrrgreindrar viðhaldsheimsóknar að henni lokinni. Að endingu upplýsti starfsmaður heilbrigðiseftirlitsins umboðsmann með um að eftirlitið hyggi á eftirlitsheimsókn í fangelsið fljótlega.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum og í ljósi þess að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur brugðist við erindi yðar til þess og hyggur á eftirlitsferð í fangelsið Litla-Hrauni, tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til a-liðar 2.. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.