Skaðabætur. Fjöleignarhús.

(Mál nr. 12358/2023)

Kvartað var yfir störfum Eignaumsjónar hf.  

Þar sem Eignaumsjón er einkaréttarlegur aðili voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. september 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 6. september sl. þar sem gerðar eru athugasemdir við störf Eignaumsjónar hf. Kvörtunin lýtur n.t.t. að ætlaðri vangá fyrirtækisins í tengslum við viðgerð á þaki fjöleignarhússins að [...], sem að yðar dómi varð til þess að upp kom raki og mygla í íbúð yðar. Kvörtuninni fylgdi afrit af áliti kærunefndar húsamála 7. apríl 2022 í máli nr. 10/2022 sem þér óskuðuð eftir vegna ágreinings við húsfélagið. Var það niðurstaða nefndarinnar að húsfélagið bæri skaðabótaábyrgð á tjóni í íbúð yðar.

Í tilefni af erindi yðar tek ég fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns Alþingis að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. sömu laga tekur starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Starfssvið umboðs­manns tekur hins vegar almennt ekki til einkaaðila, nema við­komandi einka­aðila hafi að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Ástæða þess að ég bendi yður á þetta er sú að Eignaumsjón hf. er hlutafélag sem starfar m.a. á grundvelli laga nr. 2/1995, um hlutafélög og telst því einkaréttarlegur aðili, en meginstarfsemi félagsins mun vera rekstrarumsjón fasteigna, og þá m.a. umsjón með daglegum rekstri húsfélaga í fjöleignarhúsum. Þar sem kvörtun yðar beinist að starfsemi einkaaðila, og í ljósi framangreindra lagareglna um starfssvið umboðsmanns Alþingis, brestur lagaskilyrði til að ég taki kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Lýk ég því athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.