03. apríl 2017

Hugað sé að almennu hæfi starfsmanna

Hæfisreglur stjórnsýsluréttarins lúta bæði að sérstöku hæfi starfsmanna stjórnsýslunnar til að fjalla um einstök mál og því sem nefnt er almennt neikvætt hæfi.


Umboðsmaður Alþingis lauk nýverið umfjöllun um kvörtun frá Landssambandi veiðifélaga þar sem kvartað var yfir svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við erindi félagsins sem fól í sér beiðni um að Ísafjarðardjúpi og Eyjafirði yrði lokað fyrir fyrir eldi á frjóum norskum eldislaxi. Kvörtunin laut m.a. að aðkomu dýralæknis fisksjúkdóma að svari ráðuneytisins en landssambandið taldi hann vanhæfan til að koma að málinu.

Í skýringum stjórnvalda í tilefni af athugun umboðsmanns kom m.a. fram að starfsmaður Matvælastofnunar, dýralæknir fisksjúkdóma, ávísaði og seldi bóluefni til fiskeldisfyrirtækja, þæði þóknun í formi þjónustugjalds og bæri fjárhagsleg áhættu af þeim viðskiptum. Hins vegar afhenti hann ekki bólefni til fiskeldisfyrirtækja sem kæmu með beinum hætti að rekstri eða leyfisumsóknum í Eyjafirði eða Ísafjarðardjúpi. Umboðsmaður lauk athugun sinni á kvörtuninni með bréfi til landssambandsins, dags. 29. mars sl. Í bréfinu var m.a. bent á að svar ráðuneytisins hefði ekki falið í sér stjórnvaldsákvörðun í máli sem landssambandið ætti aðild að og að með hliðsjón af aðkomu og hugsanlegum hagsmunum umrædds starfsmanns væru ekki forsendur til að fullyrða að aðkoma hans hefði farið í bága við hæfisreglur stjórnsýsluréttar. Sá hluti bréfsins sem laut að hugsanlegu vanhæfi starfsmannsins er birtur hér.

Framangreind kvörtun og skýringar stjórnvalda af því tilefni urðu umboðsmanni hins vegar tilefni til að rita sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bréf, dags. 29. mars sl., þar sem hann kom á framfæri tilteknum ábendingum í tengslum við störf dýralækna fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun, einkum er varðar reglur um almennt neikvætt hæfi til að gegna umræddum störfum. Umboðsmaður óskaði jafnframt eftir því að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið veitti honum upplýsingar um hver viðbrögð þess yrðu við ábendingunum  með það fyrir augum að hann gæti tekið afstöðu til þess hvort tilefni væri til að taka þetta atriði til frekari athugunar að eigin frumkvæði.

Bréf umboðsmanns Alþingis til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, dags. 29. mars sl., má sjá hér.