15. janúar 2018

UA 30 ára – Sagan í tölum

Síðastliðin áramót voru 30 ár liðin frá því fyrstu lög um umboðsmann Alþingis, lög nr. 13/1987, tóku gildi.

Upphafið

Lögin voru samþykkt á Alþingi 9. mars 1987 og 17. desember það ár var dr. Gaukur Jörundsson, þá prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, kjörinn umboðsmaður Alþingis. Fyrsta kvörtunin barst umboðsmanni strax daginn eftir að hann var kjörinn en að loknum undirbúningi var skrifstofa umboðsmanns opnuð að Rauðarárstíg 27 í Reykjavík 11. júlí 1988. Gaukur gegndi starfi umboðsmanns til 1. nóvember 1998 er hann var kjörinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Frá þeim tíma hefur Tryggvi Gunnarsson, áður hæstaréttarlögmaður, gegnt embætti umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður er kjörinn af Alþingi til fjögurra ára í senn.
Á fyrsta starfsári umboðsmanns voru skráð hjá honum 70 ný mál og 35 þeirra var lokið í árslok. Fyrsta málinu lauk 2. júní 1988 með bréfi en fyrsta álitið sendi umboðsmaður frá sér 13. október sama ár og laut það að starfsréttindum leigubifreiðastjóra. Í þrjátíu ára sögu embættisins hafa verið skráð samtals 9541 mál.  Þar af eru kvartanir 9396 og mál sem umboðsmaður hefur tekið til athugunar að eigin frumkvæði 145. Á starfstímanum hefur umboðsmaður sent frá sér 1130 álit. Afgreidd mál voru 9447 í árslok 2017.
Afdrif mála
Frá upphafi hefur meginverkefni umboðsmanns Alþingis verið að fjalla um kvartanir frá einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum vegna stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. „Alþingi ákvað með stofnun umboðsmanns að borgararnir gætu leitað til þessa sjálfstæða trúnaðarmanns þingsins ef þeir teldu að stjórnsýslan hefði ekki staðið rétt að málum þeirra. Viðfangsefni umboðsmanns er því fyrst og fremst að hafa eftirlit með því að borgararnir njóti þeirra réttinda og fyrirgreiðslu sem Alþingi hefur ákveðið og að stjórnsýslan leysi úr málum þeirra í samræmi við þær reglur sem henni ber að fara eftir,“ segir Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Eins og sjá má á þessari mynd um skiptingu skráðra mála hjá umboðsmanni eftir afgreiðslu þeirra 1988-2016 hafa um 58% þeirra verið felld niður að lokinni frumathugun eða þau hafa ekki uppfyllt skilyrði laga til þess að umboðsmaður fjallaði um þau. Í nær 30% málanna hefur umboðsmaður fellt þau niður eftir að hafa fengið skýringar hjá stjórnvöldum eða stjórnvald hefur leiðrétt málið gagnvart þeim sem kvartaði í framhaldi af bréfi umboðsmanns. Rúmlega 12% málanna hefur lokið með áliti en það eru mál þar sem umboðsmaður hefur talið tilefni til þess að beina formlegum tilmælum til stjórnvalda. Árlegum fjölda álita hefur fækkað umtalsvert síðustu ár enda liggur afstaða umboðsmanns til fjölmargra almennra álitamála í stjórnsýslunni þegar fyrir í álitum sem unnt er að vísa til í samskiptum við stjórnvöld. Flest voru álitin 80 árið 1996 en þau hafa að jafnaði verið um 38 á ári hverju. Á síðasta ári voru þau 14 talsins. Á síðari árum og í ljósi þess að umboðsmaður hefur þegar fjallað um ýmis álitamál innan stjórnsýslunnar hefur í vaxandi mæli verið farin sú leið af hálfu umboðsmanns að koma ábendingum á framfæri við stjórnvöld um það sem betur megi fara í starfsemi þeirra. Beri þær ekki árangur kann að koma til þess að umboðsmaður fjalli á ný um viðkomandi atriði í störfum stjórnvaldsins.
Viðbrögð stjórnvalda við tilmælum umboðsmanns
Frá árinu 2001 hefur umboðsmaður birt í ársskýrslum yfirlit um hvernig stjórnvöld hafa brugðist við tilmælum umboðsmanns. Alls hefur umboðsmaður beint til stjórnvalda 625 tilmælum. Í 488 tilvikum lá fyrir þegar ársskýrslan var birt að stjórnvald hafði farið eftir tilmælum umboðsmanns. Í 72 tilvikum leitaði málsaðili ekki aftur til stjórnvaldsins með beiðni um endurskoðun. Í 31 tilviki var mál enn til meðferðar hjá stjórnvaldi og í 34 tilvikum, eða í 5,5% af heildarfjölda tilmæla, hafði stjórnvaldið ekki farið eftir tilmælum. Þessar tölur miðast við fyrirliggjandi upplýsingar sem aflað er vegna útgáfu ársskýrslu. Því verður að gera þann fyrirvara að eftir að þeirra er aflað kunna að hafa orðið breytingar á afstöðu stjórnvalda til þess að fylgja tilmælum, s.s. vegna inngripa æðra stjórnvalds eða þess að viðkomandi málsaðili hefur fengið sambærilega niðurstöðu í dómsmáli.
Frumkvæðiseftirlit
Annar veigamikill þáttur í starfi umboðsmanns hefur frá upphafi verið heimild hans til þess að taka einstök mál, starfsemi eða málsmeðferð stjórnvalda til athugunar að eigin frumkvæði. Á þeim 30 árum sem umboðsmaður hefur starfað hafa verið skráð 145 frumkvæðismál hjá embættinu. Á síðustu árum hefur gjarnan verið farin sú leið að senda stjórnvöldum svonefnd forathugunarbréf þar sem aflað er upplýsinga um tiltekið mál eða starfshætti. Í ýmsum tilvikum hafa bréfin leitt til þess að stjórnvöld hafa brugðist við og bætt úr viðkomandi atriði. Í öðrum tilvikum hefur umboðsmaður hugað að því að taka málin til formlegrar athugunar. Þau mál sem stofnað hefur verið til á grundvelli slíkra forathugunarbréfa á árunum 2013 til 2017 eru alls 73.
Frumkvæðiseftirlit umboðsmanns hefur beinst að ýmsum atriðum í starfsháttum stjórnvalda. Veigamikill þáttur í þessu starfi hefur frá upphafi verið eftirlit með starfsemi fangelsanna. Á árinu 2018 mun umboðsmaður taka við því hlutverki að hafa hér á landi eftirlit með framkvæmd á samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, svonefnt OPCAT-eftirlit.
Meinbugir á lögum
Samkvæmt 11. gr. laga um umboðsmann Alþingis ber umboðsmanni að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður þess var að meinbugir séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum. Á starfstíma umboðsmanns hefur hann sent frá sér 133 slíkar tilkynningar.