Menntamál. Grunnskólar. Undanþága frá skyldunámi. Börn. Foreldrar. Forsjá.

(Mál nr. 12302/2023)

Kvartað var yfir úrskurði mennta- og barnamálaráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun skóla um að veita barni tímabundna undanþágu frá skólaskyldu. Samþykki beggja forsjárforeldar hefði átt að áskilja við töku ákvörðunarinnar.  

Út frá gögnum málsins og að teknu tilliti til svigrúms stjórnvalda að veita tímabundna undanþágu frá skólasókn taldi umboðsmaður ekki forsendur til að draga í efa að lagt hefði verið efnislegt mat á það hvort skilyrði grunnskólalaga væru uppfyllt til að fallast á beiðnina í þetta sinn. Eins og atvikum var háttað þótti ekki heldur ástæða til að gera athugasemdir við að nægilegt hefði verið að lögheimilisforeldri hefði eitt óskað eftir leyfinu við skólastjóra.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 17. október 2023.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 14. júlí sl. yfir úrskurði mennta- og barnamálaráðuneytisins 2. mars sl. þar sem staðfest var ákvörðun X-skóla um að veita barni umbjóðanda yðar tímabundna undanþágu frá skólaskyldu á grundvelli 4. mgr. 15. gr. grunnskólalaga, nr. 91/2008. Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins, einkum með vísan til þess að samþykki beggja forsjárforeldra hefði átt að áskilja við töku ákvörðunarinnar, sbr. 28. gr. a. barnalaga, nr. 76/2003. Í tilefni af kvörtuninni var ráðuneytinu ritað bréf 29. ágúst sl. og óskað eftir afriti af öllum gögnum málsins. Gögnin bárust þann 13. september sl.

   

II

Í 4. mgr. 15. gr. laga nr. 91/2008 er mælt svo fyrir að sæki foreldrar skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn í einstökum námsgreinum eða að öllu leyti sé skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu telji hann til þess gildar ástæður. Þessi undanþága er bundin því skilyrði að foreldrar skuli sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur. Í athugasemdum við 15. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 91/2008 kemur fram að ekki séu settar í lögum eða reglugerðum frekari leiðbeiningar um hvað teljist gildar ástæður en í öllum tilvikum sé ábyrgðin lögð á foreldra að sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur. Gildar ástæður geti t.d. tengst þátttöku í landsliðsverkefnum á sviði íþrótta, við æskulýðsstarf, ferðalög fjölskyldu og sjálfboðastarf (Alþt. 2007-2008, A-deild, bls. 1812).

Sambærilegt ákvæði var áður í 8. gr. eldri laga um grunnskóla nr. 66/1995. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarps er varð að lögunum segir að tímabundnar undanþágur séu t.d. keppnisferðir í íþróttum, aðstoð við bændur á álagstímum, eins og um réttir og sauðburð, og aðrar tímabundnar fjarvistir sem skólastjóri metur gildar. Þá segir að lagt sé til að lögfest verði að þegar undanþága af þessu tagi er veitt verði forráðamaður nemandans ábyrgur fyrir því að nemandi vinni upp það sem hann missir úr námi, enda eigi greinin við um þær undanþágur sem foreldrar eða forráðamenn sækja um (Alþt. 1994-1995, A-deild, bls. 1163). Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að 4. mgr. 15. gr. gildandi laga felur skólastjóra svigrúm til mats á því hvort gildar ástæður standi til þess að fallast á beiðni um tímabundna undanþágu frá skólasókn á grundvelli greinarinnar.

   

III

Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þegar löggjafinn hefur falið stjórnvöldum mat um tiltekin atriði, eins og gert er með 4. mgr. 15. gr. laga nr. 91/2008, beinist athugun umboðsmanns fyrst og fremst að því að kanna hvort stjórnvald hafi lagt fullnægjandi grundvöll að máli, hvort það hafi byggt mat sitt á málefnalegum sjónarmiðum og dregið forsvaranlegar ályktanir af gögnum málsins auk þess að það hafi gætt að réttum málsmeðferðarreglum að öðru leyti. Athugun umboðsmanns felur í slíkum tilvikum hins vegar ekki í sér að leggja nýtt eða sjálfstætt mat á málið.

Í úrskurði ráðuneytisins kemur m.a. fram að skólastjóri hafi vísað til þess að skráð ástæða leyfisbeiðninnar væri sú að tryggja frekara öryggi barnsins. Þá hafi af hálfu Reykjavíkurborgar verið vísað til upplýsinga sem lágu fyrir hjá skólanum um rannsókn lögreglu á máli sem því tengdist. Það hafi verið mat skólastjóra, í samráði við umsjónarkennara barns kæranda, að veiting á umræddri undanþágu hefði ekki svo veruleg áhrif á framvindu náms barnsins að ekki væri unnt að fallast á beiðnina.

Að þessu gættu, og eftir að hafa kynnt mér úrskurð mennta- og barnamálaráðuneytisins og gögn málsins að öðru leyti, svo og að teknu tilliti til framangreinds svigrúms stjórnvalda til að veita tímabundna undanþágu frá skólasókn á grundvelli 4. mgr. 15. gr. laga nr. 91/2008, tel ég ekki forsendur til að draga í efa að lagt hafi verið efnislegt mat á það hvort skilyrði greinarinnar væru uppfyllt til að fallast á beiðni móður umrætt sinn. Eins og atvikum var háttað tel ég heldur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá efnislegu niðurstöðu ráðuneytisins að nægilegt hafi verið að lögheimilisforeldri óskaði eitt eftir leyfinu við skólastjóra. Horfi ég þá til þess að hér var um að ræða leyfi frá skólasókn um tiltölulega skamman tíma en ekki að lögbundinni skólaskyldu yrði ekki sinnt um lengra skeið þannig að til álita kæmi að um væri að ræða meiri háttar ákvörðun foreldris um líf barns í skilningi 1. mgr. 28. gr. a barnalaga, nr. 76/2003.

Loks tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við að Reykjavíkurborg hafi verið heimilað að skila greinargerð til ráðuneytisins við meðferð kærumálsins enda var það liður í upplýsingaöflun við meðferð þess. Er þá jafnframt horft til þess að fyrir liggur að yður var veitt færi á að kynna yður greinargerðina og koma á framfæri athugasemdum vegna hennar.

Með vísan til framangreinds tel ég að ekki séu forsendur til athugasemda við þá niðurstöðu mennta- og barnamálaráðuneytisins að staðfesta ákvörðun Hamraskóla um að veita undanþágu frá skólaskyldu. Er athugun minni á kvörtun yðar því lokið með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.