10. mars 2017

Ráðin forstöðumaður frumkvæðisathugana

Særún María Gunnarsdóttir, lögfræðingur, hefur verið ráðin forstöðumaður frumkvæðisathugana hjá umboðsmanni Alþingis frá 1. mars sl.


Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og starfsemi einkaaðila þegar þeim hefur verið fengið opinbert vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir. Sú starfsemi sem fellur undir eftirlit umboðsmanns er fjölþætt og þar er ekki einungis um að ræða töku ákvarðana stjórnvalda í málum borgaranna heldur kann framkvæmd margvíslegrar opinberrar þjónustu að falla undir eftirlitið. Eftirlit umboðsmanns beinist að því að borgararnir njóti þeirra réttinda og þjónustu, bæði að efni til og við málsmeðferð, sem Alþingi hefur mælt fyrir um. Þessu eftirliti sinnir umboðsmaður fyrst og fremst með því að taka til athugunar kvartanir frá borgurunum en hann getur einnig tekið mál eða starfsemi og málsmeðferð stjórnvalda til almennrar athugunar að eigin frumkvæði. Vegna fjölda kvartana á síðustu árum hefur umboðsmaður aðeins að litlu leyti getað sinnt frumkvæðisathugunum. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2017 ákvað Alþingi að auka við fjárveitingar til embættis umboðsmanns til að gera honum betur kleift að sinna frumkvæðismálunum.

Til að sinna og efla frumkvæðisathuganir af hálfu umboðsmanns hefur verið ákveðið að koma upp sérstakri starfseiningu innan embættis hans sem annast slíkar athuganir og sinnir jafnframt forathugunum á því hvort tilefni er til formlegrar frumkvæðisathugunar.  Liður í þessari starfsemi eru vettvangsathuganir þar sem talin er þörf á að kanna meðferð mála og þjónustu, svo sem í fangelsum og stofnunum þar sem einstaklingar sem búa við skert frelsi eða færni eru vistaðir.  

Særún María mun veita þessari starfseiningu forstöðu en hún útskrifaðist sem lögfræðingur frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2004 og starfaði sem lögfræðingur hjá Persónuvernd á árunum 2004 – 2008. Særún María kom til starfa hjá umboðsmanni Alþingis um mitt ár 2008 og hefur m.a. leyst skrifstofustjóra embættisins af í forföllum. Fyrst í stað mun að auki einn lögfræðingur, Flóki Ásgeirsson, starfa sérstaklega að þessum málum en Flóki kom til starfa hjá umboðsmanni að lokinni útskrift frá lagadeild Háskóla Íslands vorið 2013.