Orku- og auðlindamál. Orkuveita Reykjavíkur. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 12347/2023)

Kvartað var yfir að Orkuveita Reykjavíkur hefði lokað fyrir rafmagn í íbúð dánarbús.  

Orkuveitan er sameignarfélag sveitarfélaga og þar sem lokunin var ekki stjórnvaldsákvörðun voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til frekari meðferðar.  Umboðsmaður benti viðkomandi hins vegar á að möguleika notenda til að leita til Orkustofnunar með kvörtun vegna sölufyrirtækja skv. raforkulögum.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 25. september 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 29. ágúst sl. yfir því að Orkuveita Reykjavíkur hafi lokað fyrir rafmagn í íbúð dánarbús tilgreinds manns en í kvörtuninni kemur fram að þér séuð meðal erfingja hans.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er afmarkað í lögum nr. 85/1997.

Orkuveita Reykjavíkur starfar á grundvelli laga nr. 136/2013, um Orkuveitu Reykjavíkur. Samkvæmt 1. gr. þeirra laga er hún sameignar­fyrirtæki Reykjavíkurborgar og tveggja annarra sveitarfélaga. Þá uppfyllir sú framkvæmd sem kvörtun yðar tekur til ekki áðurnefnt skilyrði að einkaaðila hafi með lögum verið fengið opinbert vald til að taka svokallaða stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslu­laga. Samkvæmt þessu brestur lagaskilyrði til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Í ljósi efnis kvörtunar yðar tel ég þó rétt að vekja athygli yðar á því að í 1. málslið. 1. mgr. 20. gr. raforkulaga nr. 65/2003 kemur fram að standi orkukaupandi ekki skil á greiðslum til sölufyrirtækis eða dreifiveitu sé heimilt að loka fyrir afhendingu á raforku til hans, enda hafi notanda verið tilkynnt skriflega um lokunina með hæfilegum fyrirvara. Í 2. málslið sömu málsgreinar segir að telji notandi að sölufyrirtæki standi ekki við skyldur sínar samkvæmt lögunum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim geti hann kvartað til Orkustofnunar. Í VII. kafla raforkulaga er fjallað nánar um eftirlit og úrræði Orkustofnunar. Með ábendingu þessari hefur þó ekki verið tekin afstaða til þess hver viðbrögð Orkustofnunar ættu að vera ef þér kjósið að leita til hennar með erindi yðar. Er þá höfð í huga sú staða að af kvörtun yðar verður ráðið að þér farið ekki með eignarumráð þeirrar fasteignar sem kvörtun yðar hverfist um.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég tek það fram að kjósið þér að leita afstöðu Orkustofnunar getið þér leitað til umboðsmanns á ný teljið þér yður beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu stofnunarinnar.