27. október 2016

Rétturinn sé ljós af lestri reglnanna

Stjórnvöldum er gjarnan með lögum falið að mæla nánar fyrir um og útfæra réttindi borgaranna í reglugerðum eða öðrum reglum.


Slíkar reglur þurfa að vera það skýrar að efni til að borgararnir geti af lestri þeirra áttað sig á því hvaða réttindi þeir eigi t.d. til fyrirgreiðslu eða leyfa. Komi í ljós að túlkun stjórnvalda er rýmri heldur en beinlínis verður ráðið af reglunum er mikilvægt að þess sé gætt að breyta reglunum til samræmis við þá túlkun. Meðan það er ekki gert þurfa stjórnvöld í leiðbeiningum sínum til borgaranna að gæta þess að þeir fái upplýsingar um þá möguleika sem þeir kunna að eiga á grundvelli slíkrar túlkunar á reglunum.

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið umfjöllun sinni um kvörtun frá SÍNE vegna framfærslu námsmanna erlendis þar sem reyndi á ofangreinda aðstöðu. Í bréfi umboðsmanns til mennta- og menningarmálaráðuneytisins vegna málsins er minnt á að úthlutunarreglur LÍN verði að vera skýrar svo að námsmenn geti gert sér grein fyrir réttindum sínum.

Samband íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) kvartaði til umboðsmanns Alþingis yfir úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna lána til námsmanna erlendis.

SÍNE benti meðal annars á í athugasemdum sínum til umboðsmanns að af úthlutunarreglum sjóðsins mætti ráða að sjóðurinn gæti veitt lán vegna maka námsmanns. Það væri þó til dæmis bundið því skilyrði að maki námsmanns sem búsettur væri erlendis og hefði barn á framfæri ætti ekki rétt á atvinnuleyfi í því landi. Á hinn bóginn mætti skilja reglurnar þannig að ekki mætti lána aukalega vegna maka þegar hann væri atvinnulaus af öðrum ástæðum en þeim sem tilgreindar eru í grein 4.4 í úthlutunarreglunum.

Umboðsmaður kallaði af þessu tilefni eftir skýringum mennta- og menningarmálaráðuneytisins á úthlutunarreglunum og hvort þær samræmdust því lögbundna hlutverki sjóðsins að námslán ættu að nægja námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði.

Í svörum ráðuneytisins kom fram að stjórn sjóðsins mætti hækka framfærslu vegna maka í öðrum tilvikum en þeim sem talin eru upp í greininni. Í ljósi þessa vakti umboðsmaður athygli ráðuneytisins á að ekki kæmi fram með nægilega skýrum hætti í úthlutunarreglum lánasjóðsins fyrir skólaárið 2015-2016 að sjóðnum væri heimilt að hækka framfærslu vegna maka í öðrum tilvikum en þeim sem tilgreind eru sérstaklega í reglunum. Umboðsmaður tók fram að hann fengi ekki annað séð en að greinin stæði óbreytt í úthlutunarreglum fyrir skólaárið 2016-2017og benti á að ráðuneytið þyrfti að taka afstöðu til hvort rétt væri að ákvæðið yrði gert skýrara að þessu leyti til að endurspegla afstöðu ráðuneytisins.

Í bréfi til LÍN kom umboðsmaður þeirri ábendingu á framfæri að leiðbeiningum sjóðsins til námsmanna verði hagað til samræmis við framangreinda afstöðu ráðuneytisins. Umboðsmaður minnti jafnframt á að af þeirri leiðbeiningarskyldu sem hvílir á stjórnvöldum leiðir að þau skuli veita upplýsingar um túlkun þeirra á lögum og þá sérstaklega þegar hún verður ekki skýrt ráðin af þeim reglum sem um ræðir.

Í bréfi til SÍNE tók umboðsmaður fram að telji einstakir félagsmenn sambandsins að afgreiðsla sjóðsins á umsóknum þeirra hafi ekki verið í samræmi við úthlutunarreglur hans eins og þeim er lýst í skýringum ráðuneytisins sé þeim frjálst að leita til umboðsmanns með kvörtun af því tilefni að uppfylltum skilyrðum laga um umboðsmann Alþingis.

Mál þetta er númer 8722/2015 og bréf umboðsmanns til ráðherra, LÍN og SÍNE má lesa hér.