Störf umboðsmanns Alþingis árið 1997.

1.

Skrifstofa umboðsmanns Alþingis að Lágmúla 6 var á árinu opin almenningi frá kl. 9.00 til 15.00 frá mánudegi til föstudags. Auk mín voru starfsmenn allt árið fjórir, Páll Hreinsson, sérstakur aðstoðarmaður umboðsmanns, Katrín Jónasdóttir, skrifstofustjóri, Þórhallur Vilhjálmsson, lögfræðingur, og Margrét Vala Kristjánsdóttir, lögfræðingur. Þórhallur fékk launalaust leyfi frá 10. nóvember 1997. Ragnhildur Helgadóttir, lögfræðingur, var ráðin til starfa frá 12. maí 1997. Auk þess var Þorgeir Ingi Njálsson, héraðsdómari, ráðinn tímabundið til starfa frá 15. september 1997. Halldór Jónsson, lögfræðingur, sem ráðinn hafði verið tímabundið til starfa, lét af starfi 31. ágúst 1997. Sem fyrr naut ég aðstoðar nokkurra manna vegna einstakra viðfangsefna. Ég ákvað að víkja sæti í fimm málum og skipaði forseti Alþingis Tryggva Gunnarsson, hæstaréttarlögmann, til að fara með málin, sbr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

2.

Á árinu 1997 voru skráð 360 ný mál. Á árinu tók ég 6 mál upp að eigin frumkvæði. Skráð mál á grundvelli kvartana, sem bornar voru fram, voru 354. Tekið skal fram, að mál er því aðeins skráð að skriflegt erindi hafi borist, oftast í formi skriflegrar kvörtunar, eða að umboðsmaður taki mál upp að eigin frumkvæði. Einnig er algengt að menn hringi eða komi á skrifstofu umboðsmanns og beri upp mál sín og leiti upplýsinga. Er þá oftast greitt úr málum með skýringum eða með því að koma þeim í réttan farveg innan stjórnsýslunnar, án þess að til skráningar komi. Þessi þáttur í starfi umboðsmanns er tímafrekur eins og áður.

3.

Í III. kafla skýrslu þessarar er úttekt á afdrifum fyrstu 2000 málanna, sem lögð voru fyrir mig til úrlausnar, svo og á viðbrögðum stjórnvalda við tilmælum mínum. Nokkur dæmi eru um, að í viðræðum við fjölmiðla hafi stjórnvöld í fyrstu dregið niðurstöður mínar í efa og færst undan því að verða við tilmælum mínum, en síðan hafi þau látið af andstöðu sinni og leiðrétt mál, án þess að það hafi komi fram opinberlega. Af þessum ástæðum hefur oft ekki legið skýrt fyrir, hvaða árangur hafi orðið af störfum embættis míns. Það hefur aftur leitt til þess, að stjórnsýslan í heild hefur oft sætt að mínum dómi óréttmætri gagnrýni fyrir að fara lítt að tilmælum mínum. Í tilefni af 10 ára afmæli embættis míns taldi ég því rétt að líta yfir farinn veg og kanna afdrif fyrstu 2000 málanna, sem til kasta þess komu.
Könnuninni er skipað í nokkra kafla. Í fyrsta kafla er málunum skipt eftir því, á hvaða stigi málsmeðferðar og af hvaða ástæðum málum hefur lokið. Mál eru þannig t.d. flokkuð eftir því, hvort þeim lauk eftir frumathugun eða eftir að þau voru tekin til nánari athugunar. Í öðrum kafla koma fram nánari skýringar á einstökum liðum, sem flokkun málanna byggðist á. Í þriðja kafla er gerð sérstök grein fyrir viðbrögðum stjórnvalda við tilmælum mínum. Í fjórða kafla er síðan fjallað sérstaklega um þau tíu mál, þar sem stjórnvöld hafa ekki farið að tilmælum mínum. Efni þessara mála er reifað svo og getið afdrifa þeirra. Fimmti kafli hefur loks að geyma greinargerð fyrir þeim 45 málum, þar sem ég vakti sérstaka athygli Alþingis og hlutaðeigandi stjórnvalda á, að um "meinbugi á lögum" væri að ræða.

4.

Í starfi mínu hef ég orðið þess var, að stjórnvöld sjá stundum ástæðu til að bíða með afgreiðslu erinda, þar til ný lög eða nýjar reglugerðir hafa verið settar. Dæmi eru um, að beðið hafi verið með afgreiðslu erinda almennings svo árum skiptir, þar sem von væri á nýjum reglum, sem stjórnvöld töldu "heppilegt" að bíða eftir.
Þar sem slík viðbrögð stjórnvalda eru ekki bundin við eitt svið stjórnsýslunnar, tel ég ástæðu til að minna almennt á eftirfarandi sjónarmið:
Borgararnir eiga rétt á því, að stjórnvöld leysi úr málum þeirra svo fljótt sem unnt er á grundvelli þeirra laga og stjórnvaldsfyrirmæla, sem í gildi eru, þegar þeir bera fram erindi sín við stjórnvöld, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Við úrlausn mála er það frumskylda stjórnvalda samkvæmt íslenskum stjórnlögum, að starfa á grundvelli þeirra réttarheimilda, sem í gildi eru á hverjum tíma, og sjá um framkvæmd þeirra. Ég tel tilefni til að minna á, að óréttlætt synjun um afgreiðslu mála getur leitt til bótaskyldu hins opinbera, svo og stjórnsýsluviðurlaga eða í sumum tilvikum jafnvel refsiviðurlaga fyrir opinbera starfsmenn.