13. nóvember 2015

Áhrif stjórnmálaskoðana þegar ráðið er í opinbert starf

Í kvörtunum sem berast umboðsmanni vegna ráðninga í opinber störf er af og til vísað til þess að stjórnmálaskoðanir eða starf umsækjanda á þeim vettvangi hafi haft áhrif við ráðninguna.


Um ráðningar í opinber störf gilda skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttar. Þær lúta bæði að þeirri málsmeðferð sem ber að viðhafa og að efni málsins. Ein þeirra reglna sem verður að gæta að er svokölluð réttmætisregla stjórnsýsluréttar. Í henni felst að athafnir og ákvarðanir stjórnvalda verða að byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Við mat á því hvort sjónarmið teljist málaefnalegt verður m.a. að horfa til jafnræðisreglna, þ. á m. jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Í henni kemur m.a. fram að óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða byggðum á stjórnmálaskoðunum. Af ákvæðinu leiðir að við ákvörðun um ráðningu í opinbert starf, þar sem valið er á milli umsækjenda, er almennt ekki heimilt að líta til þátttöku umsækjenda í stjórnmálastarfi. Skiptir þá ekki máli hvort þeir bjóði sig fram og starfi fyrir framboð sem ekki tilheyra stjórnmálasamtökum á landsvísu. Þátttaka umsækjanda um opinbert starf í slíku stjórnmálastarfi á þannig að meginstefnu hvorki að vera honum til framdráttar né koma niður á honum í ráðningarferlinu. Í þessu sambandi verður einnig að huga að vernd tjáningarfrelsis.

Frá þessu eru þröngar undantekningar. Dæmi um það er þegar það leiðir af lögum að heimilt er að líta til slíkra skoðana við ráðningu í starf. Það á t.d. við um ráðningar í störf aðstoðarmanna ráðherra og framkvæmdastjóra sveitarfélaga. Ekki er útilokað að heimilt sé að líta til stjórnmálaskoðana í fleiri tilvikum. Dæmi um það er ef stjórnmálastarf viðkomandi myndi leiða til þess að hann teldist almennt vanhæfur til að gegna umræddu starfi. Sú staðreynd ein og sér að umsækjandi um starf, t.d. hjá sveitarfélagi, hafi með höndum pólitískt starf myndi almennt ekki leiða til þess að að umsækjanda skorti almennt hæfi. Einnig er ekki loku fyrir það skotið að þátttaka í stjórnmálastarfi geti haft áhrif á það traust sem umsækjandi verður að njóta í starfi og teljist þar með málefnalegt sjónarmið við mat á honum í starfið.

Hvað sem framangreindum undantekningum líður er almennt óheimilt að byggja ákvörðun um ráðningu í opinbert starf á þátttöku umsækjanda í stjórnmálastarfi. Á þetta atriði reyndi í máli sem umboðsmaður lauk með áliti frá 9. nóvember sl. í máli nr. 8354/2015 og birt er á heimasíðu embættisins hér. Í stuttu máli var niðurstaða umboðsmanns sú að litið hefði verið til þess að tiltekinn umsækjandi um starf í grunnskóla í sveitarfélagi sæti í bæjarstjórn þess. Sveitarfélagið hefði ekki sýnt fram á að það hefði verið málefnalegt eða heimilt að lögum að byggja á sjónarmiði um þátttöku í stjórnmálastarfi við ráðninguna.