Kvartað var yfir afgreiðslu Skattsins á umsókn um lækkun tekjuskattsstofns og a erindum um endurupptöku.
Þar sem ekki varð annað ráðið en erindið væri enn til meðferðar hjá Skattinum voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 29. september 2023.
Vísað er til kvörtunar yðar 31. ágúst sl. sem beinist að Skattinum. Lýtur kvörtunin að afgreiðslu á umsókn yðar um lækkun tekjuskattsstofns samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og erindum yðar, ýmist með tölvubréfum eða símleiðis, um endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Samkvæmt tilkynningu Skattsins um álagningu 22. maí sl. var umsókninni synjað á grundvelli 4. töluliðar sömu greinar. Af kvörtun yðar verður ráðið að þér hafið leitað til Skattsins með athugasemdir um afgreiðslu umsóknarinnar. Erindi yðar hafi ekki verið svarað og þér því ítrekað það 18. júlí sl. Af samskiptum yðar við Skattinn í kjölfarið, sem fylgdu kvörtuninni, verður ráðið að Skatturinn hafi litið svo á að með athugasemdum yðar hefðuð þér komið á framfæri kæru vegna synjunar um lækkun tekjuskattsstofns sem tekin yrði til meðferðar.
Fjallað er um þær aðstæður sem skapa skilyrði fyrir lækkun tekjuskattsstofns í 65. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Þar segir í 1. mgr. að ríkisskattstjóri skuli taka til afgreiðslu umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns þegar svo standi á sem nánar greinir í lögunum, m.a. ef maður hefur foreldra eða aðra vandamenn sannanlega á framfæri sínu, sbr. 3. töluliður greinarinnar, og ef maður hefur veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna 16 ára og eldri, sbr. 4. töluliður. Í 99. gr. laganna segir jafnframt að telji skattaðili skatt sinn eða skattstofn, þ.m.t. ívilnun samkvæmt 65. gr., ekki rétt ákveðinn geti hann sent til ríkisskattstjóra rökstudda kæru, skriflega eða rafræna, í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, studda nauðsynlegum gögnum. Þá segir í 100. gr. laganna að skjóta megi kæruúrskurðum samkvæmt 99. gr. til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga um yfirskattanefnd. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er kærufrestur til yfirskattanefndar þrír mánuðir frá dagsetningu ákvörðunar stjórnvalds.
Ástæða þess að ég rek framangreint er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis er kveðið á um að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en kvartað sé til aðila utan stjórnkerfis þeirra. Af ákvæðinu leiðir meðal annars að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar á meðan það er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum.
Þar sem ekki verður annað ráðið en að kvörtunarefni yðar sé enn til meðferðar hjá Skattinum brestur lagaskilyrði til þess að ég geti tekið kvörtunina til meðferðar að svo stöddu. Að þessu leyti tek ég jafnframt fram að ég tel, að virtum framangreindum ákvæðum laga nr. 90/2003 um málsmeðferð þegar skattaðili telur skatt sinn eða skattstofn ekki rétt ákveðinn, ekki ástæðu til að gera athugasemdir við móttöku og meðferð Skattsins á beiðnum yðar um endurupptöku málsins. Ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu ríkisskattstjóra, og eftir atvikum yfirskattanefndar, getið þér leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi.
Með vísan til framangreinds tel ég að ekki séu skilyrði að lögum til þess að ég fjalli frekar um kvörtun yðar. Lýk ég því athugun minni á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.