14. september 2017

Aðgengi heyrnarskertra að sjónvarpsefni

Ríkisútvarpið ohf. skal samkvæmt lögum veita heyrnarskertum aðgang að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu með textun á fréttum og öðru sjónvarpsefni.


Nánar er fjallað um fyrirkomulag þessa í lögum en jafnframt skal í þeim samningi sem mennta- og menningarmálaráðherra ber að gera við Ríkisútvarpið ohf. m.a. kveðið á um hvernig best verði tryggt aðgengi og þjónusta við þá sem vegna fötlunar eða af öðrum ástæðum eru ófærir um að nýta sér hefðbundna fjölmiðlaþjónustu. 
Umboðsmanni Alþingis hafa af og til borist kvartanir og ábendingar frá einstaklingum sem búa við heyrnarskerðingu um skort á aðgengi að þjónustu Ríkisútvarpsins og þar með að það fullnægi ekki þeim kröfum sem kveðið er á um í lögum. Ríkisútvarpið er opinbert hlutafélag og því ekki hluti af þeirri stjórnsýslu ríkisins sem fellur undir starfssvið umboðsmanns. Öðru máli gegnir hins vegar um þau verkefni sem ráðherra eru falin á þessi sviði. Af því tilefni átti umboðsmaður í samskiptum við ráðuneyti mennta- og menningarmála á árinu 2014 þar sem í ljós kom að lögbundinn samningur ráðherra við Ríkisútvarpið hafði ekki verið gerður. Áfram var því fylgst með þróun mála á þessu sviði. Í ljósi þess að samningur mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu 2016-2019 var undirritaður 5. apríl 2016 og með hliðsjón af því sem fram hafði komið í eftirfarandi samskiptum umboðsmanns við Heyrnarhjálp - landssamband heyrnarskertra á Íslandi taldi umboðsmaður ekki tilefni til að halda áfram forathugun sinni á málinu að öðru leyti en að koma athugasemdum félagsins á framfæri. Umboðsmaður tók fram að einnig þyrfti að líta til þess að ræksla Ríkisútvarpsins á því almannaþjónustuhlutverki sem fjallað er um í samningnum lýtur sérstöku eftirliti fjölmiðlanefndar.
Málinu var lokið 5. september sl. og má hér sjá bréf umboðsmanns Alþingis til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.