08. september 2015

Kvartanir eftirlifandi aðstandenda til landlæknis

Í júnílok á þessu ári óskaði umboðsmaður Alþingis eftir upplýsingum frá velferðarráðuneytinu sem vörðuðu m.a. möguleika eftirlifandi aðstandenda til að leggja fram kvörtun hjá landlækni yfir vanrækslu eða mistökum við veitingu heilbrigðisþjónustu.


Beiðnin var sett fram til þess að umboðsmaður gæti metið hvort tilefni væri til að taka málefnið til athugunar að eigin frumkvæði. Tilefnið var erindi eftirlifandi maka sem hafði lagt fram kvörtun hjá landlækni. Í stað þess að málið væri tekið til meðferðar sem kvörtun var það lagt í farveg almenns eftirlits landlæknis með hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum.

Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu er heimilt að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þá er notendum heilbrigðisþjónustunnar jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna hafi verið ótilhlýðileg. Um meðferð kvartana gilda að meginstefnu ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Að lokinni málsmeðferð gefur landlæknir skriflegt álit þar sem hann tilgreinir efni kvörtunar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Í lok álitsins dregur hann saman aðalniðurstöðu. Heimilt er að kæra málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmálum til heilbrigðisráðherra.

Landlæknir hefur jafnframt almennt eftirlit með störfum heilbrigðisstarfsmanna og hefur lögbundin úrræði til að afla upplýsinga og bregðast við gagnvart þeim að tilteknum skilyrðum fullnægðum, s.s. með áminningu og sviptingu starfsleyfis. Þegar landlækni berast ábendingar eða athugasemdir sem gefa tilefni til slíks eftirlits verður sá sem kemur þeim á framfæri almennt ekki aðili að stjórnsýslumáli sem kann að hefjast í kjölfarið.

Af samskiptum landlæknisembættisins við makann sem leitaði til landlæknis varð ráðið að ástæða þess að málið var fellt í farveg almenns eftirlits væri sú afstaða embættisins að einungis sjúklingur sjálfur gæti beint kvörtun til landlæknis. Þetta hafði m.a. í för með sér að makinn hafði ekki stöðu aðila að málinu og fékk því ekki aðgang að niðurstöðu landlæknis í málinu en var bent á að snúa sér til sjúkrahússins.

Aðila stjórnsýslumáls eru tryggð ýmis réttindi með ákvæðum stjórnsýslulaga, s.s. andmælaréttur, réttur til aðgangs að gögnum málsins, réttur til þess að fá skriflegan rökstuðning hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt og kæruheimild. Það getur því haft verulega þýðingu fyrir möguleika á aðkomu að stjórnsýslumála að eiga aðild að því. Í ljósi þessa taldi umboðsmaður tilefni til að inna velferðarráðuneytið eftir því hvort það væri sammála túlkun landlæknisembættisins á lagaákvæðinu.

Umboðsmanni barst svar velferðarráðuneytisins með bréfi, dags. 18. ágúst sl. Í bréfinu kemur fram að ráðuneytið sé ekki sammála túlkun landlæknis og muni á grundvelli stjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna taka til athugunar verklagsreglur embættisins í málum er varða afgreiðslu kvartana frá aðstandendum látinna. M.a. verði kannað hvort tilefni sé til að beina tilmælum til landlæknis um endurupptöku á máli þess einstaklings sem leitað til umboðsmanns.

Í ljósi þessara viðbragða velferðarráðuneytisins telur umboðsmaður ekki tilefni til að hefja formlega athugun að eigin frumkvæði. Hann hefur þó óskað eftir því að ráðuneytið upplýsi sig um framvindu mála til þess að unnt verði að gera grein fyrir henni í ársskýrslu umboðsmanns til Alþingis fyrir árið 2015.