Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Lögreglu- og sakamál. Eftirlit stjórnsýsluaðila.

(Mál nr. 12339/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu nefndar um eftirlit með lögreglu á erindi.  

Ljóst var af tölvusamskiptum viðkomandi við nefndina að málið sætti skoðun og jafnframt taldi umboðsmaður að ekki hefði orðið slíkur dráttur á málsmeðferð að tilefni væri til frekari meðferðar hans að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. september 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 21. ágúst sl. yfir töfum á afgreiðslu nefndar um eftirlit með lögreglu á erindi yðar til hennar er varðar ætlað misferli innan lögreglunnar. Samkvæmt kvörtuninni senduð þér erindi til nefndarinnar í byrjun árs en kvörtuninni fylgdu einnig afrit af samskiptum yðar við starfsmann nefndarinnar.

Samkvæmt gögnum, sem fylgdu kvörtun yðar, liggur fyrir að 28. júní sl. upplýsti starfsmaður nefndarinnar yður um að sökum vanhæfis nefndarmanns hefði ekki verið hægt að taka mál yðar til umfjöllunar á 8. fundi hennar. Af þeim sökum lægi ekki fyrir umfjöllun um málið eða niðurstaða. Þá liggja fyrir fleiri tölvubréf starfsmanns nefndarinnar þar sem þér eruð upplýstir um framgang málsmeðferðar hennar. Þessu til merkis má benda á tölvubréf 13. mars þar sem móttaka erindis yðar er staðfest, annað tölvubréf 27. mars sl. þar sem þér eruð upplýstir um að ekki hafi náðst að fara yfir erindi yðar og þér eruð beðnir að afmarka kvörtun yðar með tilgreindum hætti, 28. apríl sl. þar sem starfsmaður nefndarinnar fór þess á leit við yður að þér afmörkuðuð kvörtun yðar með tilgreindum hætti, 22. maí sl. þar sem þér eruð upplýstir um áætlanir nefndarinnar um hvenær mál yðar verði tekið fyrir og loks ofangreint tölvubréf 28. júní þar sem yður er gerð grein fyrir því að ekki hafi tekist að taka mál yðar til umfjöllunar vegna vanhæfis.

Ljóst er af ofangreindum tölvubréfasamskiptum yðar við starfsmann nefndar um eftirlit með lögreglu að málið hefur sætt skoðun starfsmanns hennar sem hefur enda óskað eftir frekari skýringum frá yður um tilgreind atriði í erindi yðar. Að þessu virtu og því að í lok júnímánaðar var yður gerð grein fyrir ástæðum tafa, sem þá urðu, verður ekki talið að enn hafi orðið slíkur dráttur á málsmeðferð nefndarinnar að tilefni sé til frekari meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis að svo stöddu.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ef þér teljið síðar að óréttlætanlegur dráttur hafi orðið á málsmeðferð nefndarinnar, getið þér leitað til mín á nýjan leik ef þér teljið ástæðu til þess.