26. september 2016

Auknar upplýsingar úr starfi umboðsmanns

Eftirliti umboðsmanns Alþingis með stjórnsýslunni er ætlað að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins.


Mikilvægur þáttur í því er að borgararnir hafi aðgang að upplýsingum um þau mál sem umboðsmaður fjallar um og geti þannig betur áttað sig á því hvort úrlausnir stjórnvalda í hliðstæðum málum eru í samræmi við lög og þær kröfur sem umboðsmaður hefur byggt á.

Upplýsingar fyrir borgarana og starfsmenn stjórnsýslunnar


Heimasíða umboðsmanns á að gefa færi á því að koma upplýsingum sem þessum á framfæri og veita jafnframt aðgang að fyrri úrlausnum mála. Fram að þessu  hefur aðgangur að gagnagrunni um þau álit sem umboðsmaður hefur sent frá sér og tilheyrandi leitarvél einkum þjónað þessum tilgangi.

Samhliða hefur þó verið reynt að birta fréttir úr starfi umboðsmanns. Þannig hafa t.d. verið birtar fréttir um mál þar sem umboðsmaður hefur óskað eftir upplýsingum til að leggja mat á hvort tilefni væri til að hefja frumkvæðisathugun og fréttir um slíkar athuganir. Á árunum 2010-2013 voru einnig settar inn í gagnagrunninn reifanir á málum sem umboðsmaður lauk án þess að það væri gert með álitum. Það var m.a. gert til að veita upplýsingar um framkvæmd á því hvaða mál gætu komið til athugunar hjá umboðsmanni.

Aðgengi að þessum upplýsingum er líka ætlað að auðvelda starfsfólki stjórnsýslunnar að kynna sér hvernig umboðsmaður hefur leyst úr málum. Þá á sama við um þá sem þurfa vegna náms að kynna sér úrlausnir umboðsmanns. Gagnagrunnur á heimasíðu umboðsmanns er upplýsingaveita um stjórnsýslurétt og hvernig umboðsmaður hefur túlkað reglur hans.

Aukið svigrúm í starfsemi umboðsmanns

Samhliða þeirri fjölgun kvartana til umboðsmanns sem varð á árunum 2011-2014 var ekki kostur á að sinna nema að takmörkuðu leyti samantekt á efni fyrir heimasíðuna og fréttaskrifum. Nú þegar kvörtunum hefur fækkað skapast skilyrði til þess að takast betur á við önnur verkefni hjá umboðsmanni samhliða afgreiðslu kvartana. Eitt þessara verkefna er aukin upplýsingagjöf og miðlun frétta um starf umboðsmanns og þau viðfangsefni sem hann fjallar um. Til að styrkja þennan þátt í starfseminni var m.a. við ráðningu nýrra starfsmanna í lok sumars litið til þessa verkefnis.

Upplýsingar um bréf og frumkvæðisathuganir

Auk þess sem álit og aðrar úrlausnir umboðsmanns verða gerðar aðgengilegar í gagngrunni er ætlunin að birta í auknum mæli fréttir á heimasíðunni um niðurstöður umboðsmanns í einstökum málum. Til að auka upplýsingagjöfina verður einnig  reynt ef tilefni er til að setja úrlausn umboðsmanns í samhengi við almenn álitaefni í stjórnsýslunni. Markmiðið með þessu er enn fremur að koma á framfæri við stjórnsýsluna ábendingum og leiðbeiningum um atriði sem betur mega fara í starfi hennar.

Það er almennt svo að þeim málum þar sem umboðsmaður telur tilefni til að setja fram bein tilmæli um úrbætur eða endurupptöku einstakra mála er lokið með áliti umboðsmanns. Öðrum málum er lokið með bréfum og þá fyrst og fremst til þess sem borið hefur fram kvörtun. Í ýmsum tilvikum telur umboðsmaður þó, m.a. í ljósi fyrri álita og skýrra lagareglna, rétt að koma samhliða á framfæri við viðkomandi stjórnvald ábendingu um atriði sem hann telur að stjórnvaldið þurfi að huga betur að í starfi sínu. Það gerir umboðsmaður með bréfi til stjórnvaldsins.

Fram að þessu hefur ekki verið unnt nema í undantekningartilvikum að gera grein fyrir þessum ábendingarbréfum á heimasíðu umboðsmanns eða í ársskýrslu hans til Alþingis. Vonast er til þess að hægt verði að auka upplýsingagjöf um slík bréf og þá með fréttum samhliða því sem bréfin fara inn í gagnagrunn á heimasíðunni.

Sama á við um þau fyrirspurnarbréf sem umboðsmaður sendir til að leggja mat á hvort tilefni sé til að hefja frumkvæðisathuganir, ákvarðanir um að taka mál til slíkrar athugunar og lyktir þeirra mála.

Persónugreinanlegar upplýsingar ekki birtar

Eins og áður mun umboðsmaður gæta þess við birtingu á upplýsingum á heimasíðunni að fjarlægja persónugreinanlegar upplýsingar um þá einstaklinga sem í hlut eiga en eðli málsins samkvæmt eru almennt birtar upplýsingar um hvaða stjórnvald á hlut að máli hverju sinni nema umboðsmaður meti það svo að slíkt skipti ekki máli við að koma á framfæri upplýsingum um það sem betur má fara í stjórnsýslunni.