30. mars 2017

Samræmd könnunarpróf og innritun í framhaldsskóla

Undanfarið hafa umboðsmanni Alþingis borist kvartanir frá grunnskólanemendum yfir því að þeir hafi fengið misvísandi upplýsingar um hvernig farið yrði með niðurstöður samræmdra könnunarprófa og hvaða áhrif þær kynnu að hafa á innritun þeirra í framhaldsskóla.

Kvartanirnar hafa jafnframt beinst að þeim skamma tíma sem leið frá því að breytingar þar að lútandi voru kynntar og birtar þar til prófin fóru fram.

Vegna aðkomu allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis að málinu og samráðs sem boðað hefur verið til til að fara yfir framkvæmd prófanna og ræða mögulegar úrbætur hefur umboðsmaður ákveðið að taka málefnið ekki til frekari umfjöllunar að svo stöddu og bent nemendunum á að leita með athugasemdir sínar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Umboðsmaður hefur þó áður fjallað um breytingar á reglum um innritun í framhaldsskóla, sbr. álit frá 29. desember 2011 í málum nr. 5994/2010 og 6009/2010 . Þá benti hann ráðuneytinu á að í ljósi sjónarmiða um réttmætar væntingar yrði að gæta betur að því að birta tilkynningar um breytta stjórnsýsluframkvæmd við innritun í framhaldsskóla með hæfilegum fyrirvara. Í ljósi þess hefur umboðsmaður óskað þess að þegar niðurstöður samráðshóps ráðuneytisins liggja fyrir verði honum veittar upplýsingar um þær og jafnframt hvort og þá hvernig ráðuneytið hyggst bregðast við þeim. Að þeim svörum fengnum verður lagt mat á hvort tilefni sé til að taka málefnið til athugunar.