Lögreglu- og sakamál. Málshraði. Eftirlit stjórnsýsluaðila.

(Mál nr. 12330/2023)

Kvartað var yfir töfum á rannsókn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á kæru gegn viðkomandi.  

Þar sem ekki hafði verið leitað til ríkissaksóknara, sem hefur eftirlit með framkvæmd ákæruvalds hjá öðrum ákærendum og getur gefið þeim fyrirmæli um einstök mál, voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. september 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 9. ágúst sl. yfir töfum á rannsókn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á kæru gegn yður [...].

Af þeim gögnum sem fylgdu kvörtuninni verður ráðið að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi tilkynnt yður með bréfi 8. apríl 2022 að rannsókn málsins yrði hætt þar sem ekki var talinn grundvöllur til að halda henni áfram með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Ríkissaksóknari felldi hins vegar þá ákvörðun úr gildi 4. ágúst 2022 og lagði fyrir lögreglustjóra að taka málið til rannsóknar á ný en síðan þér fóruð í skýrslutöku 27. febrúar sl. hafið þér ekkert heyrt af málinu.

   

II

Í tilefni af kvörtun yðar er rétt að taka fram að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Í samræmi við það fjallar umboðsmaður almennt ekki um erindi sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum. Jafnframt hefur umboðsmaður fylgt þeirri starfsvenju að áður en mál er tekið til meðferðar sé rétt að æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnunarheimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með taka afstöðu til þess að beita þeim heimildum sínum.

Þegar umboðsmanni berast kvartanir vegna tafa á afgreiðslu mála og fyrir liggur að mál hefur verið til meðferðar í nokkurn tíma og sá sem í hlut á hefur ítrekað erindi sitt hefur almennt, þrátt fyrir áður­nefnda reglu, verið farin sú leið að spyrjast fyrir um hjá stjórn­valdinu hvað líði afgreiðslu viðkomandi máls. Þetta hefur ekki síst verið gert til þess að greiða fyrir því að borgararnir fái sem fyrst úr­lausn sinna mála enda hefur reyndin í flestum tilvikum verið sú að stjórnvaldið hefur brugðist við og afgreitt málið eða gefið skýringar á því hvað hafi valdið töfunum og hvenær ráðgert er að afgreiða málið. Í þessum tilvikum lýkur umboðsmaður þá athugun sinni á málinu. Þegar niður­staða liggur ekki fyrir hefur umboðsmaður hins vegar gætt varfærni við að taka afstöðu til þess að hvort tafir sem orðnar eru á tilteknum stjórn­sýslu­málum sem enn eru til meðferðar í stjórnsýslunni séu óeðlilegar eða óréttlættar í skilningi málshraða­reglunnar, þ.e. að afgreiðsla málsins hafi dregist „óhæfilega“ að teknu tilliti til sjónarmiða um atriði eins og umfang og eðli máls og almennt álag í starfsemi við­komandi stjórnvalds.

Auk framangreinds ber jafnframt að líta til þess að eftir breytingar sem komu til framkvæmda við gildistöku laga nr. 47/2015, um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögreglulögum, er stjórn­sýsla ákæruvalds á tveimur stigum. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, hefur ríkissaksóknari eftirlit með fram­kvæmd ákæruvalds hjá öðrum ákærendum og samkvæmt 3. mgr. 21. gr. getur hann gefið öðrum ákærendum fyrirmæli um einstök mál sem þeim er skylt að hlíta. Hann getur kveðið á um rannsókn máls, mælt fyrir um framkvæmd hennar og fylgst með henni. Af því leiðir að málsaðili sem telur á sig hallað við rannsókn lögreglu eða málsmeðferð eftir að mál er komið til meðferðar hjá ákæranda getur beint erindi til ríkissaksóknara um það atriði. Fyrirmæli ríkissaksóknara eru bindandi fyrir lægra setta stjórn­valdið. Í ljósi þessa, og að virtum þeim sjónarmiðum sem  að framan eru rakin, tel ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar að svo stöddu. Ég bendi yður þó á þann möguleika að leita til ríkissaksóknara á grund­velli lögbundins eftirlits hans með handhöfum ákæruvalds.

  

III

Lýk ég því umfjöllun minni um kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Fari svo að þér leitið til ríkissaksóknara og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni afstöðu hans getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.