Neytendamál. Endurupptaka. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 12325/2023)

Kvartað var yfir úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa sem komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtæki bæri að lækka reikning sinn, endurgreiða húsfélagi ákveðna fjárhæð og greiða gjald fyrir meðferð málsins hjá nefndinni.  

Umboðsmaður tók fram að ágreinngur milli selja og kaupanda væri einkaréttarlegur í eðli sínu og félli sem slíkur utan starfssviðs umboðsmanns. Á hinn bóginn væri kæruefndin hluti af stjórnsýslu ríkisins og féllu störf hennar af þeirri ástæðu undir eftirlit umboðsmanns.

Að því marki sem úrlausn nefndarinnar byggðist á mati á aðstæðum og sönnunar­gögnum sem lögð voru fram við meðferð málsins væri umboðsmaður almennt ekki í stakk búinn til þess að taka slíkt sönnunarmat til endurskoðunar lægi fyrir að nefndin hafi við þá úrlausn fylgt þeim reglum sem um eftirlit umboðsmanns beinist að. Að þessu gættu, og að virtum úrskurði nefndarinnar og gögnum málsins að öðru leyti, taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar. Þá taldi hann ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að synja beiðni um endurupptöku málsins.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. september 2023.

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 8. ágúst sl., f.h. A ehf., yfir úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa 11. júlí sl. í máli nr. 99/2022. Með úrskurðinum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að fyrirtækinu bæri að lækka reikning sinn og endurgreiða húsfélaginu Álfkonuhvarfi 53-55, kr. 19.840. Þá var fyrirtækinu einnig gert að greiða gjald vegna kostnaðar nefndarinnar af meðferð málsins að fjárhæð 15.000 kr., sbr. 4. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1177/2019, um kærunefnd vöru- og þjónustukaupa.

Hinn 14. júlí sl. óskaði fyrirtækið eftir því að kærunefndin tæki málið upp að nýju. Hafnaði nefndin beiðninni 4. ágúst sl. með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  

II

1

Með ákvæðum laga nr. 81/2019, um úr­skurðar­aðila á sviði neytendamála, hefur kærunefnd vöru- og þjónustukaupa verið falið að úrskurða með bindandi hætti í ágreiningsmálum sem falla undir nefndina og almennt einkaaðilar, neytendur, skjóta til hennar. Þegar sleppir sérstökum ákvæðum í lögunum um málsmeðferð fyrir nefndinni fer að öðru leyti um hana samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og nánari reglum sem ráðherra, sbr. 2. mgr. 15. gr. og 4. mgr. 16. gr. laga nr. 81/2019. Í framkvæmd hefur að jafnaði verið litið svo á að sá ágreiningur sem upp kemur á milli seljanda og kaupanda sé einkaréttarlegur í eðli sínu og falli sem slíkur utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis, eins og það er afmarkað í 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Á hinn bóginn er nefndin hluti af stjórnsýslu ríkisins og falla störf hennar af þeirri ástæðu undir eftirlit umboðsmanns, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997.

Í ljósi þessa beinist eftirlit umboðsmanns Alþingis með störfum nefndarinnar fyrst og fremst að því hvort kæru­nefndin hafi við úrlausn einstakra mála gætt skráðra og óskráðra reglna stjórnsýslu­réttar, nánari reglna sem settar hafa verið um störf nefndarinnar og að hún hafi að öðru leyti hagað störfum sínum í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Að því marki sem úrlausn nefndarinnar í einstöku máli byggist á mati á atvikum er umboðsmaður almennt ekki í stakk búinn til að taka slíkt mat til endurskoðunar liggi fyrir að kærunefndin hafi við þá úrlausn fylgt reglum sem eftirlit umboðsmanns beinist að samkvæmt framansögðu.

  

2

Um kaup á þjónustu er fjallað í lögum nr. 42/2000, um þjónustu­kaup. Í 1. mgr. 1. gr. þeirra segir að lögin taki til hvers kyns samninga um kaup á þjónustu sem veitt er neytendum í atvinnuskyni gegn endurgjaldi og þegar veitt þjónusta felur í sér m.a. vinnu við fast­eignir, vinnu vegna byggingarframkvæmda eða aðrar framkvæmdir á landi, og ráðgjafar-þjónustu sem veitt er í tengslum við slíka vinnu, sbr. 2. og 4. töluliður málsgreinarinnar. Í VII. kafla laganna er síðan fjallað um það hvernig verð fyrir keypta þjónustu skuli ákveðið. Segir þar í 28. gr. að hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu skuli neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan var mikil og hvers eðlis hún er.

Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 42/2000 kemur fram að 28. gr. laganna feli í sér reglu um hvernig verð skuli ákveðið ef ekki hefur verið samið um það eða það verður ekki ráðið af atvikum að öðru leyti. Í athugasemdum með 28. gr. laganna segir að hafi ekki verið samið um verð skuli greiða það verð sem telja megi sanngjarnt. Ef seljandi þjónustu hefur vísað til verðs í verðlistum, auglýsingum eða bæklingum skuli það lagt til grundvallar. Sé samið um verk miðað við ákveðinn tímafjölda eða verðið er ákveðið miðað við efniseiningu ræðst verðið af því hversu margir tímar voru í raun unnir eða hversu mikið efni var notað. Þá segir að verðið skuli ákveðið með hliðsjón af því hve þjónustan er mikil og hvers eðlis hún er. Verðið sé þannig háð því hver þjónustan er og hve mikið og vel er unnið. Við mat á því hvort efnismagn og tímafjöldi séu hæfileg skuli miða við hvað yfirleitt tíðkast í greininni þegar sambærileg þjónusta er innt af hendi (Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 974).

  

3

Af kvörtun yðar, fyrirliggjandi gögnum og úrskurði nefndarinnar verður ekki annað ráðið en að ágreiningur málsins varði fjárhæð greiðslu vegna ráðgjafaþjónustu í tengslum fyrirhugaðar framkvæmdir við fasteignina að Álfkonuhvarfi 53-55. Taldi húsfélagið að fyrirtækið hefði krafist of hárrar greiðslu fyrir ráðgjafaþjónustuna og krafðist þess fyrir nefndinni að reikn­ingur vegna þjónustunnar yrði lækkaður. Niðurstaða nefndar­innar var sú að húsfélagið hefði ekki náð að sýna fram á að fyrirtækið hefði krafist greiðslu umfram raunverulegs vinnuframlags, enda hafi ekki verið samið um ákveðinn tímafjölda verksins fyrir fram. Af vinnuseðli mætti þó ráða að fyrir­tækið hefði krafist greiðslu fyrir akstur í fjórar klukkustundir að fjárhæð 19.840 kr., að meðtöldum virðisauka­skatti, en að sama skapi hefði það einnig skráð akstur sem hluta af skráðum vinnustundum. Vegna þessa féllst nefndin á að fyrirtækinu bæri að endurgreiða húsfélaginu þá upphæð.

Í kvörtuninni, svo og athugasemdum fyrirtækisins við meðferð málsins fyrir nefndinni, kemur fram að fyrirtækið hafi ekki verið að rukka akstur í fjórar klukkustundir eins og úrskurður nefndarinnar beri með sér heldur hafi fyrirtækið verið að rukka fyrir fjórar ferðir líkt og vinnuseðill beri með sér. Verið væri að rukka fyrir notkun á bifreið sem þyrfti til að flytja búnað eins og stiga til að skoða húsið og sinna öðrum erindum varðandi þjónustuna sem keypt var.

Að því marki sem úrlausn nefndarinnar byggist á mati á aðstæðum og sönnunar­gögnum sem lögð voru fram við meðferð málsins er umboðsmaður, líkt og áður greinir, almennt ekki í stakk búinn til þess að taka slíkt sönnunarmat til endurskoðunar liggi fyrir að nefndin hafi við þá úrlausn fylgt þeim reglum sem um eftirlit umboðsmanns beinist að samkvæmt framansögðu. Að þessu gættu, og að virtum úrskurði nefndarinnar og gögnum málsins að öðru leyti, tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar. Fæ ég enda ekki betur séð en að það mat nefndarinnar að fyrirtækið hafi skráð akstur sem hluta af skráðum vinnustundum samkvæmt vinnuseðli sé í samræmi við téðan vinnuseðil en afrit hans var á meðal þeirra gagna sem fylgdu kvörtuninni. Í ljósi þessa tel ég ekki líkur á því að frekari athugun mín á málinu muni leiða til þess að ég hafi forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar að þessu leyti. 

  

III

Af gögnum málsins verður ráðið að fyrirtækið Framkvæmdir og ráð­gjöf ehf. hafi óskað eftir endurupptöku málsins hjá kærunefnd vöru- og þjónustukaupa 14. júlí sl. en að þeirri beiðni hafi verið hafnað af hálfu nefndarinnar 4. ágúst sl.

Um endurupptöku máls er fjallað í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, sbr. 1. tölul. ákvæðisins, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Ákvæðið veitir því aðila máls rétt til endurupptöku að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum innan vissra tímamarka þó í samræmi við 2. mgr. 24. gr. sömu laga. Endurupptaka stjórnsýslumáls felur því í sér að stjórnvald tekur fyrri ákvörðun sína til nýrrar skoðunar, s.s. á grundvelli nýrra upplýsinga eða gagna sem þýðingu hafa fyrir niðurstöðu málsins.

Í niðurstöðu kærunefndarinnar kemur fram að fyrirtækið hafi talið að niðurstaða hennar hafi verið röng og byggð á misskilningi á gögnum málsins. Rukkunin hafi verið í fullu samræmi við það sem hafi komið fram í tölvupósti þess til húsfélagsins 30. júní 2022, og því hafi neytandinn verið upplýstur um gjaldið. Þá hafi verið notast við sér­staka bifreið og kostnaðurinn því hóflegur. Engin ný gögn hafi hins vegar fylgt beiðninni en vísað til fyrir­liggjandi ganga hjá nefndinni.

Af fyrirliggjandi gögnum fæ ég ekki séð að þær upplýsingar sem þar koma fram sýni fram á að kærunefndin hafi reist úrskurð sinn 11. júlí sl. á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum eða að aðstæður í málinu hafi breyst þannig að 1. eða 2. töluliður 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993 hafi átt að leiða til endurupptöku málsins. Þá fæ ég ekki séð af gögnum málsins að lagðar hafi verið fram upplýsingar eða gögn sem benda til þess að veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku málsins á grundvelli óskráðra heimilda stjórnvalda. Með hliðsjón af framan­greindu, og að virtum þeim gögnum málsins sem ég hef undir höndum, tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að synja beiðni fyrirtækisins um að taka málið til nýrrar meðferðar.

  

IV

Með vísan til framangreinds tel ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari athugunar. Lýk ég því hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðs­­mann Alþingis.