Sjávarútvegur. Hvalveiðar. Lagaheimild stjórnvaldsfyrirmæla.

(Mál nr. 12366/2023)

Kvartað var yfir svörum matvælaráðuneytis í tengslum við yfirstandandi athugun umboðsmanns á annarri kvörtun. Jafnframt voru gerðar athugasemdir við að tiltekin ákvæði reglugerðar ættu sér ekki lagastoð. 

Ekki varð séð að athugasemdirnar, sem beindust að setningu almennra stjórnvaldsfyrirmæla, hefðu verið bornar upp við matvælaráðherra og afstaða fengin til þeirra. Eins og atvikum var háttað taldi umboðsmaður því ekki rétt að fjalla um kvörtunina að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 2. október 2023.

  

  

Vísað er til erindis yðar 11. september sl. fyrir hönd A hf. í tilefni af svörum matvælaráðuneytisins í tengslum við yfirstandandi athugun umboðmanns vegna kvörtunar fyrirtækisins 7. júlí sl. sem hlotið hefur málsnúmerið 12291/2023 í málaskrá umboðsmanns. Auk athugasemda við téð svör ráðuneytisins voru í erindinu jafnframt gerðar athugasemdir við tilgreind ákvæði reglugerðar nr. 895/2023, um veiðar á langreyðum, og þá þess efnis að þau ættu sér ekki skýra lagastoð. Þar sem athugun umboðsmanns í framangreindu máli lýtur að undirbúningi og setningu reglugerðar nr. 642/2023, um (12.) breytingu á reglugerð nr. 163/1973 um hvalveiðar, hefur umboðsmaður ákveðið að fjalla um þær athugasemdir sem lúta að reglugerð nr. 895/2023 í aðgreindu máli, s.s. yður var greint frá í samtali við starfsmann umboðsmanns 11. september sl.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvaldið hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Athugasemdir yðar beinast að setningu matvælaráðuneytisins á almennum stjórnvaldsfyrirmælum en ekki eftirliti Matvælastofnunar með framkvæmd þeirra eða ákvörðunartöku í einstöku máli, s.s. beitingu viðurlaga eða þvingunarúrræða. Ekki verður hins vegar ráðið af kvörtuninni eða gögnum sem henni fylgdu að A hf. hafi borið athugasemdir sínar upp við matvælaráðherra og fengið afstöðu hennar til þeirra. Eins og atvikum er hér háttað, og með hliðsjón af framangreindum lagasjónarmiðum, tel ég því ekki rétt að taka kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu. Ég bendi aftur á móti á að A h.f. getur freistað þess að leita til mín á ný að fenginni afstöðu ráðherra til athugasemdanna og verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki málefnið getur komið til athugunar af hálfu umboðsmanns. Liggi fyrir ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi á grundvelli umræddrar reglugerðar, sem A hf. telur fela í sér rangsleitni í sinn garð, getur félagið jafnframt lagt fram kvörtun þar að lútandi, að því gefnu að fullnægt sé skilyrðum 6. gr. laga nr. 85/1997, þ.m.t. ákvæði 3. mgr. lagagreinarinnar um nýtingu kæruleiða í stjórnsýslunni.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.