Eftirlit stjórnsýsluaðila. Vinnumarkaður. Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir.

(Mál nr. 12351/2023)

Kvartað var yfir athugun Vinnumálastofnunar á starfsfyrirkomulagi fyrirtækis sem og töfum á afgreiðslu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins á stjórnsýslukæru.  

Í kjölfar eftirgrennslan umboðsmanns kvað ráðuneytið upp úrskurð sem hafði dregist vegna mikilla anna. Þar sem þá lá fyrir að ráðuneytið hefði fjallað um stjórnsýslukæruna og að það hefði hafið nánari athugun á stjórnsýslu Vinnumálastofnunar var ekki ástæða til að aðhafast frekar að svo stöddu.  

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. september 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A sem lýtur að athugun Vinnumálastofnunar á starfsfyrirkomulagi flugmanna flugfélagsins X ehf., svo og töfum á afgreiðslu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins á stjórnsýslukæru A, sem borin var undir ráðuneytið bæði í nafni þess og f.h. tiltekinna félagsmanna, frá 20. september 2021. Laut kæran að tilkynningu Vinnumálastofnunar 21. júní þess árs þar sem fram kom að stofnunin hefði lokið téðri athugun sinni.

Í tilefni af kvörtuninni var ráðuneytinu ritað bréf 5. september sl. þar sem þess var óskað að upplýst yrði hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Í svari ráðuneytisins 11. þess mánaðar segir að vegna mikilla anna í ráðuneytinu undanfarin misseri hafi afgreiðsla málsins dregist. Þá kemur fram að í ráðuneytinu hafi þann sama dag verið kveðinn upp úrskurður í málinu. Ráðuneytið hefur jafnframt afhent umboðsmanni afrit af úrskurðinum og tilkynningu til A þar um. Var það niðurstaða ráðuneytisins að hvorki A né tilgreindir félagsmenn ættu aðild að málinu. Var kærunni því vísað frá ráðuneytinu.

Með tölvubréfi 15. september sl. bárust jafnframt athugasemdir A vegna niðurstöðu ráðuneytisins. Tölvubréfinu fylgdi m.a. afrit af tölvubréfi skrifstofustjóra í ráðuneytinu 11. sama mánaðar til A. Þar kemur fram að ráðuneytið hafi á grundvelli stjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna óskað eftir nánari upplýsingum frá Vinnumálastofnun um verklag stofnunarinnar þegar henni berast upplýsingar um hugsanleg brot gegn ákvæðum laga nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, þ. á m. í tengslum við framangreinda athugun stofnunarinnar vegna X ehf. Þá segir jafnframt að ráðuneytið hafi upplýst Vinnumálastofnun um að það hafi ákveðið að óska eftir umsögn sérfræðings utan ráðuneytisins um þá efnisþætti sem komu fram í erindi A til ráðuneytisins í september 2021 um starfsemi X ehf.

  

II

Ég tek í upphafi fram að ég legg þann skilning í kvörtunina að hún lúti m.a. að því hvernig Vinnumálastofnun sinnti lögbundnu eftirlitshlutverki sínu gagnvart X ehf. Að því marki sem kvörtun yðar lýtur að stjórnsýslu Vinnumálastofnunar að þessu leyti bendi ég yður á að samkvæmt 1. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, fara ráðherrar með og bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, hver á sínu málefnasviði. Þá fara ráðherrar, samkvæmt IV. kafla laganna, með stjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart þeim stjórnvöldum sem heyra stjórnarfarslega undir þá eins og nánar greinir í lögum.

Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Í samræmi við þetta hefur umboðsmaður fylgt þeirri starfsvenju að áður en mál er tekið til meðferðar sé rétt að æðra sett stjórnvald, sem fer með yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með að taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til þess að beita þeim heimildum.

Samkvæmt framangreindu liggur nú fyrir að ráðuneytið hefur fjallað um stjórnsýslukæru A svo og hafið nánari athugun á stjórnsýslu Vinnumálastofnunar að þessu leyti. Í þessu ljósi tel ég rétt að áður en ég tek kvörtun yðar til frekari meðferðar, hvort heldur varðar téðan úrskurð ráðuneytisins eða þau atriði sem lúta að stjórnsýslu Vinnumálastofnunar og rækslu stofnunarinnar á eftirlitshlutverki sínu, liggi niðurstaða ráðuneytisins í tengslum við boðaða athugun sína fyrir. Því tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar að svo stöddu. Teljið þér A enn rangsleitni beitt, og eftir atvikum félagsmenn þess, að lokinni athugun ráðuneytisins á stjórnsýslu Vinnumálastofnunar er unnt að leita til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi. Hvað snertir úrskurð ráðuneytisins mun ég þá ekki líta svo á að sá ársfrestur sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 sé liðinn, berist kvörtun þar að lútandi án ástæðulausra tafa eftir að athugun ráðuneytisins lýkur og A hefur verið upplýst um það.

  

III

Með hliðjón af framangreindu lýk ég því meðferð minni á kvörtuninni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.