Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Orku- og auðlindamál.

(Mál nr. 12343/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Orkustofnunar á kvörtun en fyrirheit hennar um framvindu málsins eftir fyrri afskipti umboðsmanns hefðu ekki gengið eftir.

Í svari við fyrirspurn umboðsmanns vísaði Orkustofnun til manneklu og málafjölda sem valdið hefði töfum á afgreiðslunni. Viðkomandi hefði ekki verið skýrt frá því í samræmi við stjórnsýslulög. Stofnunin taki málinu alvarlega og setji afgreiðslu þess í „hæsta forgang“. Í ljósi þessa taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. september 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 28. ágúst sl. f.h. A ehf. Í erindinu er vísað til kvörtunar yðar f.h. félagsins fyrr á árinu sem hlaut málsnúmerið 12220/2023 og laut að töfum á afgreiðslu Orkustofnunar á kvörtun félagsins til stofnunarinnar yfir fyrirkomulagi annars félags við uppsetningu hleðslustöðva við fjölbýlishús.

Líkt og fram kom í bréfi til yðar 22. júní sl. var Orkustofnun ritað bréf 2. júní sl. í tilefni af fyrri kvörtun yðar þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði afgreiðslu og meðferð málsins hjá stofnuninni. Í svari hennar 20. sama mánaðar kom m.a. fram að stofnunin hefði óskað eftir fundi með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vegna meðferðar þess en að honum loknum yrði félagið upplýst um næstu skref og hvenær niðurstaðna væri að vænta. Í ljósi þessa taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna málsins að svo stöddu. Eftir því sem fram kemur í kvörtun yðar 28. ágúst sl. hafa fyrirheit stofnunarinnar um framvindu málsins ekki gengið eftir.

Í tilefni af kvörtun yðar sem er hér til umfjöllunar var Orkustofnun ritað bréf 6. september sl. þar sem óskað var að nýju upplýsinga um hvað liði afgreiðslu og meðferð málsins. Í svari stofnunarinnar 22. september sl. segir að tafir sem orðið hafi á afgreiðslu málsins frá 20. júní sl. megi rekja til manneklu og málafjölda hjá stofnuninni. Þá segir jafnframt að stofnunin hafi ekki sinnt því að skýra A ehf. frá fyrirsjáanlegum töfum á afgreiðslu málsins í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Stofnunin taki málinu alvarlega og muni setja afgreiðslu þess í „hæsta forgang“.

Þótt ekki komi skýrt fram í svörum Orkustofnunar hvenær nákvæmlega sé gert ráð fyrir að máli félagsins ljúki verður ekki betur séð en að það sé í farvegi hjá stofnuninni. Í ljósi þess sem fram er komið um fyrirhugaða framvindu málsins og þeirra skýringa sem ég hef fengið fyrir þeirri stöðu sem uppi er hvað varðar málshraða hjá stofnuninni tel ég ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega vegna kvörtunar yðar að svo stöddu en ekki liggur annað fyrir en að tafirnar séu almennar og ekki bundnar við mál yðar sérstaklega. Hef ég því ákveðið að ljúka meðferð minni á kvörtun yðar með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á máli þessu lokið. Standist áform Orkustofnunar ekki eða ef frekari tafir verða á meðferð málsins, getur félagið, eða þér fyrir þess hönd, leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.