29. janúar 2016

Afgreiðslu á nær 90% kvartana sem bárust 2015 lokið um áramót

Á árinu 2015 bárust umboðsmanni 439 kvartanir.


Kvörtunum hefur fækkað aðeins frá síðasta ári þegar þær voru 494, eða um 11%. Af þeim málum sem bárust á árinu 2015 var afgreiðslu á 88,6% lokið um áramót. Engin ný frumkvæðismál voru tekin upp á árinu en einu slíku  máli var lokið í ársbyrjun.



Á árinu 2015 bárust umboðsmanni 439 kvartanir. Alls voru afgreidd 450 mál á árinu samanborið við 558 á árinu 2014. Mál sem voru til meðferðar hjá umboðsmanni í árslok 2015 voru 67 og hafa ekki verið færri við undanfarin áramót en eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Þá urðu þau flest á árunum 2013-2015 í júlí og ágúst 2013 eða 259.



Fækkun kvartana á árinu 2015 má fyrst og fremst rekja til færri kvartana síðari hluta ársins. Þannig bárust um 42% færri kvartanir í október og nóvember sl. en sömu mánuði árið 2014.

Áfram hefur verið unnið að því að stytta eins og kostur er afgreiðslutíma þeirra kvartana sem berast. Eins og áður sagði var afgreiðslu  88,6% þeirra kvartana sem bárust á árinu lokið um síðustu áramót eða 389. Eins og sjá má á meðfylgjandi yfirlit um málshraða var afgreiðslu á 57% kvartana lokið innan mánaðar frá því að þær bárust og er það svipað hlutfall og var við lok árs 2014. Afgreiðslu á nær 95% kvartana árið 2015 var lokið innan sex mánaða. Tekið skal fram að tölur í neðangreindu yfirliti um málshraða vegna áranna 2012-2014 hafa verið uppfærðar miðað við afgreiðslutíma þeirra mála sem bárust á þessum árum en voru afgreidd á árinu 2015.





Í árslok 2015 voru enn til meðferðar hjá umboðsmanni sex kvartanir sem borist höfðu fyrir upphaf þess árs. Þar af voru þrjár sem miðað er við að verði afgreiddar samhliða frumkvæðismálum sem bíða afgreiðslu. Í tveimur málanna var beðið eftir skýringum stjórnvalda og í einu máli eftir gögnum. Eins og áður hefur komið fram hefur embætti umboðsmanns aðeins í takmörkuðum mæli getað sinnt athugunum mála að eigin frumkvæði síðustu ár. Um áramótin biðu afgreiðslu 11 frumkvæðismál sem hófust fyrir 2015. Til að bregðast við takmörkuðum möguleikum embættisins til að taka mál til formlegrar frumkvæðisathugunar hefur umboðsmaður í ákveðnum tilvikum farið þá leið að senda stjórnvöldum fyrirspurnir vegna mála þar sem hann hefur talið þörf á að kanna hvort tilefni sé til þess að ráðast í frumkvæðisathuganir. Þessar fyrirspurnir hafa jafnframt haft þann tilgang að koma upplýsingum á framfæri við stjórnvöld, um atriði úr stjórnsýsluframkvæmd eða meðferð einstakra mála, þannig að þau geti þá sjálf brugðist við og bætt úr viðkomandi atriðum án frekari aðkomu umboðsmanns að málinu. Á árinu 2015 sendi umboðsmaður stjórnvöldum 17 slík forathugarbréf  sem er sambærilegur fjöldi og árið áður þegar slík bréf voru 18. Að fengnum svörum frá stjórnvöldum ákvað umboðsmaður að aðhafast ekki frekar vegna 12 forathugunarmála en um áramót voru svör vegna 25 slíkra mála til athugunar hjá umboðsmanni og í 13 tilvikum var beðið eftir svörum frá stjórnvöldum.