21. júlí 2011

Meinbugir á tollalögum

Hlutverk umboðsmanns Alþingis, lögum samkvæmt, er að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Telji hann athöfn stjórnvalds brjóta í bága við lög eða vandaða stjórnsýsluhætti getur hann látið í ljós álit sitt á því og beint tilmælum um úrbætur til hlutaðeigandi stjórnvalds. Það er hins vegar almennt ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett, s.s. hvort tiltekið lagaákvæði standist stjórnarskrá. Í okkar réttarkerfi er gert ráð fyrir því að það verkefni falli dómstólum í skaut. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni Alþingis þó veitt heimild til að gera Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnum viðvart ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum.

Ekki er gert ráð fyrir að kvörtun verði borin fram við umboðsmann vegna hugsanlegra meinbuga á lögum. Þegar ábendingar berast um slíkt hefur umboðsmaður þó kynnt sér efni þeirra og sama gildir ef vísbending um slíkt verður ráðin af gögnum máls sem hann hefur til umfjöllunar á grundvelli kvörtunar. Í sumum tilvikum verða slíkar ábendingar eða vísbendingar til þess að umboðsmaður tekur mál til umfjöllunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997.
Meinbugir á lögum geta verið formlegs eðlis, svo sem misræmi milli ákvæða, prentvillur, óskýr texti o.fl. Einnig geta meinbugir verið fólgnir í efnisatriðum. Í þeim tilvikum þegar álitaefnið beinist að ósamræmi á milli almennra laga, afgreiddum af Alþingi með stjórnskipulega réttum hætti, og stjórnarskrár eða þjóðréttarlegra skuldbindinga sem íslenska ríkið hefur undirgengist, kemur helst til greina að umboðsmaður nýti heimild í 11. gr. laga nr. 85/1997 þegar leiða má slíka niðurstöðu af dómum Hæstaréttar eða eftir atvikum alþjóðlegra úrskurðaraðila.

Hinn 24. júní 2010 leituðu Samtök verslunar og þjónustu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir því að í þremur tilgreindum reglugerðum um tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarvörum, settum af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, væri notast við verðtolla fremur en magntolla. Samtökin drógu í efa að það fyrirkomulag stæðist lög og töldu jafnframt að við ákvörðun fyrirkomulagsins hefði ekki verið gætt að lögmætum hagsmunum innflutningsaðila. Efni kvörtunarinnar laut þannig að stjórnsýslulegri meðferð ráðherra á þeim valdheimildum sem honum eru fengnar í lögum. Áður en kom til umfjöllunar um það atriði taldi umboðsmaður nauðsynlegt að athuga hvort lagagrundvöllurinn sem reglugerðirnar byggðust á væri fullnægjandi miðað við þær kröfur sem leiða af stjórnarskrá. Sú athugun leiddi til þeirrar niðurstöðu umboðsmanns að heimildir, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eru veittar til ákvörðunar um álagningu tolla samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 3. mgr. 12. gr. sömu laga, sbr. 65. gr. A laga nr. 99/1993, væru ekki í samræmi við kröfur um skattlagningarheimildir sem leiða af ákvæðum 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrár. Umboðsmaður tilkynnti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fjármálaráðherra og forseta Alþingis um þá niðurstöðu sína með áliti, dags. 18. júlí 2011.

Álit umboðsmanns Alþingis um málið er nr. 6070/2010 og er aðgengileg á heimasíðunni.

Mál nr. 6070/2010.