19. nóvember 2018

Verkferlar vegna gruns um pyndingar

Fréttaflutningur af úrskurði kærunefndar í útlendingamálum, sem lagði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn til meðferðar á ný vegna annmarka á rannsókn málsins og rökstuðningi ákvörðunar, varð til þess að forathugun á vinnubrögðum stofnunarinnar hófst hjá umboðsmanni.

Bað hann bæði um viðbrögð hennar vegna málsins og einnig upplýsingar um hvort unnið væri eftir verkferlum þegar grunur léki á að umsækjandi um alþjóðlega vernd hefði orðið fyrir pyndingum. Hverjir verkferlarnir væru og ef þeim væri ekki til að dreifa hvort til stæði að breyta því. Einnig var dómsmálaráðuneytið spurt hvort málið hefði orðið tilefni til einhverra viðbragða af hálfu þess eða hvort slíkt stæði til.

Í svari Útlendingastofnunar kom fram að engir formlegir og staðfestir verkferlar hefðu legið fyrir þegar svona háttaði til. Ef umsækjendur um alþjóðlega vernd hefðu lýst atburðum eða líðan sem kallaði á aðkomu sálfræðinga, geðlækna eða annarra heilbrigðisstarfsmanna hefði viðkomandi verið tryggð viðeigandi aðstoð. Dómsmálaráðuneytið staðfesti að fylgst hefði verið með framvindunni og aðstoð og ráðleggingar í boði gerðist þess þörf.

Við frekari eftirgrennslan umboðsmanns kom fram hjá Útlendingastofnun að skimað sé fyrir andlegum veikindum hjá umsækjendum um alþjóðlega vernd og verið sé að þróa það próf frekar svo það henti betur aðstæðum.

Í ljósi svara bæði Útlendingastofnunar og dómsmálaráðuneytisins taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka framkvæmd stofnunarinnar hvað þetta snertir til formlegrar athugunar. Hann benti á að mikilvægt sé að þau mælitæki sem stuðst er við taki, eftir því sem unnt er, mið af þeim ólíku aðstæðum sem geta legið til grundvallar þess að umsækjandi um alþjóðlega vernd teljist í viðkvæmri stöðu.

Skoða nánar