Skattar og gjöld. Tekjuskattur.

(Mál nr. 12109/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun matsnefndar um frádráttarrétt erlendra sérfræðinga um að hafna umsókn um frádrátt frá tekjuskattsstofni á grundvelli ákvæðis þar að lútandi í lögum um tekjuskatt um búsetu- eða heimilisfestistíma. 

Ekki varð betur séð en nefndin hefði afgreitt umsóknina í samræmi við lögmælt hlutverk sitt og þau gögn sem lögð hefðu verið fyrir hana. Í ljósi atvika málsins og þess að úrskurður ríkisskattstjóra um takmarkaða skattskyldu viðkomandi á tilteknu tekjuári hafði ekki verið lagður fyrir nefndina benti umboðsmaður á þann möguleika að freista þess að óska eftir að nefndin tæki umsóknina aftur fyrir, eftir atvikum með vísan til efnis úrskurðarins eða annarrar staðfestingar ríkisskattstjóra á skattalegri heimilisfesti umrætt ár, og tæki afstöðu til þeirra áhrifa sem slíkt gagn kynni að hafa við mat á því hvort umræddu lagaskilyrði væri fullnægt

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. september 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 22. mars sl. yfir ákvörðun matsnefndar um frádráttarrétt erlendra sérfræðinga 1. febrúar sl. um að hafna umsókn yðar um frádrátt frá tekjuskattsstofni á grundvelli 6. töluliðar A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Var ákvörðunin reist á því að þér hefðuð ekki uppfyllt skilyrði þau sem kveðið er á um í fyrrgreindum töluliði. Í tilefni kvörtunarinnar voru matsnefndinni rituð bréf 14. apríl og 16. júní sl. þar sem umboðsmaður óskaði eftir afriti af gögnum málsins og nánari skýringum á mati nefndarinnar á búsetutíma og heimilisfesti erlendis. Svör bárust með bréfum nefndarinnar 4. maí og 5. júlí sl. Athugasemdir yðar bárust 25. maí og 28. júlí sl. 

  

II

1

Meðal skilyrðanna sem tiltekin eru í 6. tölulið A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 er eftirfarandi: 

Erlendur sérfræðingur hafi ekki verið búsettur eða heimilisfastur hér á landi á næsta 60 mánaða samfelldu tímabili fyrir upphaf starfa hans hér á landi, en þó þannig að fyrstu þrír mánuðir dvalar hérlendis teljast ekki með.

Framangreint skilyrði um búsetu eða heimilisfesti er jafnframt tiltekið í a-lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1202/2016, um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga, með efnislega sama orðalagi. Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er tekið fram að umsókn skuli fylgja staðfesting Þjóðskrár Íslands á íslensku heimilisfangi og því að skilyrði a-liðar 2. mgr. 2. gr. séu uppfyllt.

Umsókn yðar til nefndarinnar fylgdi m.a. búsetutímavottorð frá Þjóðskrá Íslands. Þar kemur fram að þér hafið átt lögheimili á Íslandi a.m.k. frá 1. janúar 2017 til 9. júlí 2018 og frá 12. desember 2022 til útgáfudags vottorðsins 17. janúar sl. en lögheimili yðar hafi í millitíðinni verið í Bandaríkjum Norður-Ameríku, þ.e. frá 9. júlí 2018 til 12. desember 2022. Þá fylgdi umsókn yðar vottorð skattyfirvalda þar vestra um að á árinu 2018 hefðuð þér búið og greitt skatta í Bandaríkjunum.

Í ákvörðun nefndarinnar var vísað til þess að áðurnefnt skilyrði a-liðar 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1202/2016 væri ekki uppfyllt. Í skýringum til umboðsmanns vísaði nefndin til þess að ríkisskattstjóri hefði úrskurðarvald um hverjir skyldu teljast heimilisfastir hér á landi í skilningi laga nr. 90/2003 og að ekki væri á forræði hennar að leggja mat á skattalega heimilisfesti umsækjenda eða hvort skráning lögheimilis á opinberu búsetuvottorði Þjóðskrár Íslands væri rétt.

  

2

Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftir­lit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum um hann og tryggja rétt borgarana gagnvart stjórn­völdum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórn­sýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Kveðið er á um hlutverk matsnefndar um frádráttarrétt erlendra sérfræðinga í 6. tölulið A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 með þeim orðum að nefndin skuli:  

[...] fara yfir þær umsóknir sem berast og meta þær m.a. með tilliti til menntunarstigs, sérþekkingar, reynslu og fjárhæðar launa. Telji nefndin umsækjanda uppfylla skilyrði ákvæðisins skal hún veita umsækjanda staðfestingu á því en hafna umsókn ella. Afrit af staðfestingu umsóknar skal senda ríkisskattstjóra.

Eftir yfirferð á gögnum málsins og með vísan til þess að umsókn yðar fylgdu engin gögn um að ríkisskattstjóri hefði úrskurðað um eða tekið aðra afstöðu til heimilisfesti yðar en þá sem fram kemur í fyrrgreindu búsetutímavottorði Þjóðskrár fæ ég ekki annað séð en að matsnefndin hafi afgreitt umsókn yðar í samræmi við lögmælt hlutverk sitt og þau gögn sem þér lögðuð fyrir hana.

  

3

Með athugasemdum yðar 25. maí sl. fylgdi afrit af úrskurði ríkisskattstjóra 14. janúar 2020 en hann var ekki meðal gagna sem fylgdu umsókn yðar til matsnefndar um frádráttarrétt erlendra sérfræðinga. Samkvæmt úrskurðinum var tilefni hans beiðni yðar um leiðréttingu á framtali 2019 vegna skattskyldu og heimilisfesti í Bandaríkjunum á tekjuárinu 2018. Í úrskurðinum kemur fram að þér teljist aðeins hafa verið með takmarkaða skattskyldu hér á landi á því tekjuári og hafið því einungis borið skyldu til að greiða skatt af tekjum sem upprunnar voru hér á landi. Með úrskurðinum var stofn til tekjuskatts og útsvars yðar lækkaður úr liðlega 6 millj. kr. í 47.172 kr. Þar sem ekki verður séð að matsnefndinni hafi verið kunnugt um úrskurðinn þegar hún afgreiddi umsókn yðar bendi ég yður á þann möguleika að freista þess að óska eftir að nefndin taki umsókn yðar til meðferðar á nýjan leik og þá eftir atvikum með vísan til efnis úrskurðarins eða annarrar staðfestingar ríkisskattstjóra á skattalegri heimilisfesti yðar árið 2018 og taki afstöðu til þeirra áhrifa sem slíkt gagn kynni að hafa við mat á hvort umræddu 60 mánaða marki hafi verið náð. Jafnframt bendi ég á að þér getið leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun ef þér verðið enn ósáttar að fenginni nýrri ákvörðun nefndarinnar. 

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.