Störf umboðsmanns Alþingis árið 1998.

1.

Skrifstofa umboðsmanns Alþingis að Lágmúla 6 var á árinu opin almenningi frá kl. 9.00 til 15.00 frá mánudegi til föstudags. Auk umboðsmanns voru starfsmenn allt árið þrír, Katrín Jónasdóttir, skrifstofustjóri, Margrét Vala Kristjánsdóttir, lögfræðingur, sem fór í barnsburðarleyfi 5. ágúst 1998, og Hrafnkell Óskarsson, lögfræðingur, sem hóf störf 1. janúar 1998. Þórhallur Vilhjálmsson, lögfræðingur, sagði starfi sínu lausu frá og með 14. maí 1998 að telja en hann hafði verið í launalausu leyfi frá 10. nóvember 1997. Ragnhildur Helgadóttir, lögfræðingur, lét af störfum 3. júlí 1998 og Þorgeir Ingi Njálsson, héraðsdómari, sem ráðinn hafði verið tímabundið frá 15. september 1997, hvarf til fyrri starfa 14. ágúst 1998. Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur, var ráðin frá 29. maí 1998 og Kristján Gunnar Valdimarsson, lögfræðingur, var ráðinn tímabundið til eins árs frá 15. júlí 1998. Róbert R. Spanó, lögfræðingur, var ráðinn til starfa 15. ágúst 1998. Páll Hreinsson sem verið hafði sérstakur aðstoðarmaður umboðsmanns frá árinu 1991 lét af því starfi 31. október 1998. Sem fyrr naut umboðsmaður aðstoðar nokkurra manna vegna einstakra viðfangsefna. Umboðsmaður ákvað að víkja sæti í níu málum og skipaði forseti Alþingis Friðgeir Björnsson, dómstjóra, til að fara með tvö þeirra, Pál Hreinsson, dósent, til að fara með fjögur og Þorgeir Inga Njálsson, héraðsdómara, til að fara með þrjú, sbr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Hinn l. nóvember 1998 var Gaukur Jörundsson kjörinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Óskaði Gaukur eftir leyfi frá störfum umboðsmanns frá sama tíma en hann hafði verið kjörinn umboðsmaður Alþingis til 31. desember 1999. Tryggvi Gunnarsson, hæstaréttarlögmaður, var settur umboðsmaður í hans stað frá 1. nóvember 1998.

2.

Á árinu 1998 voru skráð 288 ný mál. Þá tók umboðsmaður tíu mál upp að eigin frumkvæði. Skráð mál á grundvelli kvartana sem bornar voru fram voru 278. Tekið skal fram að mál er því aðeins skráð að skriflegt erindi hafi borist, oftast í formi skriflegrar kvörtunar, eða að umboðsmaður taki mál upp að eigin frumkvæði. Einnig er algengt að menn hringi eða komi á skrifstofu umboðsmanns og beri upp mál sín og leiti upplýsinga. Er þá oftast greitt úr málum með skýringum eða með því að koma þeim í réttan farveg innan stjórnsýslunnar án þess að til skráningar komi. Þessi þáttur í starfi umboðsmanns er tímafrekur eins og áður.

3.

Við árslok 1998 voru liðin fimm ár frá því að stjórnsýslulög nr. 37/1993 tóku gildi. Eins og tekið var fram í athugasemdum með því frumvarpi sem síðar varð að lögum nr. 37/1993 var við það miðað að lögin hefðu einungis að geyma helstu meginreglur um málsmeðferð í stjórnsýslunni og skyld atriði. Þá var því sjónarmiði fylgt við samningu þeirra að lögin yrðu sem aðgengilegust fyrir almenning og starfsmenn stjórnsýslunnar.
Þegar könnuð eru atriðisorð þeirra mála sem umboðsmaður Alþingis fjallaði um á árinu 1998 og sjá má meðal annars í efnisyfirliti þessarar skýrslu sést að mikið ber á tilvísunum til reglna og efnis stjórnsýslulaga. Atriðisorð eins og rannsóknarregla, rökstuðningur, form og efni úrskurða og málshraði koma þar oft fyrir en með því er verið að vísa til viðkomandi ákvæða stjórnsýslulaga. Við könnun á þeim álitum umboðsmanns sem um er að ræða kemur í ljós að þar er gjarnan að finna athugasemdir um að ákvæðum stjórnsýslulaganna hafi ekki verið fylgt. Vissulega er það svo að þarna er aðeins um að ræða örlítið brot af þeim málum sem hlotið hafa afgreiðslu í stjórnsýslunni og mörg mál sem koma á borð umboðsmanns Alþingis gefa ekki tilefni til athugasemda af þessu tagi. Þá er þess einnig að geta að við framkvæmd ýmissa ákvæða stjórnsýslulaganna reynir á mat þess sem fer með málið hvenær kröfur laganna eru uppfylltar, t.d. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í öðrum tilvikum kveða lögin á um að úrlausn máls skuli uppfylla ákveðin skilyrði um form og efni. Sem dæmi um slíkt má nefna að í nokkrum þessara álita má finna athugasemdir um að æðra stjórnvald, ráðuneyti eða stjórnsýslunefnd sem falið hefur verið úrskurðarvald, hafi ekki við úrlausn máls um stjórnsýslukæru fylgt ákvæðum 31. gr. stjórnsýslulaga um form og efni úrskurða í kærumáli. Það leiðir af stöðu þessara aðila að almennt eru gerðar meiri kröfur til málsmeðferðar af þeirra hálfu við meðferð kærumála heldur en við ákvarðanir hjá lægra settum stjórnvöldum. Sá möguleiki að geta kært ákvörðun til æðra stjórnvalds er liður í að tryggja borgurunum aukið réttaröryggi og aukna réttarvernd. Úrskurðir æðra stjórnvalds eiga líka að vera til leiðbeiningar fyrir lægra sett stjórnvöld. Það skiptir því miklu að vandað sé til slíkra úrlausna og reglum stjórnsýslulaganna er einmitt ætlað að tryggja það.
Stjórnsýslulögin eru líka, ef svo má að orði komast, grundvöllur að handverki þess hluta stjórnsýslunnar sem lögin taka til. Það getur þannig skipt miklu um hvernig til tekst með framkvæmd laganna hvort komið er upp hjá viðkomandi stjórnvaldi verkskipulagi í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga. Erindi sem stjórnvaldinu berast séu þannig í upphafi skilgreind og afgreiðsla þeirra lögð í viðeigandi farveg. Sem dæmi um þetta má nefna þegar æðra stjórnvaldi berst erindi vegna ákvörðunar eða athafna lægra setts stjórnvalds. Þá skiptir miklu að þegar í upphafi sé tekin afstaða til þess hvort um stjórnsýslukæru sé að ræða eða ekki og ef vafi er uppi getur verið tilefni til þess að ganga eftir því við þann sem erindið sendi og þá eftir atvikum hvaða kröfur hann geri. Þá má nefna að framkvæmd 9. gr. stjórnsýslulaganna um málshraða kallar á að komið sé á þannig skráningu erinda, verkskipulagi og skráningu á afgreiðslum, að hægt sé að fylgjast með stöðu erinda og að ákvæðum þess um sendingu tilkynninga sé gætt.
Við lögfestingu stjórnsýslulaganna fór að frumkvæði forsætisráðuneytisins fram sérstök kynning á efni laganna. Á þeim tímamótum gætti þess viðhorfs nokkuð af hálfu stjórnsýslunnar að reglur laganna yrðu til að íþyngja stjórnsýslunni. Nú er það hins vegar svo að með stjórnsýslulögunum var að hluta til verið að lögfesta ýmsar óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins sem dómstólar og umboðsmaður Alþingis höfðu talið að stjórnsýslunni bæri að fylgja í störfum sínum. Kynning á efni stjórnsýslulaganna var því um leið fræðsla um þann lagagrundvöll sem íslensk stjórnsýsla byggist á. Nýjar lagareglur auk skýringa sem leiða má af úrlausnum dómstóla og álitum umboðsmanns Alþingis hafa einnig áhrif á það umhverfi sem starfsfólk stjórnsýslunnar starfar í. Þá þarf einnig að gefa því gaum að sá hópur sem sinnir störfum í stjórnsýslunni tekur breytingum og að hann er ekki eingöngu skipaður lögfræðingum.
Á þessum vettvangi er því ástæða til að vekja máls á því hvort ekki sé fullt tilefni til þess að starfsfólk stjórnsýslunnar eigi í meira mæli en nú er kost á skipulegri fræðslu og endurmenntun um þær lagareglur sem stjórnsýslan starfar eftir. Þannig verður að telja að aukin fræðsla um réttarreglur stjórnsýsluréttarins, þá einkum málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, sé best til þess fallin að bæta almennt úr þeim atriðum sem hafa orðið tilefni athugasemda af hálfu umboðsmanns Alþingis.

4.

Þær lagareglur sem stjórnsýslunni er ætlað að starfa eftir hafa síðustu ár orðið umfangsmeiri og grípa inn á fleiri svið samfélagsins. Tilkoma samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, EES-samningsins, hefur þar haft veruleg áhrif. Í skýrslu þessari er birt álit umboðsmanns Alþingis frá 9. janúar 1998 í máli nr. 2151/1997 en þar tók umboðsmaður að eigin frumkvæði til athugunar hvernig Stjórnarráð Íslands hefði staðið að birtingu og miðlun upplýsinga um þær „gerðir“ sem taka bæri upp í íslenska löggjöf samkvæmt 7. gr. EES-samningsins. Í niðurstöðu álitsins eru gerðar ýmsar athugasemdir við framkvæmd þeirra mála. Þetta álit er nefnt hér til að minna á nauðsyn þess að gætt sé að því hverju sinni að stjórnsýslan sé í stakk búin til sinna þeim viðfangsefnum sem henni eru falin með lögum og þá að sinna þeim verkefnum svo tímanlega og með þeim hætti að réttaröryggi borgaranna sé tryggt. Á þetta bæði við um mannafla stjórnsýslunnar og nauðsynlega þekkingu þeirra sem þar starfa. Þá er það brýnt að þess sé gætt þegar við upphaf málsmeðferðar að afstaða sé tekin til þess hvað þurfi að gera til þess að viðfangsefnið sé leyst af hendi þannig að kröfum laga sé fullnægt.