12. september 2017

Neytendavernd á fjármálamarkaði

Í kjölfar falls bankanna og erfiðleika í fjármálum einstaklinga og fyrirtækja bárust umboðsmanni erindi þar sem reyndi á eftirlit og úrræði borgaranna innan stjórnsýslunnar á sviði neytendaverndar á fjármálamarkaði.


Þetta varð umboðsmanni tilefni til þess að huga nánar að stöðu þessara mála í stjórnkerfinu og þá meðal annars með tilliti til þeirra skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt EES-samningnum.

Í þessum málum reynir á hvort og þá í hvaða mæli stjórnvöldum hefur verið falið að sinna neytendavernd og þar með að fjalla um ágreining vegna viðskipta milli fyrirtækja sem starfa á þessu sviði og viðskiptamanna þeirra. Við athuganir umboðsmanns á þessum málum hafði komið fram að Fjármálaeftirlitið fjallaði almennt ekki um einstakar kvartanir borgaranna vegna tilgreindra athafna fjármálafyrirtækja eða veitti þeim sem leitaði til þess með slíkum hætti stöðu aðila máls. Athugun Fjármálaeftirlitsins í tilefni af slíkum erindum, kæmi til hennar, beindist því almennt að starfsháttum  fjármálafyrirtækja. Neytendastofa fer einnig með ákveðin verkefni á þessu sviði samkvæmt lögum, auk þess sem hér á landi hefur verið farin sú leið að koma á fót sérstökum úrskurðarnefndum á ákveðnum sviðum þessara mála en ekki hefur verið að öllu leyti skýrt að hvaða marki þær eru hluti af stjórnsýslunni og falli þar með undir eftirlit umboðsmanns Alþingis.

Í ljósi þessa og vegna áðurnefndra kvartana og ábendinga átti umboðsmaður í samskiptum við bæði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið frá árinu 2011. Samkvæmt þeim voru uppi áform um endurskoðun á úrlausnarleiðum neytenda á sviði fjármálamarkaðar og þar á meðal umgjörð úrskurðarnefnda á þessu sviði. Síðan hefur umboðsmaður fylgst með starfi stjórnvalda að þessum málum og þá með það í huga að reglur um þessi mál séu skýrar og þar með hvaða aðkomu borgarnir geti vænst af hálfu stjórnsýslunnar vegna þessara mála. Hinn 5. júlí sl. áttu starfsmenn umboðsmanns fund með starfsmönnum fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem fram kom að þessi áform væru enn uppi þótt endanleg ákvörðun um hvaða leið yrði fyrir valinu lægi ekki fyrir. Af hálfu ráðuneytisins kom þó fram að við slíka endurskoðun yrði m.a. tekið mið af þeim gerðum Evrópusambandsins sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn á þessum tíma. Með vísan til þess, en einnig atvika eins og tilkomu nýrra laga um neytendalán og fasteignalán til neytenda þar sem verkefni stjórnvalda á þessu sviði hafa m.a. verið útfærð nánar, ákvað umboðsmaður að hefja ekki formlega athugun á málinu að eigin frumkvæði. Hann taldi þó rétt að koma á framfæri ábendingum er vörðuðu mikilvægi þess að fyrir liggi með skýrum hætti hvernig aðkomu stjórnsýslunnar að málefnum borgaranna sé háttað og stöðu úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki innan stjórnsýslunnar.
Málinu var lokið 5. september sl. og má hér sjá bréf umboðsmanns Alþingis til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins.