Frumkvæðisathugun á tilteknum atriðum er varða húsnæðisvanda einstaklinga í virkri áfengis- og vímunefnaneyslu.
Umboðsmaður Alþingis hefur frá árinu 2014 haft til meðferðar kvörtun heimilislauss einstaklings vegna þeirrar málsmeðferðar sem umsókn hans um félagslegt húsnæði hjá Reykjavíkurborg hefur fengið. Nánar tiltekið er staða hans sú að hann hefur verið meira eða minna heimilislaus frá byrjun árs 2012 þegar hann sótti um félagslegt leiguhúsnæði. Umsókn hans var samþykkt þar sem hann uppfyllti öll skilyrði reglna Reykjavíkurborgar og hann settur á biðlista með tiltölulega háa stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum í samræmi við húsnæðisvanda hans. Hins vegar liggur fyrir sú afstaða Reykjavíkurborgar að hann komi í reynd ekki til greina við úthlutun almenns félagslegs leiguhúsnæðis vegna þess að hann sé í virkri neyslu áfengis. Honum hafi þess vegna verið bent á sértæk búsetuúrræði borgarinnar fyrir utangarðsfólk. Umsókn hans um almennt félagslegt leiguhúsnæði hefur hins vegar aldrei verið synjað og er hann enn á biðlista eftir slíku úrræði nú fimm árum eftir að hann sótti um.
Fleiri kvartanir og ábendingar hafa borist umboðsmanni undanfarin misseri vegna sambærilegra mála og hefur umboðsmaður m.a. afla gagna frá Reykjavíkurborg í tilefni af ofangreindri kvörtun og almennt um hvaða úrræði eru í boði á vegum borgarinnar fyrir einstaklinga sem eru heimilislausir og jafnframt í virkri neyslu áfengis- og vímuefna. Þannig hefur umboðsmaður fengið upplýsingar um ný úrræði sem unnið er að á vegum borgarinnar. Undir lok síðasta árs kom fram við athugun umboðsmanns á máli sem verið hafði til úrlausnar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála en nefndin fer m.a. með úrskurðarvald vegna ákvarðana í tengslum við félagslegt leiguhúsnæði á grundvelli 63. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, að nefndin teldi að einstaklingar í sambærilegri stöðu og sá sem bar fram áðurnefnda kvörtun vegna tafa á úrlausn á húsnæðisvanda hans geti kært til nefndarinnar tafir sem orðið hafa á afgreiðslu þeirra um félagslegt leiguhúnæði þótt málinu hafi ekki verið formlega lokið, m.a. með vísan til 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem viðkomandi einstaklingur hafði ekki kært tafir á máli sínu til nefndarinnar taldi umboðsmaður í ljósi þess sem nú lægi fyrir um þessa nýju afstöðu nefndarinnar að lagaskilyrði væru ekki uppfyllt til að taka mál hans til frekari athugunar á grundvelli framangreindrar kvörtunar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og lauk hann því málinu með bréfi, dags. 30. desember sl. þar sem viðkomandi var leiðbeint um að leita til úrskurðarnefndarinnar.
Með bréfi sem birt er hér að neðan gerði umboðsmaður Reykjavíkurborg hins vegar grein fyrir því að hann hefði ákveðið að taka ákveðin almenn atriði er varða húsnæðisvanda einstaklinga sem eru í virkri áfengis- og vímuefnaneyslu til formlegrar athugunar að eigin frumkvæði á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Var sú ákvörðun tekin í kjölfar þeirra upplýsinga og skýringa sem umboðsmaður hafði aflað í tengslum við framangreinda kvörtun.
Athugunin beinist m.a. að því hvaða úrræði eru í boði fyrir þessa einstaklinga og hvernig staðið er að meðferð mála þeirra m.a. í ljósi atvika framangreinds máls. Jafnframt beinist hún að því hvaða skyldur hvíla á sveitarfélögum að lögum til að mæta þörfum þessara einstaklinga með heildstæðum hætti og þar með að hlutast til um að þeir fái dvalarstað þar sem þeir njóta friðhelgi einkalífs og heimilis með hliðsjón af þeim kröfum sem leiða af stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Í framangreindu bréfi var þess óskað að svar bærist eigi síðar en 20. janúar 2017.
Bréf umboðsmanns Alþingis til Reykjavíkurborgar, dags. 30. desember 2016, er birt
hér.