26. janúar 2018

Umboðsmaður tekur við OPCAT-eftirliti

Á árinu 2018 mun umboðsmaður Alþingis taka við svokölluðu OPCAT-eftirliti með stöðum þar sem dvelja einstaklingar sem eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu og miðar að því að koma í veg fyrir að pyndingar eða önnur grimmileg eða vanvirðandi meðferð viðgangist.


Með þingsályktun 19. desember 2015 fól Alþingi ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (OPCAT), sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 18. desember 2002 og undirrituð af Íslands hönd 23. september 2003, ásamt því að hefja án tafar undirbúning hennar hér á landi. Í bókuninni er kveðið á um tvíþætt eftirlit. Annars vegar eftirlit á vegum alþjóðlegrar nefndar sem heimsækir ríki sem fullgilt hafa bókunina og hins vegar eftirlit sem komið er á fót innan hvers aðildarríkis samkvæmt fyrirmælum bókunarinnar. Forsætisnefnd Alþingis hefur, að tillögu dómsmálaráðuneytisins og með aðkomu velferðarráðuneytisins, fallist á að umboðsmaður Alþings annist eftirlit á grundvelli hennar hér á landi. Alþingi fylgir hér fordæmi hinna Norðurlandanna og margra annarra landa í Evrópu þar sem umboðsmönnum þjóðþinganna hefur verið falið að fara með OPCAT-eftirlitið.

Nú er unnið að undirbúningi breytinga á lögum um umboðsmann Alþingis vegna þessa. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2018 var veitt sérstök fjárveiting til þessa eftirlits og á næstunni verður hugað að starfsfólki til að sinna eftirlitinu. Samhliða þessu er einnig hafinn undirbúningur að skipulagi eftirlitsins hér á landi og samantekt á efni sem þarf að liggja fyrir. Þá þarf að huga að því hvernig þessu eftirliti verður hagað með tilliti til þess almenna frumkvæðiseftirlits sem umboðsmaður fer með gagnvart stjórnsýslunni. Um þessi atriði er meðal annars sótt í smiðju systurstofnanna umboðsmanns á Norðurlöndunum.

Með frelsissviptingu í áðurnefndri bókun er átt við hvers konar gæslu, fangelsun eða vistun af hálfu opinberra aðila eða einkaaðila þar sem einstaklingurinn hefur ekki leyfi til að yfirgefa vistunina vegna úrskurðar, ákvörðunar eða samþykkis dómstóls, stjórnvalds eða annars yfirvalds. Undir þetta geta einnig fallið tilvik þar sem yfirvöld láta frelsissviptinguna átölulausa. Umboðsmaður hefur í dag fullnægjandi lagaheimildir til eftirlits með stofnunum ríkis og sveitarfélaga þar sem frelsissviptir einstaklingar dvelja en auka þarf við lagaheimildir hans til þess að eftirlitið geti tekið til stofnana og heimila á vegum einkaaðila þar sem frelsissviptir einstaklingar dvelja. Einnig verða lagabreytingarnar að taka mið af því að gert er ráð fyrir að niðurstaða umboðsmanns við eftirlitið kann að beinast að öðrum þáttum en þeim sem afmarkaðir eru í gildandi lögum, þ.e. hvort brotið sé í bága við lög, vandaða stjórnsýsluhætti eða siðareglur. Er hér átt við atriði eins og aðbúnað eða meðferð þeirra sem dvelja á umræddum stofnunum eða heimilum í ljósi sjónarmiða um mannúð (mannsæmandi aðbúnað) eða mannvirðingu. Gert er ráð fyrir að frumvarp til breytinga á lögum vegna eftirlitsins verði lagt fram á Alþingi í vetur en umboðsmaður mun eins fljótt og kostur er fella það eftirlit sem hann þegar hefur með opinberum stofnunum, eins og t.d. fangelsum, í farveg sem fellur að OPCAT-eftirlitinu.

Í bókuninni er sérstaklega kveðið á um ýmsar skuldbindingar aðildarríkjanna, m.a. til að veita eftirlitsaðilum, bæði innlendum og alþjóðlegum, ótakmarkaðan aðgang að upplýsingum um fjölda frelsissviptra einstaklinga á hverri stofnun, fjölda slíkra stofnana og staðsetningu þeirra, allar upplýsingar um meðferð þeirra og aðbúnað, ótakmarkaðan aðgang að stofnunum sjálfum og möguleika á einkaviðtölum við frelsissvipta einstaklinga. Einnig er fjallað um vernd þeirra sem eftirlitsaðilar ræða við og afla upplýsinga hjá og er óheimilt að beita þá hvers kyns refsingu eða láta þá gjalda fyrir samskipti við eftirlitsaðilana. Þá hafa aðildarríkin skyldu til að taka við tilmælum og ábendingum, bæði hinna innlendu og erlendu eftirlitsaðila, um það sem betur má fara, bæði hvað varðar framkvæmd og lagasetningu, og eftir atvikum eiga samskipti og samráð um innleiðingu.

Eins og áður sagði tekur eftirlit samkvæmt bókuninni til staða þar sem frelsissviptir einstaklingar dvelja og ástæður þess kunna bæði að vera ákvarðanir sem yfirvöld hafa tekið eða það leiðir í reynd af því fyrirkomulagi sem haft er við vistunina eða ástandi þess sem í hlut á. Fjöldi þeirra staða sem eftirlitið tekur til á hverjum tíma getur því verið breytilegur en við athugun á hugsanlegum fjölda þessara staða hér á landi, miðað við þær viðmiðanir sem fylgt er í nágrannalöndum okkar, gætu þeir verið um 200 talsins. Fjöldi einstaklinga sem dvelst á þessum stöðum er mjög mismunandi en hér er m.a. um að ræða fangelsi, lögreglustöðvar, vistunarúrræði á vegum barnaverndaryfirvalda og fyrir fólk með geðraskanir eða geðfatlanir, dvalar- og hjúkrunarheimili, sambýli og önnur búsetuúrræði, svo eitthvað sé nefnt.