06. ágúst 2014

Forsætisráðherra og innanríkisráðherra hafa í dag verið rituð bréf þar sem óskað er eftir tilteknum upplýsingum.

Bréfið til innanríkisráðherra er ritað í framhaldi af svari ráðherrans 1. ágúst sl. við bréfi umboðsmanns Alþingis frá 30. júlí sl. í tengslum við samskipti innanríkisráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu.


Bréfið til forsætisráðherra er svohljóðandi:

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Skal umboðsmaður í því sambandi gæta þess að stjórnsýslan fari fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Ástæða þess að yður, hr. forsætisráðherra, er ritað bréf þetta er það hlutverk sem þér farið með í tengslum við siðareglur ráðherra samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, sbr. einnig m-lið 1. gr. forsetaúrskurðar nr. 71/2013, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Með stoð í 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, voru samþykktar siðareglur ráðherra nr. 360/2011, sem voru birtar í B-deild Stjórnartíðinda 8. apríl 2011. Í 4. mgr. 1. gr. siðareglnanna kemur fram að reglurnar gildi „út starfstíma núverandi ríkisstjórnar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 73/1969“. Siðareglurnar voru settar á starfstíma ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra. Ekki verður séð að ríkisstjórn yðar hafi samþykkt nýjar siðareglur ráðherra.

Samkvæmt áðurnefndri 2. mgr. 24. gr. laga nr. 115/2011 samþykkir ríkisstjórn siðareglur fyrir ráðherra. Forsætisráðherra undirritar siðareglurnar fyrir hönd ríkisstjórnar og birtir þær. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum segir að samkvæmt 2. mgr. staðfesti forsætisráðherra siðareglur fyrir „ráðherra ríkisstjórnar sinnar“. Slíkar reglur hafi verið staðfestar 22. mars 2011 með heimild í gildandi lögum og hafi það verið „fyrstu siðareglurnar“ sem settar hafa verið í kjölfar þeirra lagabreytinga sem gerðar voru með lögum nr. 86/2010. Siðareglur þessar fylgdu með frumvarpi því er að varð að lögunum, sbr. fylgiskjal II með þeim. (Alþt. 139. löggj.þ., þskj. 1191.) Í 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga nr. 73/1969 kom fram að forsætisráðherra staðfesti „siðareglur fyrir ráðherra ríkisstjórnar sinnar“ í kjölfar samráðs á ráðherrafundi.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er þess í fyrsta lagi óskað að umboðsmaður Alþingis verði upplýstur um hvort ríkisstjórn yðar, hr. forsætisráðherra, hafi samþykkt siðareglur fyrir ráðherra, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 115/2011. Hafi slíkar reglur verið samþykktar er óskað eftir afriti af þeim.

Hafi ríkisstjórn yðar, hr. forsætisráðherra, ekki samþykkt siðareglur fyrir ráðherra er í öðru lagi óskað eftir afstöðu yðar til þess hvort siðareglur ráðherra nr. 360/2011 gildi um störf ráðherra í ríkisstjórn yðar. Í þessu sambandi er athygli vakin á því að á heimasíðu forsætisráðuneytisins er að finna hlekk: „Siðareglur ráðherra“ sem vísar á siðareglur ráðherra nr. 360/2011. Komi til þess að ríkisstjórn yðar samþykki siðareglur  ráðherra er þess óskað að umboðsmanni verði tilkynnt um það sérstaklega.

Þess er óskað að svar berist fyrir 15. ágúst nk.

Bréfið til innanríkisráðherra er svohljóðandi:

Í framhaldi af svari yðar, fr. innanríkisráðherra, dags. 1. ágúst sl., við bréfi umboðsmanns Alþingis frá 30. júlí sl. óskar umboðsmaður eftir upplýsingum og gögnum um eftirfarandi atriði:

1. Í svarinu kemur fram að ráðherra hafi átt fjóra fundi með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu frá því rannsókn sú sem vísað er til í bréfinu hófst í febrúar sl. Ítrekuð er ósk umboðsmanns að upplýst verði hvenær þessir fundir fóru fram.

2. Í svarbréfinu kemur fram að enginn þessara funda hafi verið boðaður til að ræða áðurnefnda rannsókn sérstaklega. Óskað er eftir upplýsingum um hvaða málefni/viðfangsefni voru til umfjöllunar á þessum fundum og hver boðaði lögreglustjóra til fundanna af hálfu ráðuneytisins/ráðherra. Ítrekuð er ósk um að umboðsmanni verði afhent þau gögn sem til eru um þessa fundi, gögn sem lögð voru fram eða stuðst við á þessum fundum, þ.m.t. um fundarefni, boðun þeirra og skráningu frá fundunum. Minnt skal á að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er stjórnvöldum skylt að afhenda umboðsmanni umbeðin gögn og um meðferð þeirra og þagnarskyldu fer eftir 8. gr. sömu laga.

3. Með tilliti til þess sem fram kemur í svarbréfinu er óskað eftir að umboðsmanni verði afhent afrit af þeim gagna- og rannsóknarbeiðnum lögreglu sem beint var til innanríkisráðuneytisins eftir að áðurnefnd rannsókn hófst í febrúar sl. Jafnframt er óskað eftir að upplýst verði hvenær einstökum beiðnum var svarað af hálfu ráðuneytisins og umbeðin gögn látin í té. Tekið er fram að ekki er óskað eftir afriti af þeim gögnum sem ráðuneytið kann að hafa afhent lögreglunni.

4. Reglur um skráningu formlegra samskipta í Stjórnarráði Íslands voru settar af forsætisráðherra hinn 20. desember 2013 á grundvelli 2. mgr. 11. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands. Reglur þessar eru nr. 1200/2013 og voru birtar í B-deild Stjórnartíðinda sem kom út 30. desember 2013 og öðluðust þegar gildi. Í reglunum er kveðið á um að skrá skuli í málaskrá ráðuneytis formleg samskipti og formlega fundi milli ráðuneyta og við aðila utan stjórnarráðsins. Í 3. og 4. tölul. 1. gr. er fjallað um samtöl og fundi. Í ljósi þess sem fram kemur í svari yðar, fr. innanríkisráðherra, um það hvað hafi borið á góma í samskiptum yðar við lögreglustjórann og um upplýsingaöflun lögreglunnar frá ráðuneytinu óskar umboðsmaður eftir að hann verði upplýstur um hvað af þessum samskiptum, þ.e. fundir og símtöl, hafi verið skráð í samræmi við reglur nr. 1200/2013 og ef það var ekki gert hverjar hafi verið ástæður þess.

5. Til þess að glöggva sig almennt á framkvæmd reglna nr. 1200/2013 að því er varðar skráningu símtala og funda hjá ráðuneytinu óskar umboðsmaður eftir að fá afhent afrit af heildarskrá innanríkisráðuneytisins um þessi atriði á tímabilinu 1. janúar til 1. júlí 2014. Ef ráðuneytið telur það erfiðleikum bundið að afhenda afrit þessara gagna í ljósi þess að umfang þeirra er það verulegt eða það verði ekki gert innan þess tíma sem óskað er eftir svari við bréfi þessu er óskað eftir að það komi fram og umboðsmaður mun þá kynna sér umræddar skrár í ráðuneytinu.

Af hálfu umboðsmanns Alþingis er tekið fram að beiðni um ofangreindar upplýsingar og gögn er sett fram á grundvelli 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, í því skyni að afla frekari upplýsinga um málið áður en tekin verður ákvörðun um hvort tilefni er til þess að taka það mál sem bréf umboðsmanns frá 30. júlí sl. fjallaði um til formlegrar athugunar á grundvelli 5. gr. áðurnefndra laga.

Þess er óskað að svar við þessu bréfi og umbeðin gögn verði send umboðsmanni eigi síðar en 15. ágúst nk.