Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Meðferð ákæruvalds.

(Mál nr. 12341/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á erindi sem laut að þeirri ráðstöfun að ákæra viðkomandi hvert í sínu lagi í stað þess að sækja þau til saka í einu máli.  

Í svari lögreglustjórans til umboðsmanns kom fram að litið hefði verið svo á að málsaðilar ættu almennt ekki rétt á sérstökum rökstuðningi um hvernig ákæruvaldið háttaði saksókn einstakra mála. Farist hefði fyrir að tilkynna viðkomandi það en var það gert í kjölfarið. Ekki var því ástæða til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. september 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 25. ágúst sl. vegna tafa á afgreiðslu  lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á erindi 17. ágúst 2021 sem þér, ásamt öðrum, komuð á framfæri við lögreglustjórann. Laut erindið að þeirri ráðstöfun lögreglustjórans að ákæra þau, sem að erindinu stóðu, hvert í sínu lagi í stað þess að sækja þau til saka í einu máli, sbr. heimild þar um í 2. mgr. 143. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Í tilefni af kvörtuninni var lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu ritað bréf 30. ágúst sl. þar sem þess var óskað að veittar yrðu upplýsingar um hvað liði meðferð og afgreiðslu erindisins. Í svari frá lögreglustjóranum 22. september sl. segir að litið hafi verið svo á málsaðilar ættu almennt ekki rétt á sérstökum rökstuðningi um hvernig ákæruvaldið háttar saksókn einstakra mála. Á hinn bóginn hafi farist fyrir að tilkynna yður um að umbeðinn rökstuðningur yrði ekki veittur. Þá hefur embættið jafnframt afhent umboðmanni afrit af bréfi þess til yðar 25. september sl. þar sem framangreindri afstöðu er lýst.

Þar sem kvörtunin lýtur að töfum á afgreiðslu á erindi yðar til lögreglustjórans og nú liggur fyrir að embættið hefur svarað yður tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar. Lýk ég því meðferð minni á kvörtuninni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingi.