Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11744/2022)

Kvartað var yfir úrskurði yfirskattanefndar og vísað til niðurstöðu héraðsdóms í máli annars fyrirtækis til rökstuðnings kvörtuninni.

Í ljósi heimildar ríkisskattstjóra til að leiðrétta álagningu á skattaðila ef yfirskattanefnd eða dómsólar hafa í hliðstæðu máli hnekkt skattframkvæmd sem skattskil eða ákvörðun skattyfirvalda er byggð á og þar sem dómsmálinu sem vísað var til hafði verið áfrýjað til Landsdóms taldi umboðsmaður rétt að frekari athugun hans á málinu biði þar til niðurstaða þar væri fengin. Ef viðkomandi teldi enn tilefni til að fjalla um kvörtunina að fenginni úrlausn málsins fyrir dómstólum eða eftir atvikum málsmeðferð stjórnvalda í kjölfar beiðni um leiðréttingu álagningar eða endurupptöku málsins gæti hann leitað til umboðsmanns á ný.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 25. september 2023.

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A yfir úrskurði yfirskattanefndar 23. júlí 2021 í máli nr. 114/2021. Þá er vísað til bréfs yðar 17. júlí sl. þar sem upplýst var um niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí sl. í máli Vulkanreiser AS gegn íslenska ríkinu (mál nr. E-5787/2022). Í bréfinu kom enn fremur fram að málið varðaði sams konar mál og mál umbjóðanda yðar og sömu niðurstöðu skattyfirvalda í því.

Í tilefni af erindinu var yfirskattanefnd ritað bréf  27. júlí sl. og óskað upplýsinga um það hvort hún hygðist taka mál umbjóðanda yðar til endurskoðunar í tilefni af niðurstöðu héraðsdóms. Í svari nefndarinnar 18. ágúst sl. kom m.a. fram að íslenska ríkið hafi áfrýjað dómi í máli Vulkanreiser AS til Landsréttar og sé málið að finna á lista yfir áfrýjuð mál á vef dómstólsins. Þá vék nefndin í svarbréfi sínu jafnframt að því að samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er ríkisskattstjóra heimilt að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni að leiðrétta álagningu á skattaðila ef yfirskattanefnd eða dómstólar hafa í hliðstæðu máli hnekkt skattframkvæmd sem skattskil eða ákvörðun skattstjóra eða ríkisskattstjóra var byggð á. Sama eigi við sé beinlínis kveðið á um í lögum að fallið sé frá fyrri skattframkvæmd.

Með hliðsjón af framangreindu tel ég  rétt að frekari athugun mín á kvörtuninni bíði þar til niðurstaða dómstóla í ofangreindu máli liggur fyrir. Tel ég því ekki rétt fjalla að svo stöddu frekar um kvörtun yðar. Ég árétta að umbjóðandi yðar, eða þér fyrir hans hönd, á þess kost að óska eftir því að ríkisskattstjóri leiðrétti álagningu umbjóðanda yðar með vísan til niðurstöðu héraðsdóms, eða eftir atvikum Landsréttar, á grundvelli framangreinds ákvæðis laga nr. 90/2003. Samkvæmt ákvæðinu skal beiðni á grundvelli þess borin fram innan eins árs frá því ári þegar úrskurður eða dómur í hliðstæðu máli var kveðinn upp. Synjun um breytingu á álagningu verður enn fremur borin undir yfirskattanefnd.

Ef þér teljið að enn sé tilefni til þess að ég fjalli um kvörtun yðar að fenginni úrlausn málsins fyrir dómstólum eða eftir atvikum málsmeðferð stjórnvalda í kjölfar beiðni um leiðréttingu álagningar eða endurupptöku málsins hjá yfirskattanefnd er yður fært að leita til mín á ný. Mun ég þá ekki líta svo á að ársfrestur, sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, byrji að líða fyrr en endanleg afstaða stjórnvalda til þeirra þátta sem kvörtunin lýtur að liggur fyrir.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.