Störf umboðsmanns Alþingis árið 2000.

1.
Skrifstofa umboðsmanns Alþingis.

Skrifstofa umboðsmanns Alþingis var á árinu opin almenningi frá kl. 9.00 til 15.00 frá mánudegi til föstudags. Fyrstu 4 mánuði ársins var skrifstofan til húsa að Lágmúla 6 í Reykjavík en var í maí flutt í nýtt húsnæði að Álftamýri 7. Það húsnæði var tekið á leigu og með því fékkst rýmra og heppilegra húsnæði fyrir embættið.
Í skýrslu minni fyrir árið 1999 rakti ég að á árinu hefði verið ráðist í að gera heimasíðu fyrir umboðsmann Alþingis. Þegar þeirri vinnu var að mestu lokið í marsmánuði 2000 var opnað fyrir aðgang að heimasíðunni í tilraunaskyni. Heimasíðan var síðan formlega opnuð af forseta Alþingis, Halldóri Blöndal, 17. nóvember 2000.
Eins og á árinu 1999 voru starfsmenn auk umboðsmanns að jafnaði sex allt árið. Sú breyting varð á fyrirkomulagi starfa á skrifstofu umboðsmanns á árinu að ráðinn var sérstakur löglærður skrifstofustjóri sem auk þess að hafa ásamt umboðsmanni umsjón með afgreiðslu mála annast sérstaklega fyrstu athugun á nýjum kvörtunum. Var Þorgeir Ingi Njálsson, héraðsdómari, ráðinn í starf skrifstofustjóra frá 1. júní 2000 en hann fékk leyfi frá starfi héraðsdómara í eitt ár frá og með þeim degi.
Aðrir starfsmenn á skrifstofu umboðsmanns á árinu voru: Ásmundur Helgason, lögfræðingur, Ingibjörg Þóra Sigurjónsdóttir, rekstrarstjóri, Kristín Benediktsdóttir, lögfræðingur og Margrét Vala Kristjánsdóttir, lögfræðingur. Hrafnkell Óskarsson, sem verið hafði í launalausu námsleyfi, fór á árinu til annarra starfa. Róbert R. Spanó, lögfræðingur, kom aftur til starfa úr launalausu námsleyfi í ágúst 2000. Sverrir Örn Björnsson, lögfræðingur, lét af störfum í maí 2000. Gizur Bergsteinsson, lögfræðingur, starfaði á skrifstofunni frá 1. mars 2000 til ársloka. Sem fyrr naut ég einnig aðstoðar nokkurra manna vegna einstakra viðfangsefna.
Ég ákvað að víkja sæti í sjö málum og skipaði forseti Alþingis Friðgeir Björnsson, dómstjóra, til að fara með þrjú þeirra, Helga I. Jónsson, héraðsdómara, til að fara með þrjú þeirra og Stefán Má Stefánsson, prófessor, til að fara með eitt þeirra, sbr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

2.
Fjöldi kvartana, erinda og fyrirspurna.

Á árinu 2000 voru skráð 232 ný mál. Á árinu tók ég þrjú mál upp að eigin frumkvæði. Skráð mál á grundvelli kvartana sem bornar voru fram voru 229. Tekið skal fram að mál er því aðeins skráð að um sé að ræða kvörtun og að hún liggi fyrir skriflega eða að umboðsmaður taki mál upp að eigin frumkvæði. Einnig er algengt að menn hringi eða komi á skrifstofu umboðsmanns og beri upp mál sín og leiti upplýsinga. Er þá oftast greitt úr málum með skýringum eða með því að koma þeim í réttan farveg innan stjórnsýslunnar án þess að til skráningar komi. Á árinu var þessi þáttur í starfi umboðsmanns sem fyrr tímafrekur.
Með tilkomu heimasíðu umboðsmanns Alþingis á árinu 2000 og þróunar í upplýsingatækni hefur fjölgað nokkuð erindum til mín og beiðnum um tilteknar upplýsingar sem borist hafa með tölvupósti. Oft eru þetta almennar ábendingar um mál sem fólk telur rétt að vekja athygli umboðsmanns á. Fyrirspurnum og beiðnum um upplýsingar sem berast með rafrænum hætti er svarað eins fljótt og kostur er en ég hef talið rétt að ganga enn eftir því að kvartanir séu undirritaðar af hálfu þess sem kvörtun ber fram.

3.
Helstu viðfangsefni á árinu.

Sú mikla fjölbreytni sem einkennir viðfangsefni stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga endurspeglast skýrlega í fjölbreytileika þeirra mála sem umboðsmaður Alþingis fær til meðferðar. Árið 2000 var engin undantekning hvað þetta varðar. Sem fyrr eru það mál er varða almannatryggingar, málefni fanga og skattar og gjöld sem fyrirferðarmest eru. Þá er í þessari skýrslu gerð grein fyrir 14 málum er lúta að réttindum og skyldum opinberra starfsmanna en í skýrslu minni fyrir árið 1999 vakti ég máls á því að nokkur fjölgun hefði orðið á málum af þessu tagi á því ári.
Þegar skipting skráðra mála eftir viðfangsefnum er skoðuð (sjá yfirlit 1.5. í kafla II) sést að oftast er kvartað yfir töfum á afgreiðslu mála hjá stjórnvöldum eða í um 20 % mála á árinu 2000. Er þetta nokkur aukning frá fyrra ári. Ég hygg að fjölda þessara kvartana megi að einhverju leyti skýra með því að stjórnvöld gæta þess ekki nægjanlega, eins og ég vík nánar að hér á eftir, að tilkynna um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu mála og skýra ástæður þeirra.
Eðlilega eru það ákvæði stjórnsýslunnar sem oftast reynir á við úrlausn mála hjá umboðsmanni. Við skoðun á atriðisorðum þeirra mála sem gerð er grein fyrir í þessari skýrslu sést að þar koma hugtökin rannsóknarreglan, rökstuðningur og andmælaréttur hvað oftast fyrir. Þetta er til marks um að þess gætir enn of oft að stjórnsýslan fylgi ekki í störfum sínum þeim ákvæðum stjórnsýslulaga sem fjalla um þessi atriði. Ég ítreka því þau sjónarmið sem ég hef áður sett fram um mikilvægi þess að auka fræðslu fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar um þær réttarreglur sem gilda um starfshætti hennar. Ég bendi í því sambandi á að það þykir sjálfsagt að bjóða nýjum starfsmönnum hins opinbera upp á tölvunámskeið af margvíslegum toga og eigi viðkomandi að sinna bókhaldsstörfum eru slík sérhæfð námskeið í boði. Mér er ekki kunnugt um að boðið sé t.d. upp á námskeið fyrir nýja starfsmenn innan stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga um stjórnsýslulögin og aðrar réttarreglur stjórnsýsluréttarins en reglur þessar eru þó almennur grundvöllur þess hvernig standa ber að afgreiðslu mála innan stjórnsýslunnar. Ég tek líka fram að þarna er um að ræða fræðslu sem ekki á bara erindi til löglærðra starfsmanna heldur einnig annarra starfsmanna, og í vissum tilvikum nefndarmanna, sem koma að ákvarðanatöku í málum einstaklinga af hálfu stjórnvalda.
Það verður að hafa í huga að tilkoma stjórnsýslulaganna frá 1993 breytir því ekki að til viðbótar gilda ýmsar óskráðar grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins um starfshætti og úrlausn mála af hálfu stjórnvalda. Í nokkrum þeirra álita sem gerð er grein fyrir í þessari skýrslu er til dæmis fundið að því að stjórnvöld hafi með því að setja vinnu- eða viðmiðunarreglur í tilvikum þar sem lög gera ráð fyrir mati af hálfu stjórnvalda gengið lengra í að takmarka þetta mat heldur en samrýmst getur því sem nefnt hefur verið reglan um skyldubundið mat stjórnvalda. Sem dæmi um þetta má nefna mál á sviði almannatrygginga um styrki til bifreiðakaupa, mál nr. 2796/1999 (1.7. í kafla III), mál á sviði ráðningar í opinbert starf, mál nr. 2569/1998 (12.2. í kafla III), reglur kjaranefndar um aukastörf, mál nr. 2606/1998 (12.3. í kafla III), mat við rýmingu húss vegna snjóflóðahættu nr. 2639/1999 og 2710/1999 (20.2. í kafla III) og mál vegna leyfis til ættleiðingar barns nr. 2435/1998 (3.1. í kafla III). Þessi mál eru dæmi um að stjórnvöld þurfa í störfum sínum að huga að því almenna réttarumhverfi sem stjórnsýslan starfar í.
Samkvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, skal umboðsmaður Alþingis gæta þess að stjórnsýslan fari fram í samræmi við lög og „vandaða stjórnsýsluhætti“. Ekki er skýrt nánar hvað átt sé við með vönduðum stjórnsýsluháttum en ljóst er af lagaákvæðinu að þarna er verið að vísa til þess að stjórnsýslan eigi sjálf að gæta þess í störfum sínum að þar séu viðhafðir vandaðir stjórnsýsluhættir. Það er síðan umboðsmanns að hafa eftirlit með því að svo sé og þá einnig að móta frekar inntak þess hvað teljist í hverju tilviki vandaðir stjórnsýsluhættir. Úr þeim málum sem ég lauk á árinu 2000 má um þetta nefna sem dæmi mál nr. 2512/1998 (sjá 2.2. í kafla III) en þar taldi ég í samræmi við fyrri álit að það hefði verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að gefa refsifanga sem sótti um reynslulausn kost á því að kynna sér umsögn náðunarnefndar um stjórnsýslukæru hans til ráðuneytisins áður en ráðuneytið kvað upp úrskurð í málinu þótt ekki yrði talið að ráðuneytinu væri það skylt á grundvelli 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ég nefni þetta atriði hér til að leggja áherslu á nauðsyn þess að stjórnsýslan taki við úrlausn máls ekki bara mið af lögbundnum lágmarksreglum sem t.d. koma fram í stjórnsýslulögunum heldur sé þar einnig litið til þess hvað telja verði vandaða stjórnsýsluhætti í hverju tilviki.
Í þremur málum sem gerð er grein fyrir í þessari skýrslu kom eftirlitshlutverk ráðuneyta með starfsemi undirstofnana sérstaklega til athugunar. Er þar bent á að ákvæði 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um kæruheimild og önnur ákvæði um stjórnsýslukærur eru einskorðuð við stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru af lægra settum stjórnvöldum. Það er því mikilvægt að æðra stjórnvald taki þegar eftir viðtöku erindis afstöðu til þess hvort um stjórnsýslukæru er að ræða eða hvort verið er að bera fram almennar athugasemdir vegna starfshátta lægra setts stjórnvalds, sjá mál nr. 2574/1998 (10.1. í kafla III). En þótt skilyrði kæru sem ekki uppfyllt eða beinlínis sé ákveðið með lögum, sbr. t.d. í 49. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að ákvörðunum verði ekki skotið til æðra stjórnvalds, kemur það hins vegar ekki í veg fyrir að æðra stjórnvaldi sé heimilt að fjalla um erindið þótt því sé ekki skylt að taka það til úrlausnar sem stjórnsýslukæru, sjá mál nr. 2569/1998 (12.2. í kafla III) mál nr. 2675/1999 (17.1. í kafla III) og mál nr. 2770/1999 ( 14.1. í kafla III).
Eitt af því sem bent er á í nokkrum þeirra mála sem gerð er grein fyrir í þessari skýrslu er að stundum skortir á að stjórnvöld fylgi ákvæðum 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Þar segir að við meðferð mála, þar sem taka á ákvörðun um rétt eða skyldu manna samkvæmt 2. mgr. l. gr. stjórnsýslulaga, beri stjórnvaldi að skrá upplýsingar um málsatvik sem því eru veittar munnlega ef þær hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins og þær er ekki að finna í öðrum gögnum þess. Á þetta lagaákvæði er t.d. bent í umfjöllun um þrjú mál þar sem fjallað er um ráðningu í opinbert starf en þar kom fram að aflað hefði verið ákveðinna munnlegra upplýsinga sem þýðingu höfðu með þeim hætti sem 23. gr. upplýsingalaga fjallar um án þess að upplýsingarnar væru skráðar, sjá mál nr. 2784/1999 (12.8. í kafla III), mál nr. 2787/1999 (12.9. í kafla III) og mál nr. 2795/1999 (12.11. í kafla III).

4.
Frumkvæðismál.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997 getur umboðsmaður að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar. Þá getur umboðsmaður jafnframt tekið starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds til almennrar athugunar. Að meðaltali voru það um þrjú mál á ári sem umboðsmaður tók til athugunar á grundvelli þessarar heimildar fyrstu 9 starfsárin en á árinu 1998 voru málin 6 og 10 árið 1999. Skýrist þessi fjölgun meðal annars af því að á þessum árum voru tekin til athugunar nokkur álitaefni á sviði skattamála og framkvæmd þeirra. Á árinu 2000 tók ég til athugunar að eigin frumkvæði 3 mál og fjölluðu þau um greiðslu barnalífeyris til þeirra sem hlotið hafa varanlega örorku vegna slyss, gjaldstofn erfðafjárskatts í þeim tilvikum þegar dánarbú hefur selt fasteign og tiltekin atriði í störfum og starfsháttum nefndar þeirrar sem starfar samkvæmt 31. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, og metur hæfi umsækjenda um ákveðnar stöður lækna. Ástæða þess að ég tók þessi mál til athugunar að eigin frumkvæði voru atriði sem fram höfðu komið við athugun mína á málum sem ég hafði haft til meðferðar. Frumkvæðismál urðu hins vegar ekki fleiri á árinu þar sem ég ákvað að leggja áherslu á að hraða afgreiðslu þeirra kvartana sem höfðu borist. Með sama hætti ákvað ég einnig að láta úrvinnslu á eldri málum sem tekin höfðu verið til athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997 bíða þar til náðst hefði ásættanlegur málshraði við afgreiðslu kvartana. Um áramótin 2000/2001 var því lokið afgreiðslu á alls 9 málum sem tekin höfðu verið til athugunar að eigin frumkvæði umboðsmanns fyrir árið 2000 en tekið skal fram að í 5 þessara mála var beðið eftir því að stjórnvöld gerðu grein fyrir úrbótum og breytingum á starfsháttum sem þau höfðu lýst yfir að ráðist yrði í eftir að umboðsmaður hafði tekið viðkomandi mál til athugunar. Í 4 af þessum 9 málum er fjallað um framkvæmd skattamála og töku þjónustugjalda en í hinum er fjallað um reglur um starfsmenn sveitarfélaga, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, skipulag heilbrigðisþjónustu og málefni fanga.
Í þessari skýrslu eru birt í heild sinni tvö álit vegna athugana sem umboðsmaður framkvæmdi að eigin frumkvæði. Er þar annars vegar um að ræða athugun á framkvæmd almennrar birtingar verklagsreglna og fyrirmæla ríkisskattstjóra sem vörðuðu túlkun eða skýringu skattalaga eða hefðu með öðrum hætti þýðingu við framkvæmd skattalaga, sjá mál nr. 2542/1998 (15.3. í kafla III). Hins vegar er um að ræða álit sem varðar athugun á því hvort skattframkvæmd við skiptingu barnabóta milli hjóna, sambýlisfólks og einstaklinga í staðfestri samvist væri í samræmi við lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sjá mál nr. 2785/1999 (15.8. í kafla III).
Ég legg áherslu á mikilvægi þess að umboðsmaður eigi þess kost að beita umræddri heimild sinni til að taka mál til athugunar að eigin frumkvæði. Því verður hins vegar ekki með góðu móti við komið nema umboðsmanni sé gert það kleift með nauðsynlegum fjárveitingum. Umboðsmanni berast jafnan ýmsar ábendingar um mál sem tilefni getur verið til að kanna betur þótt ekki verði leyst úr þeim á grundvelli kvörtunar frá einstaklingi eða lögaðila. Stundum er eðli málanna líka með þeim hætti að heppilegra er að taka þau til athugunar með heildstæðum hætti og án þess að til úrlausnar sé t.d. ágreiningsmál vegna tiltekins einstaklings. Ég lít líka svo á að frumkvæðiseftirlit það sem 5. gr. laga nr. 85/1997 gerir ráð fyrir sé sérstaklega til þess fallið að veita umboðsmanni Alþingis færi á því að stuðla að umbótum í stjórnsýslunni og þar með að rækja það lögbundna hlutverk að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Ég minni þar á að í athugasemdum með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, sagði að einn þáttur í starfi umboðsmanns skyldi vera að gera „tillögur almenns eðlis til endurbóta á stjórnsýslu“. (Alþt. 1986-1987, A-deild, bls. 2559-2660.)

5.
Úrræði stjórnvalda í tilefni af álitum umboðsmanns.

Allt frá stofnun embættis umboðsmanns Alþingis hefur verið farin sú leið í þeim álitum sem umboðsmaður hefur ritað á grundvelli ákvæða b-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. l3/1987, sbr. nú sama ákvæði í lögum nr. 85/1997, að beina eftir atvikum þeim tilmælum til hlutaðeigandi stjórnvalds að það taki umrætt mál til endurskoðunar, sökum form- eða efnisgalla á málsmeðferð þess, ef beiðni um endurupptöku málsins berst stjórnvaldinu frá þeim aðila sem kvartað hefur til umboðsmanns Alþingis. Ástæðan fyrir þessu er nánar tiltekið sú að umboðsmaður Alþingis hefur ekki beint réttarskipandi vald að lögum gagnvart stjórnvöldum þannig að hann geti krafist þess að stjórnvöld geri eitthvað eða láta eitthvað ógert í tilteknu máli. Umboðsmaður hefur því að forminu til eftirlátið þeim aðila sem kvartað hefur til hans að taka ákvörðun um hvort hann óski eftir endurupptöku máls síns hjá viðkomandi stjórnvaldi á grundvelli þeirra sjónarmiða sem fram koma í áliti umboðsmanns.
Ég verð stundum var við þau viðbrögð af hálfu stjórnvalda að þau eru í óvissu um hvort þau sjálf geti að eigin frumkvæði brugðist við slíkum tilmælum óháð því hvort sá sem borið hefur fram kvörtun við umboðsmann setur fram beina kröfu um að mál hans verði tekið til meðferðar að nýju.
Ég legg áherslu á að enda þótt valdheimildir umboðsmanns Alþingis að lögum hafi leitt til þess að rétt hafi verið talið í álitum hans að gera tilmæli um endurskoðun máls hjá stjórnvaldi háð því að beiðni þar um komi fram frá hlutaðeigandi aðila kann stjórnvaldinu að vera heimilt að endurskoða afstöðu sína til umrædds máls að eigin frumkvæði. Ég minni á að stjórnvöld hafa að lögum víðtækar heimildir til að endurskoða fyrri ákvarðanir sínar að eigin frumkvæði við ákveðnar aðstæður. Samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 getur stjórnvald þannig afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði sem tilkynnt hefur verið aðila máls þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun er ógildanleg. Rétt er að geta þess að lagt hefur verið til grundvallar að heimildir stjórnvalda til afturköllunar séu ekki tæmandi taldar í ákvæðinu. Þá verður líka að hafa í huga að ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rétt aðila máls til að mál hans sé tekið fyrir að nýju er ekki tæmandi upptalning á þeim tilvikum heldur getur aðili máls „að sjálfsögðu átt rétt til endurupptöku máls í fleiri tilvikum en þessum tveimur, ýmist á grundvelli lögfestra reglna eða óskráðra“ eins og það er orðað í athugasemd með 24. gr. í frumvarpi til stjórnsýslulaga. (Alþt. 1992, A-deild, bls. 3304.)
Þegar umboðsmaður Alþingis beinir þeim tilmælum til stjórnvalda að endurupptaka mál, að því skilyrði fullnægðu að beiðni þess efnis sé borin fram frá aðila þess, verður jafnan að leggja til grundvallar að umboðsmaður hafi metið það svo að þeir annmarkar á málsmeðferð stjórnvaldsins eða efnislegri úrlausn séu þess eðlis að ákvörðun verði talin ógildanleg í merkingu 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga. Þá liggur það í hlutarins eðli að þau mál sem kvartað er yfir til umboðsmanns fela jafnan í sér úrlausn af hálfu stjórnvalds sem aðili er ósáttur við sökum þess að hann hefur ekki fengið þann rétt sem hann telur sig eiga að lögum eða að úrlausnin sé að öðru leyti íþyngjandi fyrir hann. Það er því vandséð að afturköllun ákvörðunar, sem er andlag kvörtunar til umboðsmanns, geti leitt til tjóns fyrir aðila máls, sbr. l. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga.
Með hliðsjón af framangreindu bendi ég á að enda þótt umboðsmaður hafi lokið máli með áliti þar sem tilmælum er beint til stjórnvalds að það endurupptaki mál, komi fram beiðni þess efnis frá aðila þess, tel ég rétt og eðlilegt að stjórnvöld taki afstöðu til þess í slíkum tilvikum hvort rétt sé að þau nýti heimild 25. gr. stjórnsýslulaga eða ólögfestar afturköllunarheimildir stjórnsýsluréttarins og afturkalli ákvörðun sína að eigin frumkvæði. Hér er líka ástæða til að minna á þá grundvallarreglu að stjórnvöld eiga að haga störfum sínum í samræmi við lög og leysa úr málum borgaranna á þeim grundvelli. Hafi orðið frávik frá þessu við afgreiðslu stjórnvalds á ákveðnu máli ætti það almennt að vera markmið stjórnvalda að bæta úr slíkum annmarka og færa úrlausn máls í rétt horf.

6.
Tilkynningar stjórnvalda um tafir á afgreiðslu mála.

Ég hef sem fyrr orðið þess var í störfum mínum að málsmeðferðartími stjórnvalda er á stundum lengri en meginregla l. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga gerir ráð fyrir. Tel ég ekki tilefni til þess að fjalla hér sérstaklega og með almennum hætti um efni og ytri mörk meginreglunnar um málshraða. Vísa ég í því sambandi meðal annars til álita umboðsmanns Alþingis sem um það efni fjalla. Ég tel þó rétt að vekja hér athygli á því að í 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um það að þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast beri stjórnvaldi að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.
Fyrirmæli 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga eru í eðli sínu dæmi um lögfestingu vinnubragða innan stjórnsýslunnar sem ég tel að yrðu öðrum kosti talin falla undir hugtakið vandaðir stjórnsýsluhættir í merkingu l. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997. Með því að fylgja fyrirmælum 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga leggja stjórnvöld grunninn að réttum og eðlilegum samskiptum milli þeirra og almennings. Með því skapa stjórnvöld það traust sem ríkja þarf milli stjórnsýslunnar og borgaranna.
Stjórnvöld verða ávallt að hafa í huga að þau gegna mikilvægu þjónustuhlutverki gagnvart borgurunum. Það er því ákaflega mikilvægt að stjórnvöld sjái til þess að gætt sé málsmeðferðarreglna sem beinlínis tengjast sjónarmiðum um að niðurstaða máls sé byggð á réttum efnislegum forsendum og málsatvikum, s.s. rannsóknarreglunni, jafnræðisreglunni, meðalhófsreglunni og andmælareglunni, svo og reglna á borð við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, sem hafa það að markmiði sínu að gefa hlutaðeigandi aðila fullnægjandi kost á að fylgjast með framvindu máls síns.

7.
Afgreiðslutími mála hjá umboðsmanni.

Gerð heimasíðu fyrir umboðsmann Alþingis og sú umfangsmikla vinna sem starfsmenn embættisins þurftu að inna af hendi í því sambandi svo og flutningur skrifstofu embættisins í nýtt húsnæði að Álftamýri 7, varð til þess að afgreiðsla mála hjá umboðsmanni Alþingis dróst nokkuð á árunum 1999-2000. Hef ég nú sett það markmið, sem vonandi næst innan skamms, að afgreiðslutími mála styttist nokkuð þannig að niðurstaða í þeim málum sem sæta nánari athugun af minni hálfu, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, liggi að jafnaði fyrir eigi síðar en 6 mánuðum eftir að kvörtun berst skrifstofu minni.
Hafa verður í huga að afgreiðslutími mála hjá umboðsmanni Alþingis markast að verulegu leyti af því hvernig stjórnvöld sem í hlut eiga hverju sinni bregðast við fyrirspurnum mínum og beiðnum um skýringar í tilefni af tilteknum málum, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997. Mun ég því í samræmi við ofangreint markmið um styttingu afgreiðslutíma leggja á það aukna áherslu í störfum mínum að hlutaðeigandi stjórnvöld svari fyrirspurnarbréfum mínum og beiðnum um afhendingu gagna eins fljótt og kostur er.