Gjafsókn. Umboðsmaður aðila stjórnsýslumáls.

(Mál nr. 12234/2023)

Kvartað var yfir málsmeðferð og synjun dómsmálaráðuneytisins á beiðni um gjafsókn.  

Nefndin taldi ekki hafa verið sýnt fram á að nægilegt tilefni væri til málsóknar þar sem ekki yrði séð að gagnaöflun væri lokið og málshöfðun væri nauðsynleg eða tímabær. Ekki yrði séð að afstaða gagnaðila lægi fyrir. Enn fremur taldi nefndin út frá fyrirliggjandi gögnum að málsefnið væri ekki þannig að nokkrar líkur væru á að málið ynnist fyrir dómi. Var m.a. vísað til þess að umsókninni hefði ekki fylgt stefna eða drög að stefnu og takmörkuð gögn. Umboðsmaður taldi ekki forsendur til að líta svo á að mat nefndarinnar væri óforsvaranlegt eða að öðru leyti í andstöðu við lög þannig að efni væru til að gera athugasemdir við umsögn hennar eða synjun ráðuneytisins við veitingu gjafsóknar. Hann vakti his vegar athygli á að sú niðurstaða kæmi ekki í veg fyrir að frekari gagna yrði aflað og sótt um að nýju á þeim grundvelli. 

Í kvörtuninni voru jafnframt gerðar athugasemdir við að viðkomandi hefði ekki verið tilkynnt sérstaklega um endurupptöku málsins. Í ljósi þess að lögmanni sem farið hafði með málið fyrir hönd viðkomandi hafði verið tilkynnt þetta taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við að umbjóðanda hans hefði ekki verið tilkynnt sérstaklega um ákvörðunina.  

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 29. september 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 9. júní sl. fyrir hönd A er lýtur að málsmeðferð og synjun dómsmálaráðuneytisins 9. maí sl. á beiðni hennar um gjafsókn vegna máls sem hún hyggst höfða gegn manni, sem hún kærði til lögreglu vegna ætlaðra kynferðisbrota, til greiðslu miskabóta.

Í tilefni af kvörtuninni var dómsmálaráðuneytinu ritað bréf 4. júlí sl. þar sem þess var óskað að [gjafsóknarnefnd] afhenti umboðsmanni afrit af gögnum málsins og bárust þau fimmta sama mánaðar.

Þér hafið áður leitað til umboðsmanns fyrir hönd A 8. september 2022 vegna synjunar dómsmálaráðuneytisins 5. apríl þess árs við beiðni hennar um gjafsókn. Eftir að umboðsmaður hafði óskað eftir skýringum af hálfu dómsmálaráðuneytisins vegna málsins upplýsti það að málið yrði endurupptekið. Lauk því athugun umboðsmanns vegna málsins með vísan til þess. Athugun mín nú beinist að synjun ráðuneytisins 9. maí sl.

  

II

1

Um skilyrði gjafsóknar er fjallað í 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í upphafi málsgreinarinnar er kveðið á um það grundvallarskilyrði að gjafsókn verði aðeins veitt gefi málstaður umsækjanda „nægilegt tilefni“ til málshöfðunar eða málsvarnar. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar getur ráðherra í reglugerð kveðið nánar á um skilyrði gjafsóknar, þ.m.t. hvenær nægilegt tilefni sé til veitingar gjafsóknar.

Með stoð í 2. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 hefur ráðherra sett reglugerð nr. 45/2008, um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjaf­sóknarnefndar. Í 2. gr. reglugerðarinnar er fjallað um efni umsóknar, rökstuðning og fylgigögn. Þar segir m.a. að umsókn um gjafsókn skuli fylgja helstu málsskjöl, staðfest ljósrit skattframtala umsækjanda og maka eða sambúðarmaka næstliðin tvö ár, gögn um tekjur umsækjanda og maka eða sambúðarmaka á því tímabili sem liði er frá síðasta skatt­framtali, önnur gögn sem þýðingu hafa eða rökstyðja beiðni umsækjanda um gjafsókn, væntanlega kröfugerð, afstöðu gagnaðila og upplýsingar um réttaraðstoðar- eða málskotstryggingu ef umsækjandi nýtur slíkrar tryggingarverndar, sbr. 3. mgr. greinarinnar.

Í 4. gr. a. sömu reglugerðar er fjallað um þau megin­sjónarmið sem hafa skal hliðsjón af við mat á því hvort nægilegt tilefni sé til málsóknar eða málsvarnar. Samkvæmt 1. tölulið greinar­innar skal hafa hliðsjón af því hvort málefnið sé nægilega skýrt og að málsókn sé nauðsynleg og tímabær. Þar með talið hvort málatilbúnaður sé nægilega skýr þannig að ætla megi að málið sé tækt til efnis­meðferðar fyrir dómstóli, hvort leitast hafi verið við að leysa málið utan réttar, þ. á m. fyrir úrskurðarnefndum, og hvort að gagnaöflun utan réttar sé lokið og málshöfðun nauðsynleg og tímabær. Samkvæmt 2. tölulið sömu greinar skal einnig hafa hliðsjón af því hvort málsefnið sé þannig að nokkrar líkur séu á því að málið vinnist fyrir dómi. Er þar m.a. heimilt að horfa til þess hvort dómstólar hafi áður leyst úr sambærilegu ágreiningsefni.

  

2

Með 126. gr. laga nr. 91/1991 hefur löggjafinn falið gjafsóknarnefnd að líta til ákveðinna sjónarmiða er lúta m.a. að líkum þess að mála­rekstur muni bera árangur. Að virtum lagagrundvelli gjafsóknar sem og reglugerð nr. 45/2008 hefur umboðsmaður Alþingis ekki gert athuga­semdir við að gjafsóknarnefnd geri kröfur til þess að sýnt sé fram á að málarekstur gjafsóknarbeiðanda beri það með sér að nokkrar líkur séu til að fallist verði á kröfur umsækjanda, enda sé þá ekki uppi raunverulegur vafi um sönnunaratriði eða umdeild málsatvik, sbr. til hliðsjónar álit setts umboðsmanns Alþingis 26. apríl 2010 í máli nr. 5746/2009. Verður því almennt að ljá gjafsóknarnefnd nokkurt svigrúm við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 126. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt.

Þá leiðir það enn fremur af hlutverki umboðsmanns Alþingis, eins og það er afmarkað í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að þegar löggjafinn hefur falið stjórnvöldum mat á tilteknum atriðum beinist athugun umboðsmanns fyrst og fremst að því að kanna hvort stjórn­vald hafi lagt fullnægjandi grundvöll að máli, hvort það hafi byggt mat sitt á málefnalegum sjónarmiðum og dregið forsvaranlegar ályktanir af gögnum málsins, auk þess að það hafi gætt að réttum málsmeðferðarreglum að öðru leyti. Í slíkum tilvikum felur athugun umboðsmanns ekki í sér að lagt sé nýtt eða sjálfstætt mat á málið. Í umsögn gjafsóknarnefndar kemur fram að nefndin telji að A hafi ekki sýnt fram á að tilefni væri til málsóknar þar sem ekki yrði séð að gagnaöflun væri lokið og málshöfðun væri nauðsynleg og tímabær. Þá yrði ekki sé að afstaða gagnaðila lægi fyrir, sbr. 1. tölulið 4. gr. a. reglu­­gerðar nr. 45/2008. Þá taldi gjafsóknarnefnd miðað við þau gögn sem lögð hefðu verið fram fyrir nefndina að málsefnið væri ekki þannig að nokkrar líkur væru á að málið ynnist fyrir dómi, sbr. 2. tölulið 4. gr. a. sömu reglugerðar. Það var því álit nefndarinnar að ekki væri nægilegt tilefni til málsóknar af hálfu A í skilningi 126. gr. laga nr. 91/1991, þannig að uppfyllt væru skilyrði til gjafsóknar. Tók nefndin og fram að með umsókninni hefði ekki fylgt stefna eða drög að stefnu. Þá hefðu ekki verið lögð fram nein gögn með umsókninni önnur en afrit af skýrslum A og meints geranda fyrir lögreglu, afrit af sms-samskiptum þeirra auk upplýsinga um tekjur hennar.

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins, þar á meðal þau gögn sem lögð voru fyrir nefndina, tel ég mig ekki hafa forsendur til að líta svo á að áðurlýst mat gjafsóknarnefndar á fyrirhugaðir málsókn A hafi verið bersýnilega óforsvaranlegt eða að öðru leyti í andstöðu við lög þannig að efni séu til að gera athugasemdir við umsögn gjafsóknarnefndar eða synjun dómsmálaráðuneytisins við veitingu gjafsóknar. Hef ég þar á meðal annars í huga það svigrúm sem játa verður gjafsóknarnefnd að þessu leyti. Ég tel þó ástæðu til að vekja athygli yðar á því að sú niðurstaða kemur ekki í veg fyrir að frekari gagna verði aflað og sótt að nýju um gjafsókn á þeim grundvelli.

  

3

Í kvörtuninni gerið þér jafnframt athugasemdir við að A hafi ekki verið tilkynnt sérstaklega um endurupptöku málsins. Þær upplýsingar hafi hún aðeins fengið fyrir tilstuðlan umboðsmanns, sbr. bréf sem yður var ritað 13. janúar sl. vegna framangreindrar kvörtunar yðar fyrir hennar hönd í september 2022. A hafi fyrst fengið upplýsingar um meðferð hins endurupptekna máls þegar ráðuneytið birti ákvörðun sína með bréfi til yðar 9. maí sl.

Á meðal þeirra gagna sem umboðsmanni bárust frá ráðuneytinu 5. júlí sl. var afrit af tölvupósti starfsmanns ráðuneytisins til yðar 12. janúar sl. sem ber með sér að ráðuneytið hafi afhent yður afrit af bréfi þess til gjafsóknarnefndar sama dag vegna endurupptöku málsins. Þar sem þér lögðuð fyrir hennar hönd fram umsókn um gjafsókn, svo og leituðuð fyrir hennar hönd til umboðsmanns, líkt og fyrirspurnir umboðsmanns til ráðuneytisins í tilefni af upphaflegri kvörtun yðar báru með sér, tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við það að ráðuneytið hafi tilkynnt yður, en ekki A sérstaklega, um endurupptöku málsins.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.