Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds. Rökstuðningur.

(Mál nr. 12294/2023)

Kvartað var yfir álagningu stöðubrotsgjalds og gerðar athugasemdir við að í synjun á endurupptökubeiðni hefði ekki verið gerð grein fyrir því í hverju brotið hefði falist.

Samkvæmt gögnum málsins, en á meðal þeirra voru ljósmyndir af vettvangi, var bifreiðinni lagt þannig að afturhluti hennar skagaði inn á gangstétt. Með hliðsjón af því og að virtum skýringum Reykjavíkurborgar voru ekki efni til að gera athugasemdir við þá afstöðu Bílastæðasjóðs að bifreiðinni hefði þar með verið lagt í andstöðu umferðarlög. Í ljósi þess að Reykjavíkurborg gekkst við því að rökstuðningi Bílastæðasjóðs hefði verið áfátt og að um mistök hefði verið að ræða taldi umboðsmaður jafnframt ekki tilefni til að aðhafast frekar hvað það snerti.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 4. október 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 11. júlí sl. fyrir hönd A ehf. yfir álagningu stöðubrotsgjalds sem lagt var á bifreiðina [...] 9. júní sl. vegna brots gegn 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Í kvörtuninni gerið þér athugasemdir við þá afstöðu Bílastæðasjóðs að bifreiðinni hafi verið lagt í andstöðu við umferðarlög. Þá byggist kvörtunin m.a. á því að í ákvörðun Bílastæðasjóðs 15. júní sl., þar sem endurupptökubeiðni A ehf. var hafnað, hafi ekki verið gerð grein fyrir því í hverju brotið hafi falist. Því sé erfitt að átta sig á því hvernig lagning bifreiðarinnar hafi brotið gegn lögum.

Í tilefni af kvörtun yðar voru umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar rituð bréf 27. júlí og 17. ágúst sl. þar sem þess var óskað að umboðsmanni yrðu afhent afrit af gögnum málsins ásamt nánar greindum upplýsingum og skýringum. Gögn málsins og svör Reykjavíkurborgar bárust 10. ágúst og 12. september sl. Þá bárust athugasemdir yðar 29. september sl.

  

II

Samkvæmt 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga má eigi stöðva skráningarskylt ökutæki eða leggja því á stöðum sem ekki eru ætlaðir fyrir umferð slíkra ökutækja, svo sem á gangstétt, göngustíg, göngugötu, hjólarein eða hjólastíg nema annað sé ákveðið, sbr. 1. mgr. 84. gr. laganna. Sama á við um umferðareyjar, grassvæði og aðra svipaða staði. Í ákvörðun Bílastæðasjóðs 15. júní sl. voru fyrrgreind ákvæði umferðarlaga rakin sem og heimild 1. mgr. 109. gr. laganna til álagningar gjalds vegna brota gegn þeim. Því næst sagði: „Rétt var staðið að álagningunni og verður því ekki fallið frá henni.“

Sem fyrr greinir var Reykjavíkurborg ritað bréf 17. ágúst sl. þar sem þess sem var óskað að upplýst yrði um hvort það væri réttur skilningur að niðurstaða Bílastæðasjóðs hefði verið reist á því að bifreiðinni hefði verið lagt á gangstétt í andstöðu við fyrirmæli 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga. Jafnframt var óskað skýringar á því hvort og þá hvernig rökstuðningur sjóðsins hefði samrýmst þeim kröfum sem leiddu af 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings.

Í svari Reykjavíkurborgar 12. september sl. kom fram niðurstaða Bílastæðasjóðs hefði verið reist á þeim grundvelli að bifreiðinni hefði verið lagt á gangstétt. Þá væri það mat umhverfis- og skipulagssviðs að synjun endurupptökubeiðninnar hefði getað verið betur rökstudd með tilliti til þessa ákveðna stöðubrots. Betur hefði farið á því að tiltaka það sérstaklega að gjaldið hefði verið reist á þeim grundvelli að ökutækinu hefði verið lagt á gangstétt og leiðbeina um að óheimilt væri að stöðva eða leggja bifreið á gangstétt hvort sem væri að hluta til eða að öllu leyti. Slíkur rökstuðningur væri almennt veittur í áþekkum málum en fyrir mistök hefði það ekki verið gert við afgreiðslu málsins.

Samkvæmt gögnum málsins, en á meðal þeirra eru ljósmyndir af vettvangi, var bifreið A ehf. lagt með þeim hætti að afturhluti hennar skagaði inn á gangstétt. Með hliðsjón af því og að virtum skýringum Reykjavíkurborgar eru ekki efni til að gera athugasemdir við þá afstöðu Bílastæðasjóðs að bifreiðinni hafi þar með verið lagt í andstöðu við 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga. Í ljósi þess að Reykjavíkurborg hefur gengist við því að rökstuðningur Bílastæðasjóðs hafi verið áfátt og að um mistök hafi verið að ræða tel ég jafnframt ekki tilefni til að aðhafast frekar hvað snertir þann þátt kvörtunar yðar.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.