Hinn 18. júní sl. lauk umboðsmaður við þrjú mál þar sem reynir á almenn atriði er varða auglýsingar á opinberum störfum og ákvarðanir um ráðningar í þau. Í þessum málum setti umboðsmaður fram ábendingar um atriði sem hann telur rétt að koma almennt á framfæri við forstöðumenn ríkisstofnana og þá sem fara með ráðningarvald hjá hinu opinbera með tilliti til þess að betur verði gætt að þeim tilgangi sem býr að baki auglýsingaskyldu starfa hjá ríkinu. Minnir umboðsmaður á að þegar þessi regla var fyrst lögfest árið 1954 var lögð áhersla á að það væri „réttlætismál og jafnréttis, að öllum þeim, er hugur leikur á tilteknu opinberu starfi, sé veittur þess kostur að sækja um það. Ríkinu ætti þá einnig að vera meiri trygging fyrir því, að hæfir menn veljist í þjónustu þess“. Í kvörtunum sem umboðsmanni berast er iðulega fundið að því að störf hjá ríkinu hafi ýmist ekki verið auglýst eða í þau hafi ekki verið ráðið í samræmi við þau sjónarmið sem fram hafi komið í auglýsingu og leiða af reglunni um að velja skuli hæfasta umsækjandann. Af hálfu umboðsmanns Alþingis er eins og jafnan lögð áhersla á mikilvægi þess að auka traust á störfum stjórnsýslunnar almennt. Umboðsmaður telur að slíkt sé mjög brýnt um þessar mundir og liður í því sé að forstöðumenn ríkisstofnana gæti betur að því að haga auglýsingum á störfum hjá ríkinu til samræmis við þann tilgang sem býr að baki lagareglunni um auglýsingaskylduna.
Niðurstöður umboðsmanns í þessum þremur málum og þær almennu ábendingar sem þar koma fram og vísað er til hér að framan eru birtar undir einstökum málanúmerum á heimasíðu umboðsmanns og í lista yfir síðust afgreidd mál.
Í áliti nr. 5864/2009 fjallar umboðsmaður um mikilvægi þess að greina eins og kostur er frá því í auglýsingu um opinbert starf hvers eðlis starfið er, ásamt starfssviði þess auk þess að gera grein fyrir því í auglýsingu hvaða hæfis- og hæfniskröfum og sjónarmiðum ætlunin er að byggja á við beitingu þeirrar óskráðu grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins að velja skuli þann hæfasta úr hópi umsækjenda.
Í áliti nr. 6137/2010 reynir á það álitaefni hvort það embætti sem auglýst var laust til umsóknar hafi í reynd verið „laust“ í skilningi 1. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þannig að ætlunin hafi verið að velja í það úr hópi umsækjenda í samræmi við þá grundvallarreglu að auglýsa skuli laus störf hjá ríkinu.
Í máli nr. 6276/2011 setti umboðsmaður fram ábendingar um þýðingu þess að forstöðumenn opinberra stofnana gæti að þeim tilgangi sem býr að baki lagareglunni um auglýsingaskyldu starfa hjá ríkinu í tilefni af setningum og ráðningum í tímabundin störf vegna forfalla og afleysinga starfsmanna.