14. janúar 2014

Eftirlit með starfsemi lögreglunnar.

Umboðsmaður Alþingis hefur sent innanríkisráðherra, sem æðsta yfirmanni lögreglu í landinu, bréf þar sem ábendingum er lúta að eftirliti með störfum lögreglu er komið á framfæri.


Bréf umboðsmanns til ráðherra er ritað í framhaldi af athugunum hans á kvörtunum einstaklinga sem hafa leitað til hans og talið að lögregla hafi brotið gegn réttindum þeirra við framkvæmd starfa hennar. Athugun umboðsmanns á þessum málum varð honum tilefni til að huga að því hvaða úrræði standa borgurunum almennt til boða þegar þeir telja að lögreglan hafi ekki fylgt réttum reglum í störfum sínum og samskiptum við þá.

Með vísan til yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda innanríkisráðuneytisins benti umboðsmaður á að staða hins almenna borgara væri að ýmsu leyti óljós þegar þessi mál koma upp, bæði um það hvaða leiðir honum stæðu til boða og hver réttarstaða hans væri við meðferð stjórnvalda á þeim. Ákvæði núgildandi laga tækju einkum mið af kærum vegna meintrar refsiverðrar háttsemi þar sem sjónarhorninu væri fyrst og fremst beint að tilteknum lögreglumönnum. Oftar en ekki væri aftur á móti um það að ræða að borgarararnir gerðu almennar athugasemdir við athafnir og starfshætti lögreglunnar, þ.e. þær lytu ekki endilega að refsiverðri háttsemi hennar. Stjórnsýslueftirliti með lögreglunni í þágu borgaranna þyrfti að finna farveg sem tæki mið af þessu.

Umboðsmaður taldi rétt að beina því til innanríkisráðherra hvort ástæða væri til að leggja mat á þörfina hér á landi fyrir aukin úrræði borgaranna til þess að bera fram kvartanir vegna samskipta við lögreglu og þá einnig í tilvikum þar sem kvörtun beinist ekki að ætlaðri refsiverðri háttsemi lögreglumanna. Skýrari reglur um þessi mál væru jafnframt í þágu þeirra sem sinna löggæslustörfum. Í því sambandi var m.a. gerð grein fyrir því að þróunin í nágrannalöndum okkar hefði verið í þá átt að tryggja betur möguleika borgaranna til að bera fram kvartanir vegna samskipta við lögreglu, og þá einnig í þeim tilvikum þar sem ekki léki grunur á að framganga lögreglu hefði verið með refsiverðum hætti, og fá leyst úr þeim. Var þess óskað að ráðuneytið upplýsti umboðsmann fyrir 1. mars nk. hvort ábending hans hefði orðið tilefni til einhverra viðbragða af hálfu ráðuneytisins. Að fengnum svörum ráðuneytisins tæki umboðsmaður jafnframt afstöðu til þess hvort tilefni væri til að hann tæki framkvæmd eftirlits með starfsemi lögreglunnar til athugunar að eigin frumkvæði.

Hægt er að nálgast bréf umboðsmanns hér.