Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Útlendingar . Dvalarleyfi. Svör við erindum.

(Mál nr. 12349/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn um dvalarleyfi og að tölvupósti um stöðu málsins hefði ekki verið svarað.  

Í svari frá Útlendingastofnun kom fram að erindinu hefði verið svarað liðlega hálfum mánuði áður en umboðsmaður spurðist fyrir um það og því ekki ástæða fyrir hann til að aðhafast frekar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 26. september 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 25. ágúst sl. fyrir hönd dóttur yðar, A, yfir töfum á afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn hennar um dvalarleyfi. Þá hafi stofnunin ekki svarað tölvu­bréfi yðar 11. júlí sl. þar sem óskað var eftir upplýsingum um stöðu málsins.

Í tilefni af kvörtun yðar var Útlendingastofnun ritað bréf 5. september sl. þar sem þess var óskað að stofnunin upplýsti hvort erindið hefði borist og hvað liði þá meðferð og afgreiðslu þess. Svör stofnunarinnar bárust með bréfi 20. september sl. Þar kemur fram að fyrirspurn yðar 11. júlí hafi verið svarað 16. ágúst sl. og upplýst að tiltekin gögn hefðu verið send til rannsóknar hjá lögreglu. Svari stofnunarinnar fylgdi afrit af tölvubréfi hennar til yðar.

Í ljósi þeirra upplýsinga sem hafa borist um meðferð og afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn A um dvalarleyfi og þar sem stofnunin  hefur nú svarað fyrirspurn yðar tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar. Lýk ég því meðferð minni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.