Sveitarfélög. Orku- og auðlindamál.

(Mál nr. 12368/2023)

Kvartað var yfir framgöngu sveitarstjóra Skeiða- og Gnúpverjahrepps í tengslum við samninga sveitarstjórnar við Landsvirkjun vegna fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar sem og efni og framsetningu tiltekinnar bókunar sveitarstjórnar.  

Þar sem málið hafði ekki verið borið undir innviðaráðuneytið voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði um það.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 12. október 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 11. september sl. sem beinist að Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Af kvörtuninni verður ráðið að þér séuð ósáttar við framgöngu sveitarstjóra sveitarfélagsins í tengslum við samninga sveitarstjórnar við Landsvirkjun vegna fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar. Að þessu leyti lýtur kvörtunin að tölvubréfum sveitarstjóra sem beint hefur verið að Landsvirkjun og [...]. Verður ráðið af kvörtuninni að þér séuð ósáttar við efni og framsetningu bókunarinnar að þessu leyti.

Í IX. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er fjallað um stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga hefur innviðaráðherra eftirlit með því að sveitar­félög gegni skyldum sínum samkvæmt sveitarstjórnarlögum og öðrum löglegum fyrirmælum. Í 111. gr. laganna er fjallað um stjórnsýslukærur en þar segir að aðila máls sé heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftir­liti þess samkvæmt 109. gr. Að því leyti sem ekki er um að ræða slíkar ákvarðanir ákveður ráðuneytið sjálft hvort tilefni er til að taka til formlegrar umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags sem fellur undir eftirlit þess á grundvelli frumkvæðiseftirlits þess sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 112. gr. laganna.

Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Er framangreint lagaákvæði byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega séu rangar áður en leitað sé til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður Alþingis fylgt þeirri starfsvenju að áður en hann tekur mál til meðferðar sé rétt að æðra stjórnvald sem fer með yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með taka afstöðu til þess hvort ástæða er til að beita þeim heimildum sínum.

Með hliðsjón af framanröktu, og þar sem ekki verður ráðið að þér hafið borið athugasemdir yðar undir innviðaráðuneytið, svo og að gættri 3. mgr. 6. gr. laga um umboðsmann Alþingis, tel ég rétt að þér freistið þess fyrsta kastið að leita með athugasemdir yðar, að því marki sem þær lúta að téðum starfsháttum sveitarstjóra Skeiða- og Gnúpverjahrepps, til ráðuneytisins. Ef þér teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins getið þér leitað til mín á nýjan leik af því tilefni.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.