Samkeppnismál.

(Mál nr. 12337/2023)

Kvartað var yfir athugun Samkeppniseftirlitsins á stjórnunar- og eignatengslum sjávarútvegsfyrirtækja og beiðni stofnunarinnar um upplýsingar í tengslum við hana. Beindust athugasemdir í kvörtuninni fyrst og fremst að aðkomu matvælaráðuneytisins að málinu en fyrir lá að það veitti fé til verkefnisins með sérstökum samningi þar að lútandi.  

Í ljósi þess að athuguninni hafði verið hætt taldi umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla frekar um kvörtunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 17. október 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar, f.h. A hf., 17. ágúst sl. sem lýtur að athugun Samkeppniseftirlitsins á stjórnunar- og eignatengslum sjávarútvegsfyrirtækja og upplýsingabeiðni stofnunarinnar til félagsins í tengslum við hana. Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við athugunina sem beinast fyrst og fremst að aðkomu matvælaráðuneytisins að málinu en fyrir liggur að ráðuneytið veitti fjármagni til verkefnisins með gerð sérstaks samnings þar að lútandi.

Með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 3/2023, sem kveðinn var upp þann 19. september sl., var felld úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að fella dagsektir á áfrýjanda þar til upplýsingabeiðni stofnunarinnar hefði verið svarað með fullnægjandi hætti. Af úrskurðinum, sem birtur hefur verið á vef Samkeppniseftirlitsins, má ráða að um sé að ræða upplýsingabeiðni af sama meiði og beint var til A hf. Niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar byggðist m.a. á því að það samræmist ekki því hlutverki sem Samkeppniseftirlitinu er fengið í samkeppnislögum sem sjálfstæðu stjórnvaldi að gera sérstaka samninga við stjórnvöld um einstakar athuganir. Jafnframt verði ekki talið að Samkeppniseftirlitið hafi heimild til að beita valdheimildum sínum vegna athugana sem að mati áfrýjunarnefndar er stofnað til með þeim hætti.

Samkvæmt frétt sem birtist á vef Samkeppniseftirlitsins 9. október sl. hefur stofnunin brugðist við úrskurðinum með því að slíta samningi sínum við matvælaráðuneytið og gefa Fjársýslu ríkisins fyrirmæli um endurgreiðslu þeirra fjármuna sem það hafði fengið greidda á grundvelli hans. Jafnframt hafi þeim fyrirtækjum, sem Samkeppniseftirlitið kallaði eftir upplýsingum frá, verið tilkynnt um að athuguninni hafi verið hætt.

Í ljósi þess að þeirri athugun sem kvörtun yðar beindist að hefur verið hætt tel ég ekki tilefni til að fjalla frekar um kvörtun yðar. Læt ég því athugun minni á  málinu lokið með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.