Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 12336/2023)

Kvartað var yfir samskiptum við ráðherra og ráðuneyti heilbrigðismála. 

Þar sem umboðsmaður fjallar ekki um einstakar kvartanir samhliða því að mál vegna sömu atvika eru rekin fyrir dómstólum og ætla má að þar reyni á sambærileg álitaefni og kvörtun beinist að voru ekki skilyrði til frekari umfjöllunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 16. október 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar fyrir hönd A 15. ágúst sl. vegna samskipta við ráðherra og ráðuneyti heilbrigðismála í tengslum við starf hans sem [...]. Var að því leyti einkum vísað til framgöngu ráðherra á tveimur fundum sem hann boðaði A til og haldnir voru 13. og 22. júní sl. Enn fremur er vísað til tölvubréfs yðar 12. október sl. þar sem upplýst var að umbjóðandi yðar myndi höfða mál á hendur íslenska ríkinu til ógildingar á þeirri ákvörðun heilbrigðisráðherra 24. ágúst sl. að [...]. Í afriti af réttarstefnu sem fylgdi tölvubréfinu er um málavexti að nokkru vísað til sömu atvika og í kvörtuninni.

Af hálfu umboðsmanns Alþingis hefur þeirri reglu verið fylgt í framkvæmd að fjalla ekki um einstakar kvartanir samhliða því að mál vegna sömu atvika eru rekin fyrir dómstólum og ætla má að þar muni reyna á sambærileg álitaefni og kvörtun beinist að. Er þessi afstaða byggð á því að samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir ákveðinni verka­skiptingu milli umboðsmanns og dómstóla. Í ljósi þessa tel ég því að svo stöddu ekki uppfyllt skilyrði til að ég geti tekið til athugunar þau ágreiningsatriði sem jafnframt kann að reyna á í máli því sem nú hefur verið ákveðið að bera undir dómstóla, þ.e. hvernig samskiptum umbjóðanda yðar og heilbrigðisráðherra hafi verið háttað á fundum þeirra 13. og 22. júní sl. 

Ef þér teljið að enn sé tilefni til þess að ég fjalli um kvörtun yðar að fenginni úrlausn málsins fyrir dómstólum er yður fært að leita til mín á ný. Mun ég þá ekki líta svo á að sá ársfrestur, sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, sé liðinn að því gefnu að leitað sé til mín strax í kjölfar hinnar endanlegu niðurstöðu dómstóla í því.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.