Vopn. Innflutningur.

(Mál nr. 12367/2023)

Kvartað var yfir lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðuneytinu. Annars vegar vegna synjunar lögreglustjórans á beiðni um leyfi til innflutnings skotvopna og hins vegar á meðferð ráðuneytisins á stjórnsýslukæru vegna málsins.  

Í svari frá ráðuneytinu við fyrirspurn umboðsmanns kom fram að mistök við skráningu málsins hefðu leitt til þess að kæran hefði ekki verið tekin strax til meðferðar. Úr því hefði verið bætt, óskað eftir umsögn lögreglustjóra um kæruna og fyrirspurnunum svarað. Þar sem málið var komið í farveg taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 29. september 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 11. september sl. sem þér beinið að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðuneytinu og lýtur að synjun lögreglustjórans 4. ágúst sl. við beiðni yðar um leyfi til innflutnings skotvopna og meðferð ráðuneytisins á stjórnsýslukæru sem þér báruð undir ráðuneytið sama dag vegna synjunarinnar. 

Í upphafi skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórn­völd skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til með­ferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni.

Þegar umboðsmanni berast kvartanir vegna skorts á svörum og sá sem í hlut á hefur ítrekað erindi sitt hefur almennt, þrátt fyrir áður­nefnda reglu, verið farin sú leið, og þá með hliðsjón af fyrirliggjandi samskiptum viðkomandi við stjórnvaldið sem á í hlut, að spyrjast fyrir um hvað líði svörum við viðkomandi erindum. Þetta hefur ekki síst verið gert til þess að greiða fyrir því að borgararnir fái sem fyrst úr­lausn sinna mála enda hefur reyndin í flestum tilvikum verið sú að stjórnvaldið hefur brugðist við og afgreitt málið eða gefið skýringar á því hvað hafi valdið töfunum og hvenær ráðgert er að afgreiða málið. Í þessum tilvikum lýkur umboðsmaður þá athugun sinni á málinu.

Í samræmi við framangreint var dómsmálaráðuneytinu ritað bréf 20. september sl. í tilefni af kvörtun yðar þar sem þess var óskað að upplýst yrði hvort stjórnsýslukæra yðar hefði borist, hvað liði þá meðferð og afgreiðslu hennar, sem og fyrirspurna yðar þar að lútandi. Mér hefur nú borist svarbréf ráðuneytisins 27. september sl. þar sem m.a. kemur fram að mistök við skráningu málsins hafi leitt til þess að kæran hafi ekki verið tekin strax til meðferðar. Úr því hafi nú verið bætt og óskað hafi verið eftir umsögn lögreglustjóra um kæruna, auk þess sem fyrirspurnum yðar hafi nú verið svarað. Bréfið fylgir hjálagt í ljósriti.

Þar sem mál yðar hefur samkvæmt framangreindu nú verið lagt í farveg tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar að svo stöddu. Í tilefni af athugasemdum yðar við að ráðuneytið hafi tjáð yður að málsmeðferðartími kærumála væri sex mánuðir tek ég fram að ekki verður annað ráðið en að þar hafi verið um að ræða almennar upplýsingar um meðalafgreiðslutíma sem hafi verið veittar í samræmi við leiðbeiningarskyldu ráðuneytisins. Ég tel ekki ástæðu til að taka það atriði sérstaklega til athugunar. 

Lýk ég því meðferð minni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég tek þó fram að ef þér teljið yður beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins í kærumálinu getið þér leitað til mín að nýju með sérstaka kvörtun þar að lútandi og verður hún að berast innan árs frá því að málið var til lykta leitt, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.