29. maí 2018

Ákvæði reglugerða þurfa heimildir í lögum

Við athugun á kvörtun vegna ráðstöfunar á leiðréttingu verðtryggðra fasteignamála reyndi á hvort ákvæði í reglugerð sem ráðherra hafði sett eftir að umsóknarfrestur var liðinn hefði næga lagastoð.

Þegar stjórnvöldum er með lögum veitt heimild til að útfæra þau nánar, t.d. þannig að ráðherra geti með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laganna, leiðir af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins að takmarkanir eru á því að hvaða marki unnt er að mæla fyrir um nýja efnisreglu í reglugerðinni. Þetta á sérstaklega við ef ákvæði reglugerðarinnar eru meira íþyngjandi fyrir borgarana en ákvæði viðkomandi laga og um er að ræða mikilsverða hagsmuni þeirra, s.s. fjárhagslega hagsmuni. Þá getur það leitt af sjónarmiðum um fyrirsjáanleika í lagaframkvæmd og réttmætar væntingar borgaranna stjórnvöldum eru takmörk sett varðandi afturvirkni slíkra reglna.

Samkvæmt grundvallarreglum um fjármál hjóna, sem m.a. koma fram í hjúskaparlögum, hefur maki ráðstöfunarrétt yfir eign sinni og ber ábyrgð á þeim skuldbindingum sem á honum hvíla en ekki skuldbindingum maka síns. Hjón njóta því almennt séð sjálfstæðs réttar um fjárhagsleg málefni. Sé ætlunin að víkja frá þessari skipan fjármála í hjúskap með lagasetningu í ákveðnum tilvikum verður í ljósi þessara grundvallarreglna að gera þá kröfu að slíkt að komi skýrt fram í viðkomandi lagaákvæðum.

Með lögum frá 2014 var kveðið á um skipan og fyrirkomulag leiðréttingar á verðtryggingu fasteignaveðlána heimila á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Var umsóknarfrestur samkvæmt lögunum frá 15. maí til 1. september 2014 og unnt var að sækja um sem einstaklingur auk þess sem hjón eða sambýlisfólk gátu sótt um sameiginlega. Í áliti setts umboðsmanns Alþingis frá 15. maí sl. er fjallað um hvort stjórnvöldum sé heimilt að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð umsækjanda, sem ekki var í hjúskap 2008-2009, inn á lán síðar til komins maka.

Eftir að umsóknartímabili fyrrnefndra laga lauk setti ráðherra ákvæði í reglugerð um að leiðréttingarfjárhæð hjóna á samþykktardegi ráðstöfunar skuli ráðstafað óháð því hvort hjóna er formlega ábyrgt fyrir láni og óháð því hvort sótt var um saman. Í áliti sínu bendir settur umboðsmaður á að með lögunum sé ráðherra veitt heimild til að setja reglur um framkvæmd þeirra í reglugerð. Umdeilt ákvæði reglugerðarinnar felur hins vegar í sér að hið fjárhagslega hagræði sem umsækjandinn átti rétt til var ráðstafað til annars einstaklings. Með ákvæðinu var því sett ný efnisregla um inntak réttarins til leiðréttingar sem að mati setts umboðsmanns kemur ekki fram í lögunum. Það hefur því ekki lagastoð að þessu leyti og því skorti viðhlítandi réttarheimild fyrir niðurstöðu stjórnvalda í málinu.

Álit setts umboðsmanns í máli nr. 8670/2015 frá 14. maí 2018 má lesa hér.