05. mars 2018

Bréf til þingnefndar vegna Landsréttarmálsins

Umboðsmaður Alþingis sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis bréf sl. föstudag í framhaldi af samþykkt nefndarinnar 6. febrúar sl.


Nefndin samþykkti þá að gera hlé á umfjöllun sinni á máli sem nefndin hefur fjallað um vegna ákvarðana dómsmálaráðherra og verklag við vinnslu tillögu til Alþingis um skipan dómara í Landsrétt. Fram kom í samþykkt fundarins að þetta væri gert til að gefa umboðsmanni Alþingis rými til að taka afstöðu til þess hvort hann hefji frumkvæðisathugun á málinu. Í bréfinu veitir umboðsmaður nefndinni upplýsingar í tilefni af samþykkt hennar og í lok bréfsins dregur umboðsmaður saman afstöðu sína:

• Í ljósi fyrirliggjandi umfjöllunar dómstóla og Alþingis um undirbúning og ákvarðanir dómsmálaráðherra vegna tillagna um skipun dómara í Landsrétt telur umboðsmaður Alþingis ekki tilefni til þess að hann taki einstök atriði þess máls til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga um umboðsmann. Sama gildir um framkomnar upplýsingar um hvernig staðið var að ráðgjafarskyldu 20. gr. stjórnarráðslaganna. Í bréfi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar  víkur umboðsmaður einnig að tilteknum atriðum sem hann hugaði að við undirbúning að svari til nefndarinnar en telur ekki tilefni til að fjalla frekar um.

• Stigagjöf við mat á umsækjendum um opinber störf varð umboðsmanni Alþingis tilefni umfjöllunar í skýrslu til Alþingis fyrir árið 2016. Í framhaldinu hefur umboðsmaður hugað að því að hefja frumkvæðisathugun þar sem dregin verða fram dæmi um áhrif slíkrar stigagjafar og hvernig hún horfir við m.t.t. reglna stjórnsýsluréttarins, úrlausna dómstóla og vandaðra stjórnsýsluhátta, og þá sérstaklega með það í huga að hvaða leyti þurfi að vanda betur til þessara mála. Þessi athugun mun ekki einskorðast við matsgerðir dómnefndar um hæfni umsækjenda um embætti dómara heldur verður aflað gagna úr starfi annarra matsnefnda og eftir því sem færi er á úr málum vegna fleiri ráðninga, þ.m.t. málum sem hafa komið til kasta umboðsmanns. Að lokinni gagnaöflun verður tekin endanleg ákvörðun um frumkvæðisathugunina og tilkynnt um í hvaða farveg málið verður lagt.

Bréf umboðsmanns má sjá hér.