Skýrsluna má nálgast á pdf-skjali
hér (5,27 MB) eða í prentaðri útgáfu á skrifstofu umboðsmanns í Templarasundi 5, Reykjavík í næstu viku.
Skýrslan er samin í samræmi við 12. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, þar sem fram kemur að umboðsmaður skuli gefa Alþingi árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári.
Í skýrslunni er gerð grein fyrir starfsemi umboðsmanns Alþingis á árinu 2014 og birt töluleg yfirlit. Jafnframt er þar fjallað um stöðu mála hjá embættinu í ljósi fjölgunar kvartana síðustu ár sem aftur hefur leitt til þess að umboðsmaður hefur aðeins í undantekningartilvikum getað sinnt frumkvæðisathugunum. Nýjar kvartanir á árinu 2014 voru 492 og umboðsmaður tók á því ári formlega til athugunar tvö mál að eigin frumkvæði. Afgreidd mál voru 558 og er það mesti fjöldi mála sem hefur verið afgreiddur hjá embættinu á einu ári. Í skýrslunni koma fram upplýsingar um hvernig tekist hefur að stytta afgreiðslutíma mála vegna kvartana.
Allar helstu úrlausnir og álit umboðsmanns Alþingis eru birt á heimasíðu embættisins jafnskjótt og niðurstaða í þeim liggur fyrir. Í stað þess að ársskýrsla umboðsmanns þjóni þeim tilgangi að veita áhugasömum almennt yfirlit yfir úrlausnir og framkvæmd embættisins miðar hún nú fyrst og fremst að því að veita Alþingi innsýn í starf umboðsmanns og verkefni. Í skýrslunni eru nú eingöngu birt stutt ágrip af álitum og öðrum völdum niðurstöðum frá árinu 2014 sem síðan er hægt að nálgast í heild sinni á heimasíðu embættisins. Hins vegar er lögð áhersla á að greina frá viðbrögðum stjórnvalda við tilmælum sem umboðsmaður hefur beint til þeirra í tilefni af athugunum sínum. Á grundvelli þeirra upplýsinga er Alþingi betur í stakk búið til þess að taka afstöðu til þess hvort það telur tilefni til þess að fjalla frekar um þau viðbrögð.
Breytingar á upplýsingamiðlun hafa jafnframt leitt til þess að prentuðum eintökum ársskýrslunnar hefur verið fækkað, enda er hægt að nálgast hana rafrænt á heimasíðu umboðsmanns. Þannig verður skýrslunni eins og á síðastliðnu ári aðallega dreift rafrænt til þingmanna. Skrifstofa Alþingis fær þó send prentuð eintök af skýrslunni til afnota.