Umboðsmaður Alþingis hefur í dag ritað innanríkisráðherra bréf og óskað eftir tilteknum upplýsingum um samskipti hans við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu um lögreglurannsókn sem embætti hans vann að er beindist að meðferð trúnaðarupplýsinga í innanríkisráðuneytinu.
Bréf umboðsmanns Alþingis til innanríkisráðherra er svohljóðandi:
Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Skal umboðsmaður í því sambandi gæta þess að stjórnsýslan fari fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í framhaldi af frásögn sem birtist í DV sem kom út 29. júlí sl. um tiltekin samskipti yðar, fr. innanríkisráðherra, við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og samtölum sem ég hef átt við lögreglustjórann og ríkissaksóknara, hef ég ákveðið að óska eftir, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997 að þér látið mér í té upplýsingar og tiltæk gögn um eftirfarandi:
1. Hvort þér hafið að eigin frumkvæði óskað eftir að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu kæmi til fundar/viðtals við yður í ráðuneytinu þar sem þér rædduð við hann um lögreglurannsókn sem embætti hans vann að á sama tíma og beinist að meðferð tiltekinna trúnaðarupplýsinga sem voru til staðar í innanríkisráðuneytinu. Óskað er eftir að fram komi hvert var tilefni þessara funda/viðtala, hvenær þau fóru fram og að þér lýsið hvað kom þar fram af yðar hálfu í samtölum við lögreglustjórann um rannsóknina og starfshætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu af því tilefni. Þá er óskað eftir að tiltæk gögn um þessi samskipti verði send mér.
2. Með sama hætti er óskað eftir upplýsingum um símtöl sem þér kunnið að hafa átt við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu þar sem þér rædduð um áðurnefnda lögreglurannsókn. Óskað er eftir að fram komi hvenær samtölin fóru fram, hvert var tilefni þeirra og hvað kom þar fram af yðar hálfu um rannsóknina. Óskað er eftir að tiltæk gögn um þessi símtöl verði send mér.
Ég tek það fram að beiðni mín um þessar upplýsingar er sett fram til þess að ég geti tekið afstöðu til þess hvort ég tek mál þetta til formlegrar athugunar, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, og þá með hliðsjón af þeim reglum og sjónarmiðum sem talin eru eiga við um samskipti ráðherra sem fer með yfirstjórn lögreglu við stjórnendur lögregluembætta með tilliti til sjálfstæðis þeirra embætta og ákæruvalds við rannsókn sakamála. Það á sérstaklega við þegar umrædd rannsókn tengist málefnum ráðuneytis viðkomandi ráðherra.
Þess er óskað að svör við þessari fyrirspurn verði send mér eigi síðar en 15. ágúst nk.