Kvartað var yfir ýmsum athöfnum ríkisstjórnarinnar, lögreglunnar, dómstóla, ríkissaksóknara og fleiru.
Ekki voru skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til meðferðar þar sem hún var of óskýr til þess.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 26. september 2023.
Vísað er til kvörtunar yðar 3. ágúst sl. og viðtals við yður sem fór fram með aðstoð túlks 18. sama mánaðar sem jafnframt þýddi kvörtunina með samþykki yðar. Samkvæmt kvörtuninni lýtur hún að ýmsum athöfnum ríkisstjórnarinnar, lögreglunnar, dómstóla og ríkissaksóknara. Í kvörtuninni segir einnig að þér óskið eftir nýjum lögfræðingi og auknu eftirliti með fangelsum, auk þess sem þér óskið eftir að einstaklingum sem þér segið hafa hótað yður símleiðis verði refsað með fangelsisvist. Í áðurnefndu viðtali áréttuðuð þér jafnframt að í kvörtun yðar fælist fyrst og fremst ósk um að umboðsmaður viðhefði eftirlit með ríkisstjórninni vegna ætlaðra athafna hennar sem þér röktuð að einhverju leyti í viðtalinu. Jafnframt er vísað til kvörtunar yðar 7. september sl. en eftir því sem ráðið verður af efni hennar lýtur hún að svipuðum atriðum og fyrri kvörtunin. Síðari kvörtuninni fylgdi einnig afrit af samkomulagi sem lögmaður gerði fyrir þína hönd við íslenska ríkið á árinu 2019 um greiðslu miskabóta vegna handtöku og vistunar yðar í fangaklefa yfir nótt í júní 2018.
Af kvörtunum yðar og öðru sem fram kom í framangreindu viðtali við verður ekki fyllilega ráðið hvort athugasemdir yðar beinist að tilteknum ákvörðunum eða athöfnum stjórnvalda í málum yðar eða að því að stjórnvöld hafi ekki brugðist við erindum eða eftir atvikum athugasemdum yðar. Ég vek athygli yðar á framangreindu sökum þess að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, sem umboðsmanni ber að fylgja í störfum sínum, er mælt fyrir um tiltekin skilyrði sem verður að vera fullnægt svo ég geti tekið kvörtun til athugunar. Á meðal þeirra skilyrða er í fyrsta lagi að kvörtun beinist að tiltekinni ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi eða tilgreindri meðferð stjórnvalds á ákveðnu máli, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Í öðru lagi þarf að lýsa þeirri úrlausn eða annarri háttsemi stjórnvalda sem er tilefni kvörtunar, sbr. 1. mgr. 6. gr. Í þriðja lagi get ég ekki tekið mál til umfjöllunar er varðar athöfn stjórnvalds sem er eldri en eins árs gömul, sbr. 2. mgr. 6. gr. sömu laga. Með tilliti til þessa og þess hvernig kvörtun yðar er sett fram brestur lagaskilyrði til að ég geti fjallað um hana, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.