Skattar og gjöld. Sveitarfélög. Leikskólar.

(Mál nr. 12377/2023)

Kvartað var yfir gjaldskrá fyrir leikskóla Kópavogsbæjar sem bryti gegn jafnræðisreglu.  

Þar sem erindið hafði hvorki verið borið undir mennta- og barnamálaráðuneytið né innviðaráðuneytið voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 4. október 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 22. september sl. er lýtur lögmæti gjaldskrár fyrir leikskóla Kópavogsbæjar sem samþykkt var nýverið og tók gildi 1. september sl. Af kvörtuninni verður ráðið að þér teljið að gjaldskráin brjóti í bága við jafnræðisreglu.

Í tilefni af kvörtun yðar tel ég rétt að víkja að skilyrðum þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns Alþingis. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þetta ákvæði er einkum byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2008, um leikskóla, fer mennta- og barnamálaráðherra með yfirstjórn þeirra mála sem lögin taka til, að öðru leyti en varðar stofnun og rekstur leikskóla, sbr. IX. kafla laganna. Skal hann gæta þess að farið sé eftir ákvæðum sem lögin og reglugerð með þeim mæla fyrir um. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laganna eru ákvarðanir um rétt einstakra barna, m.a. um gjaldtöku fyrir vist í leikskóla, kæranlegar til mennta- og barnamálaráðherra. Þá fer innviðaráðherra með eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 og öðrum löglegum fyrirmælum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 138/2011. Þó er tekið fram í 2. málslið 2. mgr. greinarinnar að ráðherra hafi ekki eftirlit með ákvörðunum sveitarfélaga í starfsmannamálum eða stjórnsýslu sem fer fram á vegum sveitarfélaga og öðrum stjórnvöldum á vegum ríkisins er með beinum hætti falið eftirlit með. Eftirlit ráðherra getur m.a. farið fram á grundvelli stjórnsýslukæru og við meðferð frumkvæðismála, sbr. 111. og 112. gr. laga nr. 138/2011. Þegar innviðaráðuneytið tekur mál til meðferðar að eigin frumkvæði getur það gefið út leiðbeiningar um túlkun laga og stjórnsýslu sveitarfélagsins að öðru leyti, gefið út álit um lögmæti athafna og athafnaleysis sveitarfélags eða annars er eftirlit beinist að, gefið út fyrirmæli til sveitarfélagsins um að það taki ákvörðun í máli, felli ákvörðun úr gildi eða komi málum að öðru leyti í lögmætt horf eða beitt öðrum úrræðum samkvæmt XI. kafla laga nr. 138/2011, sbr. 2. mgr. 112. gr. laganna.

Af kvörtun yðar verður ráðið að þér hafið ekki borið athugasemdir yðar undir framangreind ráðuneyti. Í ljósi þess eftirlitshlutverks sem bæði mennta- og barnamálaráðherra og innviðaráðherra hefur verið falið með starfsemi sveitarfélaga að þessu leyti og í ljósi sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég rétt að þér freistið þess að bera athugasemdir yðar undir ráðuneyti þeirra áður en þér leitið til umboðsmanns Alþingis með kvörtun. Teljið þér yður enn rangsleitni beitta að fenginni afstöðu þeirra getið þér leitað til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10 gr. laga nr. 85/1997.